28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3134 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að svara hv. 1. þm. G.-K. nokkrum orðum. Hann var ekki ánægður með það, að viðurkent var, að íhaldsmaður hefði byrjað baráttuna fyrir því, að Hafnarfjörður yrði sjerstakt kjördæmi. Jeg hafði ekki sagt annað en þetta, og það er satt og rjett. Og það er hjer til umræðu. En það leiðir af sjálfu sjer, að þegar Hafnfirðingar hafa fengið einn af sínum mestu mönnum og helstu atvinnurekendum til að beita sjer fyrir málinu, af því að það er rjettlátt og sanngjarnt, þá er ekki nema eðlilegt, að málinu sje haldið áfram af öðrum, uns það er leitt til sigurs. En ef málið hefir verið rjettmætt 1920 og 1922, hví skyldi það þá ekki vera það nú? Og sjálfur var hv. þm. með samskonar frv. 1926. Frv. það, sem háttv. 5. landsk. flutti þá, hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Gullbringu- og Kjósarsýsla skal vera eitt kjördæmi og kjósa einn alþingismann. — 2. gr. Hafnarfjarðarkaupstaður skal vera eitt kjördæmi og kjósa einn alþingismann. — 3. gr. Lög þessi koma til framkvæmda við næstu almennar óhlutbundnar kosningar til Alþingis“.

M. ö. o.: Þetta er alveg sama og hjer er um að ræða. Þegar þetta mál kom til umr., var það felt frá 2. umr., eins og sjá má í Alþt. 1926, C. 216. Það var felt með 6:5 atkv., en einn af þeim 5, sem já sögðu, var Björn Kristjánsson. Það stendur hjer svart á hvítu. (BK: Jeg verð að sjá þetta sjálfur, ef jeg á að trúa því). Jeg býst við, að hv. þm. heimti að fá að sjá nokkuð margt sjálfur og eigi bágt með að trúa ýmsu úr sinni fortíð, þegar hann kemur til Sankti-Pjeturs og þeir fara að talast við. — Svona var t. d. um afstöðu hv. þm. til samvinnulaganna. (BK: Þetta hefir verið margrekið ofan í hæstv. ráðh.). Það er ekki aðeins íhaldsmaðurinn Einar Þorgilsson, sem var forgöngumaður þessa máls, heldur greiddi íhaldshetjan hv. 1. þm. G.-K. atkv. með alveg samskonar frv. 1926.

Ef hv. þm. lætur það standa óbreytt í ræðu sinni, að honum sje illa við hlutdrægni og óheilindi, verður einhverntíma hlegið dátt. Því að hver hefir sýnt meiri hlutdrægni og óheilindi en einmitt hann, og það þegar hann beitir sjer fyrir hinum verstu málum?

Háttv. þm. leyfir sjer að segja, að hann hafi ekki verið á móti ritsímanum. Ef hann hefir löngun til, skal jeg við 3. umr. þessa máls lesa honum nokkur orð, sem hann sagði sjálfur, þegar það mál var á dagskrá, og sýna, hvernig hann spáði fyrir símanum.

Þá lýsti hv. þm. því átakanlega, hvílík endemisvitleysa járnbrautarmálið væri. Það var skaði, að hv. 3. landsk. var ekki inni til að heyra flokksbróður sinn tala um þetta stærsta áhugamál hans eins og hverja aðra vitleysu. Eina ráðið til þess að þetta yrði ekki eintóm vitleysa, var að áliti háttv. þm. að byggja „þjóðgatið“ svokallaða, sem ætti að verða stærst allra gata á Íslandi. Hann skrifaði þá langar greinar um það, að gera þyrfti 20 km. löng steingöng á Hellisheiði. En þeir, sem þekkja vel til hjer syðra og vita, hversu mjög jarðskjálftar eru tíðir á þessum slóðum, munu ekki búast við, að þeir hefðu allir orðið 70 ára og eldri, sem oft hefðu farið um það „þjóðgat“.

Það var rjett hjá þessum hv. þm. að kveða ekki fastara á en hann gerði um bændafylgi sitt, því að það verður tæplega annað sagt en það sje frekar lítil uppskera eftir 30 ára þingmensku og 10 ára starf sem bankastjóri, þó að hann hafi nú dálítið fylgi í Kjósarsýslu, sem er minsta sýsla landsins.

Þá var háttv. þm. að tala um, að hann væri til með að skrifa einn verslunarólagspjesa enn. Jeg held, að hann ætti að gera það. Slíkt myndi ekkert skaða, því að þjóðin hefir fyrir löngu þekt hans innri mann, og hefir því lært að meta skrif hans rjettilega. En pjesinn myndi verða viðeigandi minningarrit á sjötíu ára afmæli hans.

Háttv. 3. landsk. ætla jeg ekki að svara nú, því að hann mun samkvæmt þingsköpunum vera „dauður“ við þessa umræðu. Ætla jeg því að geyma minnisblöð mín til 3. umr.