28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Það er mikil ánægja að fá að heyra, að hæstv. dómsmrh. er enn sjálfum sjer líkur. Það eru nú liðnar fullar tvær vikur án þess að hann hafi haldið hjer nokkra af þeim ræðum., sem einkenna hann sjerstaklega og skapa honum sjerstöðu utan við allan þingheim bæði fyr og síðar. Jeg var farinn að halda, að hinn hæstv. ráðherra hefði fengið einhverja þá áminningu, sem hefði reynst endingarbetri en áminningar, sem hann hefir fengið frá mjer. Þær hafa að vísu altaf hrifið, en áhrifin hafa ekki enst nema í 8 daga. En nú eru liðnar rúmar 2 vikur síðan hæstv. ráðh. varð sjer til minkunar síðast og var nú ekki von, að það gæti haldist öllu lengur.

Hæstv. ráðh. byrjaði á að lýsa baráttunni um kjördæmaskipunina, sem háð hefir verið í ýmsum löndum. Hann lýsti því, hvernig farið hefði í Danmörku. Þar urðu þau endalok, að íhaldsmenn og sósíalistar gerðu með sjer bandalag um að brjóta bændavaldið á bak aftur. Er það ekki einmitt þetta, sem jeg hefi verið að segja með kurteislegum orðum? En hjer kalla þeir sig framsóknarmenn, sem gera þetta bandalag við sósíalistana. Hæstv. dómsmrh. er altaf að útlista fyrir okkur, að framsóknarmenn vilji ekki gera alt í einu með því að innleiða hlutfallskosningar eins og í Danmörku, heldur vilji þeir fara að eins og í Englandi. Þar er kjördæmaskipunin óbreytt. En ekkert bandalag gat orðið úr því við sósíaliata, og þá útlista framsóknarmenn afstöðu sína þannig, að þeir vilji breyta henni smátt og smátt. seinna var hæstv. ráðherra búinn að gleyma því og sagði, að sinn flokkur stæði á íhaldsgrundvelli Englendinga. Jeg get ekki annað en óskað hæstv. ráðh. til hamingju með, að það skyldi hafa orðið hans flokkur, sem komst í það bandalag við sósíalista, sem hægrimenn komust í í Danmörku. Reyndar vill hann gera það að miklu atriði í þessu máli, að einhver blöð Íhaldsflokksins hefðu eftir kosningar látið það í ljós, að þeim þætti kjördæmaskipunin úrelt. Hann afbakaði í því sambandi ummæli, sem fyrverandi ritstjóri „Varðar“ hafði, og hafði eftir honum, án þess þó að nefna hann eða blaðið. Ritstjórinn talaði um kjördæmaskipunina, en miðstjórn Íhaldsflokksins var því ósamþykk og lýsti því yfir í blaðinu, að hún vildi ekki breyta kjördæmaskipuninni. Það getur því engum komið það á óvart, og ekki heldur nú, þegar gengið verður til atkvæða, þó að Íhaldsflokkurinn greiði atkvæði samkvæmt yfirlýsingu sinni. Þegar hæstv. ráðh. kallar yfirlýsingu miðstjórnar Íhaldsflokksins „yfirklór“, þá er hann að tala á móti betri vitund. Hann veit, að hún felur ekki annað í sjer en það, sem búið er að marglýsa yfir hjer.

Hæstv. dómsmálaráðherra vill heldur ná marki bandalagsins smám saman en alt í einu. Við það er ekkert að athuga. En hitt er tilbúningur, að Íhaldsflokkurinn hafi nokkurn tíma leitað nokkurs bandalags við sósíalista um það mál. Það er eins og hver önnur skröksaga, sem hæstv. ráðh. býr til, til þess að leiða athygli manna frá þeirri óhæfu, sem hann sjálfur og flokkur hans er að fremja.

Þessu næst fór hæstv. ráðh. að reyna að færa sönnur á, að fyrir sjer vekti eitthvert rjettlæti. Það er ekki nýtt að heyra það í sömu andránni og hæstv. ráðh. notar hin verstu ókvæðisorð í garð andstæðinga sinna, eins og nú, þegar hann sakar þá um hræsni og notar enn svæsnari orð. Jeg held, að hann ætti að reyna að muna í svo sem 1½ viku, að minsta kosti, að nú er svo komið á Íslandi, að í hvert sinn, sem hæstv. dómsmrh. talar um rjettlæti í sambandi við sjálfan sig, er það alment skoðað sem hræsnistal. Menn sjá og heyra svo margt til hæstv. ráðh., sem síst minnir á rjettlæti. Það er ekki hægt að rökstyðja ákvæði þessa frv. með neinu rjettlæti, enda fór svo fyrir hæstv. ráðh., að hann hafði ekki veigamikil rök fram að færa, en þó hefði getað skeð, að einhver hefði látið blekkjast af sjálfshóli hans, ef hann hefði haft vit á að hætta í tæka tíð. En það brást nú sem oftar, en við tók seinni partur ræðunnar, sem var ekki annað en hatursfull árás á þingmenn kjördæmisins; en þegar hún er sett fram sem ástæða í þessu máli, þá skilur hver maður, að ráðherrann var að lýsa þeim ástæðum, sem ráða atkvæði hans í þessu máli. Þetta fann hæstv. ráðh. af tilviljun sjálfur, þegar hann var búinn að ausa úr sjer, því að hann tók það þá fram — en það kom bara of seint —, að auðvitað væri þetta ekki hans ástæða til að greiða atkvæði með frv. En hví kom hann þá með það? Það er af því, að þegar hæstv. ráðh. var búinn að tala sig upp í hita, sagði hann það, sem honum býr í brjósti, en svo þegar hann var búinn að svala sjer, sá hann, að hann hafði talað af sjer og vildi bæta úr því. Nei, — sannarlega eru ræður hæstv. ráðherra sönnun þess, að órjettlæti, hlutdrægni og flokkshagsmunir ráða gerðum hans. Flokksmenn hans, sem margir eru heiðarlegir og góðir drengir, vil jeg ekki væna um slíkt. Þeirra afsökun er sú, að hafa orðið fyrir því óláni að eiga hæstv. dómsmrh. fyrir foringja.

