28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi áður í hv. Nd. látið í ljós skoðun mína á þessu máli og tekið þá fram, að hún væri í samræmi við skoðun þess flokks, sem jeg telst til.

Jeg vildi þá víkja að því, sem hv. 3. landsk. hefir haldið fram um þetta mál, og síðar víkja að kjördæmaskipun landsins yfirleitt. Jeg ætla þá fyrst að koma að því, sem er aðalatriðið, þegar rætt er um kjördæmaskipunina og breytingar á henni. Það er eins ástatt hjer og var í Noregi og Danmörku fyrir nokkrum árum. Okkar land er aðallega bændaland, en bæir eða kaupstaðir fáir. Verstöðvarnar gömlu smástækka og verða að útgerðar- eða iðnaðarbæjum. Þá kemur fram stjettaskifting. Hafnarfjörður er dæmi um kaupstað, sem farinn er að lifa á vjelavinnu. Þar er skiftingin orðin glögg í útgerðarmenn annarsvegar og verkamenn hinsvegar. Þessu er enn öðruvísi háttað t. d. á Akureyri. Þar er fjölmenn millistjett.

Í Noregi og Danmörku hefir nú verið tekið það ráð að gerbreyta kjördæmaskipuninni og taka upp hlutfallskosningar í stað hinna gömlu sjerstöku kjördæma. Með því er leitast við að fullnægja til hlítar þingræðiskröfunum. Í Englandi hefir aftur á móti verið lagst á móti þessu. Þar á sjer stað mjög tilfinnanlegt ranglæti sumstaðar. Frjálslyndi flokkurinn galt mjög kjördæmaskipunarinnar við síðustu kosningar. Íhaldsflokkurinn fjekk aftur á móti talsvert fleiri þingmenn en hann átti að fá að tiltölu við atkvæðamagn. Þetta er að vísu ekkert fyrirmyndardæmi, en þetta viðgengst þó hjá þessari gömlu þingræðisþjóð. Þegar baráttan um kjördæmaskipunina hófst í Danmörku, höfðu bændur fleiri þingmenn en þeim bar tiltölulega. Þeir hjeldu fast í þennan rjett sinn, eins og þeir menn gera yfirleitt, sem komist hafa yfir einhvern rjett. Íhaldsmenn telja það nú beinlínis sitt hlutverk að halda í þessi gæði, og ef til vill er það af því að þeir hafa svo mikið af þeim. En í Danmörku urðu leikslokin þau, að verkamenn og íhaldsmenn gerðu samtök á móti bændum. Þeir brutu alveg niður gömlu kjördæmaskipunina og með því bændavaldið á bak aftur. Í Noregi var farið svipað að og í Danmörku. Landinu er skift í afarstór kjördæmi með hlutfallskosningu. En kjördæmunum er svo fyrir komið, að borgirnar eru saman og sveitirnar út af fyrir sig. Skiftingin er með öðrum orðum ekki landfræðileg.

Hjer á landi hafa íhaldsmenn nú þegar farið hálfgerða biðilsför til jafnaðarmanna til þess að fá þá til að fylgja sjer í því að breyta kjördæmaskipuninni. Þetta hefir a. m. k. komið fram í því blaði, sem íhaldsmönnum þykir líklega einna vænst um, þó að jeg sje ekki viss um, að þeir vilji beinlínis viðurkenna það sem málgagn sitt, nefnil. stormi. Það blað er nokkurskonar framhjátökubarn Íhaldsins og í mestu eftirlæti. Og þar kemur það fram, að íhaldsmenn vilja svíkja bændur í trygðum. Eftir kosningarnar í sumar, þegar þeir þóttust fá nokkuð fá sveitakjördæmi, sýndu þeir óvart innræti sitt. Þá reis upp ritstjóri þeirra, sem nú er afsettur, og heimtaði, að bændakjördæmin væru rifin upp. En eftir á þótti miðstjórn flokksins þessi ummæli ekki hyggileg. Og hún tók það ráð, að eta alt ofan í sig. En af þessu sjest, að freistarinn hefir verið nærri Íhaldinu um þetta leyti.

