16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að jeg megi segja það fyrir hönd nefndarinnar allrar, að henni finnist ekki, að þær breytingar, sem 3. gr. fer fram á á þingsköpunum, sjeu svo mikið sparnaðarmál, að þess vegna geti það verið rjett að gera þá takmörkun á málfrelsi þingmanna, sem þar greinir; og sjerstaklega held jeg, að nefndinni hafi fundist greinin skifta málfrelsi alt of ójafnt á milli þingmanna. Það getur altaf borið svo til, að einhver annar heldur en framsögumaður nefndar hafi mikið að segja, og jeg hygg það vera yfirleitt ófullnægjandi, ef þingmaður, sem annars hefir nokkuð verulegt fram að bera viðvíkjandi þingmáli, eigi ekki kost á að taka til máls nema einu sinni, því að það vill venjulega vera svo, að það, sem fram er komið í fyrstu ræðu, gefur bæði öðrum tilefni til að koma með röksemdir á móti, og kannske benda á veilur, og það eru ekki allir þingmenn, sem eru þeim fullkomleika gæddir, að þeim hafi tekist að taka fram í einni ræðu alt, sem þurfti, að ekki komi í ljós við frekari umræðu, að þeir hefðu þurft einhverri skýringu við að bæta. Þetta finst okkur í nefndinni sjerstaklega, að ekki megi lögleiða, og yfir höfuð verð jeg að segja það frá sjálfum mjer — jeg veit ekki, hvort jeg má segja það fyrir hönd nefndarinnar líka —, að jeg held, að það sje fullmikið gert úr þessum málalengingum þingmanna. Það er, satt að segja, mest um það talað af fólki, sem ekki ber fult skyn á, hvað það eru mörg mál í raun og veru, sem þessar umræður snúast um, þótt allir viðurkenni, að það hefir komið fyrir endrum og sinnum, að málalengingar dragast úr hófi. En þingsköpin vísa leiðina til að komast hjá þessu, ef forsetar og þingmenn aðeins vildu beita henni.