18.02.1928
Efri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3087 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Jón Baldvinsson:

Við höfum nú heyrt hjer fyrirlestur um það, hvernig frómlegast væri að skipa kjördæmum í landinu, og hefir hv. 1. þm. G.-K. orðið til að flytja hann. Hv. þm. hefir upplýst hv. þd. um það, hvernig óhlutdræg kjördæmaskipun væri. Sumum kynni nú máske að finnast, að hann væri ekki fyrsti maður að leita til, ef fá ætti óhlutdræga dóma um menn eða málefni. Hann á svo langa stjórnmálasögu að baki sjer, að jeg held, að maður færi jafnvel til flestra annara íhaldsmanna á undan honum, til þess að fá hlutlausa dóma.

Hv. þm. taldi ýmislegt fram, sem honum fanst mæla með því að halda núverandi skipulagi um þingmenn kjördæmisins. Hann hjelt, að hinir kaupstaðirnir hefðu fengið þingmann af því, að stjórnin hafi ekki verið viðbúin að stinga upp á öðru, þegar konungkjörnu þingmennirnir voru lagðir niður. En þetta er mikill misskilningur. Það voru hinar eindregnu kröfur kaupstaðanna, sem hrundu málinu áfram.

Þeir voru orðnir svo mannmargir, að opinbert ranglæti var að standa á móti kröfum þeirra. Og atvinnuhættir þeirra voru ennfremur að mörgu leyti orðnir öðruvísi en hinna hluta kjördæmanna.

Hv. þm. getur ekki borið það fram sem ástæðu, að Hafnarfjörður sje ekki svo fjölmennur, að hann eigi ekki fylstu rjettlætiskröfu á sjerstökum þingmanni. Enginn hinna kaupstaðanna er jafnfjölmennur, nema Reykjavík. Gullbringu- og Kjósarsýsla samtals eru aðeins lítið eitt fjölmennari. Í Hafnarfirði er á 14. hundrað kjósenda, en í sýslunum að öðru leyti nálægt 1700. Að öðru leyti er það rjettlátt gagnvart Hafnfirðingum, að kaupstaðurinn sje kjördæmi út af fyrir sig, því að að öðrum kosti njóta þeir sín ekki. Jeg get fullyrt, að síðustu 10 árin hafa þm. G.-K. einatt verið í ósamræmi við vilja meiri hluta Hafnfirðinga og móti þeim í mörgum málum. Þeir hafa setið á þingi í fullkominni óþökk þeirra. — Hv. 1. þm. G.-K. barðist á sínum tíma mjög fyrir því að fá Hafnarfirði kaupstaðarrjettindi, en nú varnar hin makalausa óhlutdrægni hans honum að hjálpa kaupstaðnum til að fá þessi rjettindi, sem þó eru mjög svipaðs eðlis.

Hv. þm. vildi halda fram, að jafnaðarmönnum hefði fækkað í kjördæmi síðan 1926 og bygði það á því, að við aukakosninguna 1926 fengu þeir fleiri atkvæði en við kosningarnar síðastl. sumar. En það er mikill munur á því í kaupstöðum, hvort kosning fer fram á sumri eða vetri. Það vita allir, að þótt lagaheimild sje fyrir fjarstadda kjósendur að neyta atkvæðisrjettar síns annarsstaðar, þá notar þorri manna sjer það ekki. Brottför margra að heiman ber og svo bráðan að, að þeir geta ekki kosið áður en þeir fara, þótt framboðsfrestur sje útrunninn. Auk þess eru fjarlægðirnar svo miklar, að fólk, sem t. d. fer frá Hafnarfirði til Austfjarða rjett áður en framboðsfrestur rennur út, getur aðeins með góðum vilja komið atkv. sínum í tæka tíð að austan. Munurinn á atkvæðatölu jafnaðarmanna liggur í því, að kosningin 1926 fór fram á hentugasta tíma fyrir þá, en 1927 á óhentugasta.