Aðstaða okkar framsóknarmanna hefir verið sú, að við höfum viljað halda okkur að ensku reglunni. Við viljum ekki hlutfallskosningar, og umfram alt ekki fjölga þingmönnum. Okkur þykir alveg ástæðulaust að bæta við manni fyrir Hafnarfjörð og láta Gullbringu- og Kjósarsýslu halda sínum tveim fulltrúum. Hvað mættu þá t. d. Suðurþingeyingar segja, sem verða að láta sjer nægja einn þm.? Þó berum við ekki á móti því, að sitthvað sje athugavert við kjördæmaskipunina. Það er t. d. ekki furða, að einmenningskjördæmi, sem hafa 4000 íbúa, sjeu óánægð, þegar Seyðisfjörður hefir sjerstakan fulltrúa fyrir sínar 1000 sálir. En í þessu máli er að ræða um tvo glögga aðalvegi. Annaðhvort verður að gerbreyta gömlu kjördæmaskipuninni, eins og í Danmörku, og láta höfðatöluna eina ráða, eða fylgja ensku reglunni. En þó að ekki sje fjölgað þm. eða gerð róttæk bylting, er ekki þar með sagt, að ekki megi gera einhverjar smábreytingar, til þess að ná meira rjettlæti en nú er. Sumstaðar getur vel komið til mála að skifta tvímenningskjördæmum í tvö einmenningskjördæmi, ef þess er óskað. Og þetta er það, sem Hafnfirðingar vilja. Hjer er um það að ræða að leysa þá úr bandi, sem þeir vilja ekki vera í, og ef til vill að losa þá við menn, sem þeim þykja ekki sómasamlegir fulltrúar fyrir sig.

En yfir bændum landsins vofir sú hætta, að Íhaldsflokkurinn fari að beita sjer gegn gömlu kjördæmaskipuninni. Er full ástæða til að óttast þetta, þegar athugaðar eru aðgerðir Varðar og miðstjórnar flokksins. Við framsóknarmenn viljum ekki breyta kjördæmaskipuninni og ekki fjölga þm., en við viljum gjarnan færa þá til og raða þeim meir að skapi kjósenda en þeir eru nú. Ef til vill vilja einhverjir breyta til um fulltrúa Seyðisfjarðar. Getur komið til mála, að rjettara þætti að láta kaupstaðinn velja þingmann ásamt einhverjum hluta Norður- eða Suður-Múlasýslu. Austfirðir hefðu þó sömu tölu þingmanna og áður. Af þessu er auðsæ afstaða okkar. Við viljum engar djúptækar breytingar, en erum þó fúsir til að liðka þann ramma, sem kjördæmaskipunin nú er í.

