04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, fjárlög 1929

Erlingur Friðjónsson:

Viðvíkjandi áskorun hv. þm. Seyðf. um að taka brtt. mína aftur, skal jeg svara honum því, að það get jeg ekki. Jeg kom fram með þessa brtt. mína af því, að mjer þótti upphæðin of há. Og vegna þess að gæta verður allrar sparsemi í fjárl., svo útgjöldin verði ekki of há, þá vildi jeg með þessu leggja minn litla skerf til þess, að útkoma þeirra gæti orðið sæmileg. Hv. þm. hlýtur líka að muna, að við 2. umr. fjárlagafrv. bar jeg fram till. þess efnis, að veittur væri styrkur til Akureyrarhafnar, en hún var feld með litlum atkvæðamun. Ástæðan fyrir því, að jeg bar hana svo ekki aftur fram við 3. umr., var sú, að jeg viðurkenni nauðsyn þess að bæta ekki fleiri fjárveitingum á fjárlögin en þegar eru komnar eins og þau nú liggja fyrir, þó jeg hinsvegar líti svo á, að ríkinu beri full skylda til þess að styrkja Akureyrarhöfn.