04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir tekið aftur 1. till. á þskj. 706, og skal jeg lýsa því yfir, að jeg er honum samþykkur í því. Jeg ætla því ekki að ræða hana, þó hún hafi verið tekin upp aftur, en víkja að síðustu till. á þessu sama þskj. Hún er þess efnis, að stjórninni sje heimilt að ábyrgjast húsabyggingarlán handa byggingarfjelagi starfsmanna ríkisins í Reykjavík. Jeg skal játa það, að mörgum kann að þykja glannalegt að ábyrgjast 20 þús. kr. á hverja íbúð, því það þurfa að vera sæmilega góðar íbúðir til þess að þær kosti 20 þús. kr. En hinsvegar verður að gæta að því, að ríkissjóður á að hafa 1. veðrjett í húsunum, og auk þess hefir hann aðra tryggingu í launum embættismannanna. Á þinginu 1923 var samþ. í fjárl. till. um ábyrgð á 70 þús. kr. láni fyrir byggingarfjelag starfsmanna ríkisins, gegn 2. veðrjetti í húseignum þess fjelags, og auk þess var því veittur hár styrkur í fjárlögum. Hjer á það þó að vera 1. veðrjettur. Aðeins var það þá tekið fram, að upphæð þeirra lána, er hvíldu á húseignunum með 1. og 2. veðrjetti, mætti ekki fara fram úr því, er landsstjórnin teldi trygt. Slíkar ábyrgðir hafa því fordæmi, þó jeg játi hinsvegar, að það geti verið athugavert að koma með svona stórar brtt. á síðustu stundu. En það var aðeins af því að jeg studdi till. 1923, að jeg gerðist meðflm. þessarar till. Jeg hefi svo ekki fleira að segja um bær brtt., sem fyrir liggja. Hefi jeg þegar gert grein fyrir þeim öðrum, er jeg flyt, en þessi síðasta kom ekki fyr en í dag. Að öðru leyti verður náttúrlega atkvgr. að sýna, hvernig þeim reiðir af.