Nú kem jeg að ásökun, sem hv. 3. landsk. bar á okkur framsóknarmenn, en sem hann veit sjálfur, að er ósönn, en hún er sú, að við fylgjum þessu máli á móti betri vitund. Þessu blandar hann eitthvað saman við stjórnarstuðning. En man hv. þm. ekki, hver bar þetta mál fyrst fram á Alþingi? Það var Einar Þorgilsson, þm. G.-K., einhver ríkasti maður í Hafnarfirði — og íhaldsmaður. Jeg nefni hann íhaldsmann, því að hann fylgdi að málum þeim mönnum, sem nú eru í Íhaldsflokknum, en þetta var á dögum sparnaðarbandalagsins sæla. Svo hætti þessi maður að sitja á þingi, og þá snúast íhaldsmenn á móti þessu. Þá er það, að Hafnfirðingar snúa sjer til hv. 5. landsk. og biðja hann að flytja frv. Og hann tekur upp það mál, er Íhaldið hafði áður fylgt fram. Framsóknarmenn hafa altaf fylgt skiftingunni. Og þegar hv. 3. landsk. segir nú, að við sjeum með henni á móti betri vitund og af greiðvikni við jafnaðarmenn eingöngu, þá hlýtur hann að vita, að hann er að falsa sögulega frásögn. Það er flokkur sjálfs hans, sem snúist hefir gegn sínum gamla samherja. Við framsóknarmenn höfum altaf viðurkent, að þetta væri sanngirnismál. — Hafnfirðingar gera kröfu til þess að fá fulltrúa eins og aðrir kaupstaðir. Munurinn verður aðeins sá, að Hafnarfjörður kýs út af fyrir sig, en þm. fjölgar ekki. En Íhaldið hefir snúist móti þessari sanngirniskröfu, þó að það fylgdi henni áður. Ef til vill hefir það verið hrætt um, að það mundi ekki vinna þingsætið í Hafnarfirði. Hv. 2. þm. G.-K. sagði þó í Nd. fyrir nokkrum dögum, að hann hefði góða von um að verða kosinn í Hafnarfirði. Og í sjálfu sjer er ekkert ótrúlegt, að sömu fulltrúarnir komist að, þó að kjördæminu verði skift. Háttv. 1. þm. G.-K. yrði sennilega kosinn í sínu gamla hreiðri. Og er þá svo mjög ólíklegt, að yngri maðurinn yrði kosinn í Hafnarfirði? Íhaldsflokkurinn virðist því ekki eiga mikið á hættu. Hjer er því ekki um það að ræða að gefa sjerstökum stjórnmálaflokki þingsæti, heldur aðeins að fullnægja sanngjarnri kröfu Hafnfirðinga.

Þá er aðeins eftir ein röksemd svaraverð í ræðu hv. 3. landsk. Hann segir, að við framsóknarmenn sjeum að spilla fyrir bændum með því að fylgja þessu frv. Það má nú eiginlega segja, að það þurfi meira en meðalbrjóstheilindi hjá hv. þm. til þess að leyfa sjer að bera okkur þetta á brýn. Hvernig gerist hann svo fífldjarfur að ímynda sjer, að nokkur trúi því, að hann beri hag bændanna fyrir brjósti? Nei, hann getur sparað sjer það ómak, að reyna að koma þeirri skoðun inn hjá bændum, að hann sje þeirra maður. Þeir vita það nú, að í flokki hans eru það stórgróðamenn, kaupmenn og hinir hærra launuðu embættismenn, sem hafa ráðin.

