28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mjer þykir leitt, ef jeg hefi orðið til þess að erta vanstilt skap hv. 3. landsk. En það er þá aðeins vegna þessa stóra máls, sem hjer er til umr., að það hefir orðið. Hv. þm. hjelt langa ræðu um það, að hann stæði sig jafnan mjög vel í orðaskiftum við mig, og virtist vera mjög ánægður með sjálfan sig. Jeg vil nú varla verða til þess að ræna hann ánægjunni af þessari sjálfsblekkingu. En jeg verð þó að benda honum á það, sem allir aðrir vita, að þegar hann er búinn með fyrstu ræðu sína, sem hann víst hefir lagt mikinn tíma í að sjóða saman, þá er hann oltinn út úr hlutverkinu og eins auðvelt að fást við hann úr því eins og skjaldböku, sem oltin er á hrygginn.

Hv. 3. landsk. sagði, að jeg væri að leika íhaldsmenn í Danmörku. Jeg sagði aðeins, að hægrimenn og verkamenn í Danmörku hefðu í sameiningu beitt sjer fyrir hlutfallskosningu. En það var af því, að bændur stóðu of lengi á móti nauðsynlegum breytingum á kjördæmaskipuninni. Ef þeir hefðu sýnt dálitla tilhliðrun, þá hefði ekki farið eins illa fyrir þeim. Þá vildi hv. þm. halda því fram, að verið væri með þessu frv. að eyðileggja bændavaldið í landinu. En það má minna hv. þm. á það, að bændavaldið hefir fengið fremur litla stoð frá þessu kjördæmi nú um langa hríð. Kaupstaðaandinn hefir borið bændur kjördæmisins ofurliði. Og þá fyrst, þegar búið er að skifta Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi, standa þeir nær því að fá vald í sýslunni. Þegar Hafnarfjörður verður skilinn frá, þá verður kjördæmið, sem eftir er, þrískift; það verða íhaldsmenn, bændur og verkamenn. — Eins og sýslan er bygð, þá verða fyrst möguleikar fyrir bændahjeruðin að ráða fulltrúavali, þegar Hafnarfjörður er skilinn frá henni. Þegar því háttv. 3. landsk. er að reyna að rökstyðja þá kenningu sína, að hjer sje verið að rífa niður bændavaldið í landinu, þá er sú tilraun jafnómöguleg eins og að ætla sjer að kasta steini upp í tunglið. Þetta er tómt fals. Það er bara auðsjeð, að hv. þm. trúir ekki á ummæli flokksbróður síns í Nd., hv. 2. þm. G.-K., en hann skoraði á einn þm. sósíalista í Nd. að keppa við sig um þingsæti í Hafnarfirði. Hann treystir flokksbróður sínum auðsjáanlega ekki til að vinna þingsætið. Hv. þm. veit, að þm. G.-K. hafa staðið á móti óskum meiri hluta hafnfirskra kjósenda, meðal annars í þessu máli; 2/3 af þeim hafnfirskum kjósendum, er látið hafa álit sitt í ljós, vilja fá kjördæminu skift. Mótstaða gegn frv. er því aðeins kúgun, sem íhaldsmenn vilja koma fram á Hafnfirðingum. En þeim mundi heppilegra að vera með frv. og stunda þar með rjettlæti, sem gæfi þeim von um, að þeir fengju síðar þingsæti á sama hátt. — Í því felst uppgjöf eigi lítil frá hálfu íhaldsmanna, að gera ráð fyrir, að Hafnarfjörður hljóti að falla í greipar andstæðingum þeirra. En það ber líka vott um, að samviskan segir þeim, að þeir hafi komið ver fram við Hafnfirðinga en ætti að vera. Framsóknarflokkurinn mun engan hag hafa af þessu fyrir sig. Hann hugsar ekki til að bjóða fram þm. í Hafnarfirði, fremur en í hinum kaupstöðunum. Hann hefir því engra hagsmuna að gæta þarna fyrir sig. Vill aðeins stunda rjettlæti í þessum málum sem öðrum. Jeg get mint hv. 3. landsk. á atvik, sem gerðist stuttu eftir að við vorum báðir kosnir á þing, jeg eftir tiltölulega litla, en hann eftir fremur langa og stranga baráttu. Við vorum, ásamt þeim öðrum þm., er til náðist, kallaðir upp í stjórnarráð á fund. Tilefnið var bænarskrá, er borist hafði frá Hafnfirðingum um að veita togurum leyfi til að gera út þaðan. Bænarskráin var rökstudd með því, að sultur og harðrjetti stæði fyrir dyrum. Þetta var rjett. Móti þessari hjálp var meiri hluti íhaldsmanna, en framsóknarmennirnir, sem kosnir voru af sveitunum, vildu hjálpa. Þá var það, sem einn framsóknarþingmaður sagði þá frægu setningu, að Hafnfirðingar yrðu líklega að senda þrjá hordauða menn sem fylgiskjal, til