Hæstv. ráðh. reyndi að breiða yfir þann morðkuta, sem hann er á ferðinni með gagnvart stjórnmálavaldi bændastjettarinnar, með staðhæfingum um, að Íhaldsflokkurinn hefði ekkert gert fyrir bændastjettina og vildi ekkert gera fyrir hana, enda vildi hún ekki fylgja honum að málum. Jeg er hræddur um, að þetta sje nokkuð hæpið. Jeg ætla ekki að fara út í það, hvað Íhaldsflokkurinn hefir gert fyrir bændastjettina, en jeg vil minna á, að þegar núverandi hæstv. dómsmrh. settist í stjórnarsætið, var svo mikil mótspyrnan gegn honum úti um sveitir landsins, að hæstv. dómsmrh. er óhætt að fara varlega, og sú mótspyrna stafaði einungis af því, að Íhaldsflokkurinn hafði mikið fylgi á þessum sömu stöðum. Það hefir komið fyrir áður, að þegar stjórn er búin að sitja lengi og hefir ekki gert fleiri axarsköft en hæstv. dómsmrh. er búinn að gera, að fylgið hefir snúist í andstöðu. En hjer ber alt að sama brunni. Hæstv. ráðh. er að reyna að niðra andstæðingum sínum til þess að leiða athygli alþjóðar frá því, sem hann er sjálfur að gera gagnvart bændastjettinni. En hann má vera viss um, að hvað sem mjer líður, verði altaf, meðan hann er í stjórnarsessi, nógir menn til þess að benda á, hvað hann er að gera. — Hæstv. ráðh. er státinn af því, að megnið af fólkinu til sveita sje ekki með Íhaldsflokknum. Það er ekki óvenjuleg tilhneiging hjá unga fólkinu, að það beitir sinni gagnrýni á móti valdhöfunum. Hæstv. ráðh. hefir komið á þá staði, þar sem unga fólkið er ekki jafnhrifið af öllu, sem hann gerir. En hvað sem því líður, þá stendur það fast og mætti vera hafið yfir alla þrætu, að hvern sem fólkið í sveitunum vill styðja, þá þýðir sá stuðningur ekkert, ef valdið er ekki lengur í sveitunum. Hjer er verið að stíga fyrsta sporið til þess að taka það burtu. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur bent á, hvernig fór í Danmörku. sósíalistar gerðu bandalag við annan flokk til þess að vinna að þessu. Það sama er komið í ljós hjer. En ef hæstv. ráðh. heldur, að Alþýðuflokkurinn láti sjer nægja að hafa slíkt bandalag bara í dag og um þetta eina mál, þá þekkir hann illa Alþýðuflokkinn. Hæstv. ráðherra ætti samt að þekkja þann flokk. Hann hefir sjálfur verið í honum, þó að nú sje hann í öðrum flokki af hagkvæmisástæðum. Hann veit, að bandalagið heldur áfram, meðan Framsóknarflokkurinn er nógu stór til þess að Alþýðuflokkurinn geti notað hann fyrir bandalagsflokk.

Hæstv. dómsmálaráðherra kastaði fram einni eða tveimur spurningum til mín. Hann spurði, hvort jeg gæti búist við, að að Framsóknarflokknum yrði mikill harmur kveðinn, þó að íhaldsmenn mistu þingsæti. Með þessu opinberaði hæstv. ráðherra í annað sinn, hvað honum gengur til. Nei, jeg get ekki búist við, að að Framsóknarflokknum verði mikill harmur kveðinn, en jeg hefði ekki getað trúað því fyrir nokkrum árum, að hæstv. dómsmrh., sem er fyrverandi og núverandi sósíalisti, mundi geta tekist að stofna bændaflokk, sem vildi vinna svo mikið til að svifta andstöðuflokk sinn þingsæti, að hann vildi með lögum breyta kjördæmaskipuninni í landinu bændastjettinni í óhag. En nú verð jeg að trúa því.

Hæstv. ráðh. endaði ræðu sína með nokkrum orðum um afstöðu mína til fjárhags og fjárlaga. Jeg ætla ekki að draga það atriði inn í þetta mál, en jeg skal hvar á landinu sem er ræða við hann, hvort rjettara sje að reisa letigarð eða leggja vegi. En um það skilst mjer, að fjármálaágreiningur okkar snúist nú.