Ekki vildi hv. þm. leggja mikið upp úr undirskriftunum úr Hafnarfirði. Jeg legg raunar ekki heldur svo mikið upp úr þeim, út af fyrir sig. En það lítur út fyrir, að háttv. þingmenn kjördæmisins hafi lagt meira upp úr þeim fyrir nokkru, þegar annar þeirra eða báðir byrjuðu að safna undirskriftum. Raunar hafa þeir ekki lagt fram þessi skjöl ennþá. Þeir segja, að þau sjeu frá 325 kjósendum. En hvers vegna eru plöggin ekki lögð fram á þinginu? Hv. þm. var svo að gagnrýna undirskriftir jafnaðarmanna og þóttist hafá rekið sig á einhver nöfn, sem skrifuð væru tvisvar, og einhver, sem ekki væru á kjörskrá. Þótt svona kunni nú að standa á um 5 til 6 nöfn, þá finst mjer það ekki umtals vert. (BK: Það er miklu meira. Hjer er listinn yfir þau, og kjörskráin líka). Jeg tek nú ekki trúanlegt meira en mjer sjálfum sýnist af því, sem hv. þm. aðeins hampar í fjarska. — En það er óneitanlega undarlegt, að íhaldsmenn safna sjálfir undirskriftum, en álíta samt helmingi fleiri undirskriftir andstæðinganna einskis virði. — Hv. þm. gat þess, að auðvelt væri að safna undirskriftum. Það má vel vera. En ekki hefir íhaldinu samt gengið það svo vel í Hafnarfirði. — Hv. 2þm. sagðist fremur fylgja því að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi, ef sýslan fengi að halda báðum sínum þingmönnum. Í því sambandi talaði hann um, að verið væri að fækka bændakjördæmunum. Skelfing er að heyra! Eru það bændur, sem þetta kjördæmi sendir hingað sem fulltrúa? Jeg veit ekki betur en að hjer sitji tveir kaupmenn með umboð kjördæmisins. Og jeg veit ekki betur en að þeir hafi verið í megnustu andstöðu gegn þeim flokki, sem mest fylgi hefir hjá bændum. Og jeg veit ekki betur en þessi hv. þm. hafi frekar en hitt ráðist á móti þeirri stofnun, sem bændurnir telja lífakkeri sitt. Á jeg þar við Samband íslenskra samvinnufjelaga, og samvinnufjelagsskapinn yfir höfuð. Það hljómar því dálítið undarlega, þegar þessi hv. þm. er að fárast um, að með þessu frv. sje verið að fækka bændakjördæmum. Jeg held því, að þau tár, sem hann fellir út af þessu, verði aldrei tekin sem vottur um innileik hans til bændastjettarinnar, heldur þvert á móti skoðuð sem nokkurskonar krókódílstár. Þó að sitthvað kunni að mega finna að kjördæmaskipuninni, þá held jeg, að varla sje hægt að finna kjördæmi, sem á meiri rjett á sjer en Hafnarfjörður, bæði hvað atvinnuhætti og staðhætti snertir.

Því hefir verið haldið fram, að í Hafnarfirði og á Suðurnesjum væru líkir atvinnuhættir. Það má segja, að svo hafi verið, en nú er það ekki lengur. Í Hafnarfirði hefir myndast verkamanna- og sjómannastjett, en bændur í Gullbringusýslu, t. d. í Höfnunum, Gerðahverfinu og á Vatnsleysuströnd, eru altaf meira og meira að hverfa frá sjávarútveginum að landbúnaði. Þeir leggja árlega mikið fje í ræktun jarða sinna og selja mjólk hingað til Reykjavíkur fyrir mikið fje. Þess vegna er það í fullu samræmi við atvinnuhætti manna í Gullbringu- og Kjósarsýslu að sameina þær um einn þingmann. Þær eru báðar bændakjördæmi. Og þó að þær kjósi ekki nema einn þingmann báðar, þá eru þær síst ver settar en ýmsar aðrar sýslur, sem hafa marga kjósendur, en fá þó ekki nema einn þingmann. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar, en vona, að spádómur háttv. 1. þm. G.-K. rætist, að mál þetta hafi mikið fylgi í þinginu og gangi því greiðlega fram. Og þess væri síst vanþörf, því að það hefir legið fyr fyrir þinginu og þá sætt andmælum, og það af þeim mönnum, sem í raun og veru bar skylda til að verz með því.