þess að kröfum þeirra yrði sint. Jeg fullyrði ekki, að hv. 3. landsk. þm. hafi verið á móti þessu nauðsynjamáli Hafnfirðinga, en það voru menn úr hans flokki. En af orðum hans í dag má draga þá ályktun, að hann hafi ekki verið ánægður, þar sem hann líkti því við landráð, að þetta var gert. Háttv. þm. reyndi ekki einu sinni að verja aðstöðu sína í þessu máli með því að leiða rök að því, að landbúnaðarsveitirnar stæðu ver að vígi eftir skiftinguna. Hann telur bara víst, að sósíalistar fái annan þm., en íhaldsmenn hinn, í stað þess að nú eru tveir íhaldsmenn. Er því rjett að athuga, hvorir munu verri vera landbúnaðinum, íhaldsmenn eða sósíalistar. Hvernig hafa íhaldsmenn komið fram? Það má taka landnámssjóðinn til dæmis. Íhaldsmenn hafa á undanförnum þingum gert alt til að eyðileggja þá hugmynd. En þegar þeir sáu nú, að málið var búið að vinna sjer fylgi rjóðarinnar, þá var mótstaðan þrotin; þá þorðu þeir ekki annað en vera með, af hræðslu við það, að þeir spiltu enn meira fyrir sjer en orðið var. Jeg held, að feður þeirra barna, sem Íhaldsflokkurinn hefir með pólitík sinni flæmt úr sveitunum í hungrið í Hafnarfirði og kjallaraholurnar í Reykjavík, þurfi ekki að verða neitt hryggir, þó íhaldsmenn missi eitt þingsæti. — En þá er að athuga, hvort bændur hafa haft mikla raun af jafnaðarmönnum. Er því fljótsvarað, að svo er ekki enn, hvað sem verða kann síðar. Jafnaðarmenn hafa nú í 7 ár átt fulltrúa á þingi, og hefir hann aldrei lagt stein í götu áhugamála bænda. En það hafa íhaldsmenn þráfaldlega gert, bæði á sviði ræktunarmálanna og samgöngumálanna. Þegar því um það er að ræða að velja milli íhaldsþingmanns og jafnaðarmannaþingmanns, þá sýnir reynslan, að bændum er betri jafnaðarmaðurinn. (JÞ: Er ekki best að láta bændur afhenda sósíalistum öll þingsætin?). Já, hv. þm. spyr, — en jeg spyr: Eru þm. G.-K. bændur? Er Björn Kristjánsson bóndi? Er Ólafur Thors bóndi? — Nei, þeir eru það sannarlega ekki. (JÞ: Er hæstv. dómsmrh. bóndi? — Forseti (hringir): Ekki samtal). Jeg er kosinn af bændum. Nei, bændur eiga engu að tapa í Hafnarfirði. Ef breyting verður, þá hlýtur hún altaf að verða til bóta. — Jeg get sannað mitt mál, en hv. 3. landsk. getur ekki sannað, að núverandi þm. G.-K. hafi gert neitt fyrir bændur. Hann varð að kingja því með þögninni, að þeir hefðu ekki gert nokkurn skapaðan hlut til gagns og viðreisnar landbúnaðinum. Vil jeg biðja hv. 3. landsk. að athuga vel þau rök, sem jeg hefi fært fram. Úr hans röksemdaleiðslu hefir lítið orðið, hann hefir ekkert borið fram annað en vaðal, nærri því „slepju“, eins og hann lýsti einu sinni ræðumensku eins helsta flokksbróður síns. Þegar jeg hafði áðan rakið þrjátíu ára sögu þessa manns og sannað andstöðu hans gegn kaupfjelögunum, símanum og járnbrautinni, þá gat háttv. 3. landsk. engu í móti mælt, en varð að viðurkenna rjettmæti röksemda minna. En þetta leiddi hv. 3. landsk. yfir flokksbróður sinn, með blaðaskrifum sínum og gjálfri um, að bændur mistu svo mikið við skiftinguna.

Það var alveg eins og bændavaldið hefði setið þar altaf á stóli, eða eins og Sigurður á Ystafelli og Torfi í Ólafsdal hefðu setið þar í þingmannssætum. Þegar svo rökin eru fram borin, kveinar hv. 3. landsk. Hann reynir enga vörn eða segir, að þetta sje ósatt. Hann eygir ekki aðra vörn í málinu en að segja, að hjer sje um hatursfulla árás að ræða, en játar um leið, að það, sem jeg hefi sagt, sje rjett. Annars er enginn, sem kominn er til vits og ára, sem ekki veit um andstöðu hv. 1. þm. G.-K. gegn símanum, kaupfjelögunum og járnbrautinni, svo að jeg nefni aðeins þessi þrjú mál. Og úr því háttv. 3. landsk. neyðir mig til þess að gera upp, verður að segja söguna eins og hún gengur, að það er enginn, sem hefir gert bændastjett þessa lands eins mikið til miska og þessi eldri þm. G.-K., ekki einu sinni hv. 3. landsk., því hann hefir þó þá málsbót að hafa verið fylgjandi járnbrautarmálinu.