Af hverju fjell Þórarinn á Hjaltabakka í Austur-Húnavatnssýslu við síðustu kosningar? Ekki var það af því, að Þórarinn sje ekki sæmilegum hæfileikum búinn. Nei, það er skoðanamunur, sem veldur. Bændunum í Húnavatnssýslu líkaði ekki stefna hans. Þeir vilja ekki sætta sig við það, að fulltrúi þeirra sje t. d. ánetjaður einum mesta andstæðing sveitanna, hv. 1. þm. G.-K. Það þýðir ekkert að halda því fram, að þessi fulltrúi G.K. sje hliðhollur bændum. Í hvaða málum hefir hann eiginlega dregið þeirra taum? Ætli herinn t. d. hafi átt að vera í þágu sveitanna? Er það vegna bændanna, þegar Íhaldsflokkurinn vill gefa eftir hundruð þúsunda af tekjuskatti stórútgerðarfjelaga og skilur svo við stóran tekjuhalla? Er allur fjandskapurinn við kaupfjelögin sprottinn af tómri umhyggju fyrir sveitunum? Hvað á að segja um andstöðu Íhaldsins gegn nauðsynjamálum bænda, sem stj. ber fram nú á þinginu? Nei, hv. 1. þm. G.-K. þýðir ekki að vera með neina hræsni í þessu efni. Hann er og hefir altaf verið á móti sveitunum. Og svo dirfist hann og flokksmenn hans að tala um bændavaldið í kjördæmi hans. En hv. þm. og íhaldsmenn aðrir styðjast ekki við bændavald. En þeim fylgja margir gamlir heimastjórnarmenn, sem áður voru í flokki með Jóni heitnum Magnússyni og þykjast ekki geta skilið við samherja hans, þó að þeir eigi e. t. v. ekki samleið með þeim lengur. En það er ákaflega einkennilegt, þegar hv. 1. þm. G.-K. stendur upp og þykist vilja taka málstað sveitanna. Ef meta skal starf núverandi fulltrúa G.-K. fyrir landbúnaðinn, er nauðsynlegt að líta nokkuð á þeirra fyrri feril. Um þann yngra, hv. 2. þm. G.-K., er fátt að segja þar. Hann gerir út 5 togara hjer í Reykjavík, vafalaust af dugnaði miklum og sæmilegu viti. En hann hefir aldrei skrifað neitt og aldrei gert neitt, sem nokkurs væri nýtt eða sýndi þekkingu hans á landbúnaðarmálum. Hann hefir ekki beinlínis gert ógagn í þeim málum, svo að jeg viti, en heldur aldrei orðið að neinu liði. Það er því ekki hægt að sjá, að sveitirnar biðu sjerlega tilfinnanlegt tjón, þó að þessi maður hætti að sitja á þingi, Þá kem jeg að hinum síðara, sem setið hefir á þingi síðan um 1900, eftir því, sem blöðin segja í æfiágripi hans þessa dagana. Hv. þm. tók einu sinni að sjer sauðasölu fyrir bændur. Sú verslun tókst svo, að ekkert fjekst fyrir þessa sauði. Reynt var að kenna Zöllner um, að svona fór. En hvað sem því leið — bændur töpuðu samt. Og ekki held jeg, að ráðsmenska hv. þm. hafi verið neinn velgerningur við þá. Ekki hygg jeg, að hann hefi gert íslenskum bændum neinn greiða með því að vera á móti Zöllner. Zöllner var að vísu danskur kaupmaður. Hann var búsettur í Englandi. Og hann kunni lítið í íslensku máli. Samt voru menn yfirleitt ánægðir að skifta við hann. Og hann var einn af þeim fáu kaupmönnum, sem bændur hafa ástæðu til að vera þakklátir. Fjandskapur hv. 1. þm. G.-K. við Zöllner var því ekki í þágu íslenskra bænda. Nei, hann var að reyna að ryðja úr vegi þeim eina kaupmanni, sem komið hafði sómasamlega fram við þá. En Zöllner hjelt trygð sinni við Íslendinga og reyndist bændum landsins miklu þarfari en þessi hv. þingfulltrúi, sem nú á alt í einu að vera ómissandi fyrir bændavaldið í landinu.

Næsta verk hv. 1. þm. G.-K. var að berjast á móti símanum. Eitt af því fyrsta, sem jeg las í pólitík, var einmitt gríðarmikið nefndarálit frá honum, þar sem hann er að lýsa því átakanlega, hve óbærilegt það mundi verða Íslendingum að eignast þetta menningartæki. En hvað heldur háttv. þm., að bændur landsins mundu segja um hann nú, ef þeir læsu þetta merkilega plagg?

Þá minnist jeg þeirra atburða, sem gerðust, þegar núverandi yfirmaður hv. þm. í Íhaldsflokknum, háttv. 3. landsk., var að berjast fyrir sínu pólitíska lífi hjer á árunum. Þá beitti hann sjer mjög fyrir því, að lögð yrði járnbraut austur yfir fjall, bændum á suðurláglendinu til hagsbóta. Vafalaust vildi hann þeim vel með þessu og sá það alveg rjett, að þeir þurftu á samgöngubótum að halda. En hvað gerir þá hinn ómissandi fulltrúi bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu? Jú, menn muna það. Þá gengu aldrei skammirnar af hv. 3. landsk.

