18.02.1928
Efri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Jón Baldvinsson:

Háttv. 1. þm. G.-K. var að skora á mig að nefna eitt einasta dæmi, þar sem þingmenn kjördæmisins hefðu neitað að framfylgja áskorun Hafnfirðinga hjer á Alþingi. Þetta er mjög hægt verk. Jeg minnist t. d. frumvarps um hlutfallskosningar í bæjarstjórn í Hafnarfirði, sem Ágúst Flygenring vildi ekki flytja. Þá veit jeg ekki betur en það sje krafa fjölda manna í Hafnarfirði að fá 8 stunda hvíldartíma á togurunum. Þessu hefir að minsta kosti 2. þm. kjördæmisins verið á móti, og er það enn. Um skoðun háttv. 1. þm. G.-K. í því máli veit jeg ekki, en grunur minn er sá, að hann muni, þegar til kemur, fylgja samherjum sínum í því sem öðru. Háttv. þm. bað mig um að nefna eitt dæmi, en jeg hefi nú nefnt tvö, og gæti nefnt fleiri við tækifæri.

Að því er snertir undirskriftirnar í Hafnarfirði undir mótmæli gegn skiftingunni, þá veit jeg ekki betur en að íhaldsmenn hafi gengist fyrir þeim. En jeg vil vekja athygli á því, að ennþá hafa þær ekki verið lagðar fram, og meðan svo er, er maður ekki skyldugur að trúa því, að þær hafi nokkurntíma komið til þingsins.