18.02.1928
Efri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi ekki hugsað mjer að vera margorður um þetta frv., því að vitanlegt er, að það mun hafa litla þýðingu, ef dæma má eftir atkvgr. um málið í Nd.

Kjördæmaskiftingin hjer á landi hefir lengst af verið miðuð við sýslur eða lögsagnarumdæmi, og svo er það víðast enn. Það má telja hreina tilviljun, að kaupstaðirnir fengu sjerstakan þm. Það stafaði af því, að konungkjörnu þm. voru lagðir niður. Og í staðinn fyrir að fækka þm. þá um 6, eða breyta kjördæmaskipuninni, var þeim holað niður eins og gert var, í kaupstaðina. — En aldrei hefir mönnum hugsast fyrr en nú að sníða kjördæmaskipunina eftir flokkum. Sá grundvöllur virðist æðiótraustur sem grundvöllur fyrir kjördæmaskipun, eins og eðlilegt er. Reynslan hefir sýnt oss, að flokkar myndast og flokkar hverfa. Í einu kjördæmi ræður einn flokkur stutt tímabil og annar flokkur hitt tímabilið. Varanleg kjördæmaskipun getur því ekki bygst á þeirri tilviljun, hvaða flokkur er í meiri eða minni hluta á þessum stað eða hinum staðnum eitthvert ákveðið stutt tímabil. Og allra síst, þegar um hluta af kjördæmi er að ræða. Þetta sjá allir, sem vilja sjá.

Gullbringu- og Kjósarsýsla með Hafnarfirði er eitt lögsagnarumdæmi, eins og flest kjördæmi landsins eru. Að vísu hefir kjósendum fjölgað í þessu kjördæmi síðustu árin, vegna fjölgunar í Hafnarfirði. Og ef hv. þm. vildu minka þetta kjördæmi, þá lægi næst að leggja Kjósarsýslu undir annað kjördæmi, t. d. Borgarfjarðarsýslu, sem má telja hreint bændakjördæmi.

Jeg hefi sýnt fram á það, að óhugsandi er að byggja kjördæmaskipunina á stærð hinna pólitísku flokka í hinum ýmsu kjördæmum og á ýmsum tímum. En þetta er þó verið að reyna að gera með frv. þessu. En lítum nú á aðstöðu frv. frá þeirri hlið. Bæði sýslunefnd Gullbringusýslu og Kjósarsýslu hafa eindregið og einróma mótmælt þessari breytingu. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ein hefir samþykt hana, þ. e. meiri hlutinn, 2/3 af bæjarstjórninni. Kosningarnar síðustu sýna, að sósíalistar hafa tapað í kjördæmi þessu. Við kosningarnar 1926 fengu þeir 958 atkvæði, en íhaldsmenn 1318. En við kosningarnar 1927 fengu jafnaðarmenn ekki nema 683 atkv. af 2125 atkv., sem greidd voru, eða rjett um 1/3 hluta atkvæðanna. Flokkur þessi hefir því rýrnað að mun við kosningarnar 1927. Sá flokkur hefir því enga rjettmæta kröfu á öðru þingsætinu, frá hvaða hlið, sem málið er skoðað. — Sósíalistar í hv. Nd. kendu óhagstæðum kjördagstíma um, að þeim hrakaði við síðustu kosningar, — sjómenn hafi þá verið fjarverandi. En þetta er haldlaus ástæða, því að bæði er það, að því fer svo fjarri, að allir sjómenn sjeu sósíalistar, og svo hafa sjómenn mjög greiðan aðgang að því að kjósa, þótt þeir sjeu á sjó sjálfan kjördaginn. Og það mun síst vanta, að sósíalistaforingjarnir passi upp á hjörð sína. Og ekki mun aðalforingi sósíalista hjer í deildinni láta sitt eftir liggja.

Þá hefir það verið talið þessu frv. til stuðnings, að 650 áskoranir úr Hafnarfirði hafa verið sendar þinginu frá sósíalistum þar, um að Hafnarfjörður fengi annan þingmanninn fyrir sig, en ekki nema 325 áskoranir frá íhaldsmönnum, sem skora á þingið að láta kjördæmið haldast eins og það er. 650 áskoranir sósíalista er ekki nærri helmingur kjósendanna í Hafnarfirði, samkvæmt síðustu kjörskrá. Þessir 650 menn eru ekki nærri allir á kjörskrá. Sumir hafa skrifað tvisvar á listana. Og loks er alls ekki líklegt, að allir undirskrifendurnir fylgdu sósíalistum, er til þingkosninga kæmi. Það sýnir atkvæðatalan, sem sósíalistar fengu við síðustu kosningar, 683 atkv., og eiginlega ekki nema 651, sem þeir fengu samstæð. Og eitthvert slangur hafa þeir þó fengið í sýslunum, sem ekki geta tilreiknast Hafnarfirði. — Annars er afarhægt að safna slíkum áskorunum, þegar um sönn eða ímynduð aukin mannrjettindi er að ræða. Ætli það væri t. d. ekki ljett verk að safna undirskriftum, sem færu fram á, að annar þm. í Eyjafjarðarsýslu yrði aðeins kosinn fyrir Siglufjörð, Ólafsfjörð og t. d. Grímsey, sem hafa líka íbúatölu og hinn hluti kjördæmisins? Væri ekki sjálfsagt fyrir hv. þm. Eyf. að hreyfa því, ef mál þetta á að ganga fram óbreytt, svo að þetta kjördæmi fái sömu rjettindi. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnarflokkarnir tækju till. um það tveim höndum, þegar þeir bera svona mikla umhyggju fyrir Hafnfirðingum. Enda var hv. 2. þm. Eyf. að gera tilraun til að afla Siglfirðingum jafnrjettis við Hafnfirðinga í hv. Nd., þótt honum hugkvæmdist það helst til seint.

Jeg geri ráð fyrir, að hvert óhlutdrægt þing mundi aðallega byggja endanlega kjördæmaskipun á fólkstölu. Væri því mjög líklegt, að Hafnarfjörður og Gullbringusýsla yrði eitt kjördæmi fyrir sig, og Kjósarsýsla kjördæmi sjer, með Þingvallasveit, Grafningi og Ölfusi. Það virðist vera mjög eðlileg kjördæmaskifting, einnig með hliðsjón af atvinnuvegunum. Kjósarsýsla yrði þá hreint bændakjördæmi. Og Gullbringusýsla og Hafnarfjörður hreint sjávarkjördæmi, að kalla má.

Það hefir verið reynt í hv. Nd. að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi á þann hátt að fjölga þingmönnum um einn, en það drápu stjórnarflokkarnir þar. Það mun því vera til lítils að koma með þá tillögu hjer. (JBald: Væri hv. þm. því fylgjandi?). Já, fremur en að taka annan þingmanninn alveg af sýslunni. — Það er því auðsætt, að sósíalistar á þingi bera ekki mikla umhyggju fyrir hafnfirskum kjósendum, heldur fyrir því að fækka íhaldsþingmönnum um einn.

Það er líka þeirra skoðun, að ekki sje svo mikill vinningur fyrir sósíalista að vinna 1 þingsæti, ef þeir geta ekki um leið fækkað kjördæmum bænda. Þar á er aðaláherslan lögð. Nú ráða bændur enn sem komið er kosningunum í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þess vegna vilja þeir ná öðru þingsætinu. Þeir óttast að skýið renni seinna meir af augum bændanna í landinu; þess vegna á að smíða, meðan járnið er heitt.