En svo fer hv. 3. landsk. að afsaka yfirklórið á því, er birtist í blaði íhaldsins, því að það var ekki danska blaðið, ekki stormur, sem er lausaleiksblað íhaldsins, heldur hið viðurkenda blað Vörður, sem gefinn er út af miðstjórn Íhaldsflokksins, sem lýsir yfir því, að breyta þurfi kjördæmaskipuninni, til þess að efla kaupstaðavaldið. Og Vörður sagði ekki annað en það, sem logaði og sauð í íhaldsleiðtogunum hjer í Reykjavík, því að þeir voru varla með rjettu ráði eftir kosningarnar.

Það var ekki nema um tvo vegi að gera, annaðhvort að rífa upp kjördæmaskipunina og bjóða sósíalistum opinberlega bandalag, eins og framhjátökukrakkinn Stormur hefir svo oftlega gert, eða reyna að leika lengur, reyna með blekkingum og yfirklóri að vinna aftur sveitakjördæmin.

Síðan sú skoðun hefir orðið ofan á, hefir stormur oft sagt: hið eigið að læra af Jónasi og framsóknarmönnum: Við eigið að skrifa bændunum og tala við þá og látast vera mjög elskulegir, — og svo, þegar sigurinn er unninn, á að taka af þeim valdið. Það er betri belgur en barn, hv. 3. landsk., og framhjátökukrakkinn segir ekki annað en það, sem sagt er á bænum, en börnin segja stundum það, sem ekki á að segja fullorðna fólkinu.

Þá kom hv. 3. landsk. inn á byggingu letigarðs og betrunarhúss. Jeg skil satt að segja ekki, hvers vegna hv. 3. landsk. er svo illa við betrunarhús og letigarð. Einn af myndarlegri fylgismönnum íhaldsins hefir undanfarið verið að lýsa því í einu blaði bæjarins, hve ilt ástandið sje í tugthúsinu. Sá maður, sem dæmir flesta dóma hjer á landi, greiðir máli þessu atkvæði sitt hjer á þingi og allir lögfræðingar heimta nýtt betrunarhús, vegna þess að tugthúsið sje þjóðarskömm og með öllu óviðunandi. Ef það er glæpsamlegt af mjer að reyna að þvo af þennan smánarblett, sem verið hefir á landinu í þessu máli, og ef allir þessir menn, sem jeg hefi bent á, fara villir vegar, þá skora jeg á hann að taka þau tvö flokkssystkini sín, er sitja honum til vinstri handar og greitt hafa atkvæði með þessu máli, til alvarlegrar meðferðar. Eða hefir hv. 3. landsk. samúð með þeim glæpamönnum hjer í Reykjavík, sem ganga um göturnar með læknisvottorð „upp á vasann“ um, að þeir þoli ekki vistina í betrunarhúsi bæjarins? Er það eftirsóknarverðara, að slæpingjar lifi svo, að þeir kosti landið mörg þús. kr. á ári, heldur en að þeir sjeu látnir vinna? Jeg vil segja hv. 3. landsk. það, að hann hefir engan heiður af því bandalagi, er hann virðist hafa við glæpamenn og slæpingja þessa lands, því að engum öðrum en þeim gerir hann greiða með andstöðu sinni við þetta mál.

Svo er hv. 3. landsk. að prjedika tekjuhalla á fjárlögunum af því að þurfi að leggja vegi. Jeg vil spyrja: Hvernig á að leggja vegi, ef ekkert fje fæst til þeirra? Það yrðu þá líklega helst vegir af líkri tegund eins og Kveldúlfsbúkkinn eða brúin á Norðurá; öðruvísi yrðu þeir ekki.

Hv. 3. landsk. fór svo að tala um, að æskan væri langt frá mjer, en með honum sjálfum. Á einum fundi, þar sem við vorum báðir, viðurkendi háttv. þm., að æskan væri algerlega á móti sjer. Jeg skil heldur ekki, hvernig áhugamál íhaldsins, eins og t. d. herinn og tolluppgjöfin og því um líkt, geta vakið áhuga æskumanna. Hitt kann að vera, að sá lýður, sem hann vill bjarga frá letigarðinum, sje sú æska, er honum fylgir. Og úr því hann hefir lagt á sig ómak fyrir þá æsku, er ekki nema rjett að unna honum liðsemdar úr þeirri átt framvegis.