Þá kem jeg að afskiftum hv. þm. af samvinnufjelögunum. Það er nú viðurkent, að samvinnufjelagshreyfingin á nú rík ítök í bændum alstaðar um land og að hún hefir beinlínis verið lífakkeri þeirra á krepputímunum. Og hún hefir verið meira en fjárhagsleg hjálparhella. Sonur Magnúsar á Grund, maður, sem dó ungur, sagði, að Kaupfjelag Eyfirðinga hefði mentað hjeraðsbúa meir á 10 árum en góður skóli mundi hafa gert á heilli öld. En hvernig hefir hv. þm. tekið þessari merkilegu, þjóðbætandi stefnu? Jú, hann hefir lagt fram alla sína krafta á gamals aldri — já, meira að segja eytt miklu fje frá sjálfum sjer til þess að hnekkja þessari stefnu. Hann hefir breitt pjesa út um landið til þess að reyna að fá menn til að svíkjast undan merkjum og bregðast sínum göfugustu hugsjónum. Slíkur er ferill þessa manns. Og svo ætla íhaldsmenn að láta þjóðina trúa, að hann sje vinur bænda. Og Morgunblaðið, málgagn kaupmanna hjer í Reykjavík, blað, sem gefið er út fyrir danskt fje, blað, sem árum saman hefir alið á rógi um samtök og fjelagsskap bænda og þeirra forgöngumenn — það á nú að telja mönnum trú um þetta. Svo takmarkalaus er óskammfeilni þeirra manna, sem ávalt hafa staðið gegn hagsmunamálum sveitanna. Er nokkur sá maður til, sem getur trúað því, að þeir sjeu á móti breytingunni í G.K. af umhyggju fyrir bændavaldinu í landinu?

Ef bændur landsins hugsuðu um, hvernig búið hefir verið að þeim úr þessum kjördæmum, þyrftu þeir ekki að gráta það, þó að eitthvað minkaði vald þeirra, sem hafa verið fulltrúar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Jeg er nú að minsta kosti búinn að gera grein fyrir því, að bændur landsins eiga fulltrúum Gullbringu- og Kjósarsýslu ekkert að þakka. Jeg býst við, að þegar tekið er tillit til þeirra heilinda, sem Framsóknarflokkurinn á að venjast frá Íhaldsflokknum, geti sá flokkur ekki ætlast til, að mikill harmur verði kveðinn að Framsóknarflokknum, þó að íhaldsmenn bíði ósigur. Við framsóknarmenn höfðum komið fram með tekjuaukafrv. til þess að hjálpa til að spara, en þegar líður á kjörtímabilið, kastar hv. 3. landsk. burtu tekjustofnum ríkissjóðs að óvilja stjórnarandstæðinganna. Síðasta árið skilar hann af sjer með tekjuhalla og lýsir yfir því, að hann vilji einnig tekjuhalla á árinu 1929. Er grunur um, að hann hafi skipað tveim flokksbræðrum sínum í fjvn. Nd. að styðja að þessu sama.

Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort sem litið er á það sögulega eða á innra samhengi þess, mælir alt með því, að það nái fram að ganga. Landið getur ekki haft nema gott af því. Og þetta er gömul krafa frá íhaldsmanni! Íhaldsmenn geta ekkert sagt við því, að gerðar sjeu smábreytingar á kjördæmaskipuninni, fyrst þeir berjast fyrir breyttri kjördæmaskipun yfirleitt.

Formaður Íhaldsflokksins biður nú bændurna í landinu þeirra hlálegu hluta, að hafa tvo „Spekúlanta“ fyrir fulltrúa sína. Sjálfur er hann búinn að fremja stærri brot í fjármálum en nokkru sinni hefir komið fyrir í allri okkar fjármálasögu. Og hann stærir sig af því. Jón heitinn Magnússon og Magnús Guðmundsson voru það meiri menn, að þeir sögðust vera neyddir til að gera það, sem þeir gerðu. En nú verður hv. 3. landsk. að þola, þó að rjettlátt mál nái fram að ganga, mál, sem með ofbeldi, falsi og blaðarógi er búið að hindra í mörg ár.