04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Páll Hermannsson):

Á þskj. 706 eru 3 brtt., og ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þá III., sem er við 23. gr. VIII og hljóðar svo:

„Að ábyrgjast húsbyggingarlán, alt að 200 þús. kr., handa byggingarfjelagi starfsmanna ríkisins í Reykjavík, þó ekki yfir 20 þús. kr. fyrir hverja íbúð, enda hafi ríkissjóður 1. veðrjett í húseignunum, auk frekari trygginga, ef stjórnin telur nauðsynlegar.“

Jeg vil geta þess, að þessi umsókn lá fyrir fjvn. Ed., og tók nefndin hana til athugunar, en gat ekki tekið hana til greina. Jeg skal ekki fara út í það að lýsa rökum nefndarinnar fyrir því, að hún gat ekki sint þessari umsókn, en aðeins geta þess, að nefndin leit svo á, að það gæti verið vafasamt, hvort rjett væri að ganga langt inn á þessa braut, og vildi því ekki verða til þess að styðja það, að fordæmi væri gefið. Nefndin leit svo á, að ef 8–10 embættismönnum hjer í Reykjavík væri veitt ríkissjóðsábyrgð fyrir byggingaláni, þá gætu fjölda margir aðrir embættismenn komið og krafist ábyrgðar með sama rjetti. Þegar nú litið er á það, að unnið hefir verið að breytingum fjárl. með það fyrir augum, að hv. Nd. gæti fallist á þau eins og þau koma hjeðan úr deildinni, og þegar jafnframt er haft í huga, hvað þessi till. er — eða getur orðið — afleiðingarík, þá tel jeg það æðidjarft að koma með þessa brtt. einmitt nú, við þá umræðu, sem ætlast hefir verið til, að í rauninni legði síðustu hönd á fjárlagafrv., og það svo seint, að leita þurfi afbrigða. Jeg mun því greiða atkv. á móti því, að þessi afbrigði verði veitt, en þótti hinsvegar skemtilegra og myndarlegra að gera þessa grein fyrir atkv. mínu.