28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir klofnað um þetta mál, og leggur meiri hl. til, að frv. nái fram að ganga eins og það kom frá hv. Nd., en hún hafði fallist á frv. óbreytt eins og það var fram borið af flm. þess.

Það er um efni frv., sem nefndin hefir klofnað, og hefir hv. minni hl. borið fram allítarlegt nál. á þskj. 302 og telur ekki rjettlátt að skifta kjördæminu. Það hefir nú jafnan viljað við brenna, að skoðanir manna hafa um það skiftst, hvort rjettlátt væri eða ekki rjettlátt að skifta tvímenningskjördæmum í einmenningskjördæmi, og um þetta orðið allharðar deilur hjer á Alþingi. Jeg man að minsta kosti, að hjer á árunum, þegar um var rætt að skifta Ísafjarðarsýslu í tvö kjördæmi, eins og hún er nú, þá voru um það mál háðar harðar deilur, og stóð þó öðruvísi á þar en hjer, því að þar var enginn kaupstaður, sem ætti sjerstakra hagsmuna að gæta. Það mátti segja svo, að þar væri eingöngu um hagsmuni sveitanna að ræða í báðum þessum sýslum, sem nú eru sjerstök kjördæmi.

Þetta mál, skifting G.-K. í tvö kjördæmi, er ekki nýtt; það er búið að vera lengi á döfinni og hefir verið, að jeg held, flutt 3 til 4 sinnum hjer á Alþingi, þótt lítinn árangur hafi borið annan en þann, að Hafnfirðingar hafa ekki lagt árar í bát, heldur sent Alþingi eindregnar kröfur mikils meiri hluta kjósenda í Hafnarfirði, studdar af bæjarstjórninni, um að skifta kjördæminu. Og kröfur þessar hafa Hafnfirðingar rökstutt á þann hátt, sem ekki verður móti mælt: að kaupstaðurinn hafi ekki getað notið sín vegna þess að þm. þeir, sem kosnir hafa verið fyrir kjördæmið, hafi lítt sint málum þeirra, og þó að mikill meiri hl. Hafnfirðinga sje á móti þm., hafi þeir þó ekki notið sín um þingmannavalið vegna annara kjósenda kjördæmisins, er annara hagsmuna hafi að gæta.

Í nál. minni hl. er talað um, að með skiftingu þessari sje stigið fyrsta sporið til að flytja þungamiðju valdsins úr sveitunum í kaupstaðina. Slík staðhæfing sem þessi kemur nú dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar þess er gætt, að þm. þessa kjördæmis hafa um langt skeið verið kaupmenn og kaupstaðabúar, en þrátt fyrir það hefir Hafnarfirði verið gert rangt til að fá ekki að vera sjálfráður um að velja sjer þm.

Hv. 3. landsk. leggur fram skýrslu í nál. sínu um mannfjölda í nokkrum tvímenningskjördæmum og kjósendatölu þá, er standi þar á bak við hvern þm. Það gæti í sjálfu sjer verið rjett að fara eftir mannfjölda við breytingu á kjördæmaskipuninni. En fjölgun þm. mun eiga erfitt uppdráttar hjá þjóðinni og því er, meðan ekki nást frekari breytingar, rjettara að fara eftir atvinnuháttum og hagsmunum kjósendanna, þar sem því verður komið við, og breyta kjördæmaskiftingunni eftir því. Móti því verður heldur ekki mælt, að Hafnarfjörður hefir annara og ólíkra hagsmuna að gæta heldur en sýslan. Og þó að G.-K. verði einmenningskjördæmi, þá er það ekki mikið á mununum, að fleiri kjósendur standi þar á bak við þm. en í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, sem hafa nú einn þm.

Þó að ekki fáist í einu fullkomið rjettlæti í kjördæmaskipun landsins, þá tel jeg þó spor í áttina að samþ. þetta frv., sem fullnægir lengi þráðum óskum Hafnarfjarðar, enda er það fullkomið rjettlæti, að stærsti kaupstaðurinn utan Reykjavíkur fái að kjósa sjer þm. út af fyrir sig.

Fleira ætla jeg ekki að segja að svo stöddu, en bíða þess, að hv. minni hl. geri grein fyrir sínu máli. Annars vænti jeg, að hv. deild, að umr. þessari lokinni, samþ. frv. eins og við meiri hl. leggjum til.