02.02.1928
Efri deild: 12. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

57. mál, þingsköp Alþingis

Halldór Steinsson:

Þetta frv. er í sjálfu sjer meinlítið, og að því leyti sem það miðar til sparnaðar, þá er jeg því meðmæltur, þótt mjer hinsvegar virðist, að sparnaðurinn sje tvísýnn, þar sem gera má ráð fyrir, að 2. gr. jeti upp það, sem sparast með 3. gr. Jeg ætla þá að víkja lítilsháttar að þessum þremur breytingum þingskapanna, sem frv. fer fram á.

Um 1. gr. er það að segja, að jeg tel hana fremur til bóta, en „praktiska“ þýðingu hefir hún enga. Meiri hl. deilda getur altaf komið sömu mönnum í fleiri nefndir en tvær, ef honum býður svo við að horfa. En hitt er ekki úr vegi, að hafa þingsköpin svo, að ekki þurfi að brjóta þau.

Um 2. gr. er fátt að segja. Það, sem hún fer fram á, finst mjer hálfgert tildur, sem aldrei muni svara kostnaði, og mun jeg því verða á móti henni.

Þá er það 3. gr., sem er veigamesta breytingin, og get jeg verið meðmæltur þeirri hugmynd, sem í henni felst. Þó finst mjer í fljótu bragði, að hjer sje of langt gengið, að ætla þm., öðrum en flm. og frsm., aðeins eina hálftíma ræðu. Þetta getur stundum orðið alt of þröngt og þm. ekki lokið máli sínu á svo skömmum tíma. Þess vegna kynni jeg betur við að ætla þm. tvær ræður, og mætti sú síðari vera mun styttri.

Annars verð jeg að segja það, að jeg kann illa við, að ráðherrar skuli mega tala eins oft og þeir vilja. Mjer finst ekki minni ástæða til að takmarka að einhverju leyti málæði þeirra heldur en einstakra þm.

Frv. þessu mun jeg því geta fylgt, ef því verður breytt á þann hátt, sem jeg hefi nú bent á. Og ef jeg mætti eiga von á, að hv. nefnd tæki þessar aths. mínar til greina, þá mundi jeg ekki koma með brtt. við frv.