16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

57. mál, þingsköp Alþingis

Jón Baldvinsson:

Jeg skil vel, hvað hv. 3. landsk. fer í þessu. Við erum aðeins ekki sammála um það, hvernig þessu skuli koma fyrir. Jeg skal segja hv. þm. það, að annarsstaðar í löndum eru sjerstakar nefndir, hjá ríkjum, sem eru fullvalda eins og við, sem starfa á milli þinga til leiðbeiningar fyrir stjórnir þeirra landa. Nefndirnar eru kosnar af öllum flokkum þingsins. Hv. þm. verður að gá að því, að það er dálítið sjerstakt með okkar þing, það er kosið í nær einu lagi, en þing annara þjóða eru samsett af tveim þingum, sem kosið er sjerstaklega til. Er annað sjerstaklega þing þjóðarinnar, en hitt, eða hin deildin, er víðast hvar leifar frá eldri tímum, þegar einvaldarnir voru og settu þau til þess að tryggja sín yfirráð.

Jeg hygg, að þetta sje hin veglegasta meðferð, sem við getum gefið okkar utanríkismálum, að láta þau sæta meðferð alls þingsins, því að hv. 3. landsk. verður að játa, að þau eru fæst venjuleg löggjafarmál. Það er nefnilega svo, að til þeirrar nefndar myndi verða vísað ágreiningsatriðum, sem við hefðum við önnur lönd, og ýmsum samningamálum, sem við þurfum að hafa. Það er sjaldnast, að það sjeu lagafrumvörp, sem við þurfum að fara þannig með, en vilji svo til, þá fara þau líka sína rjettu boðleið gegnum deildirnar. En eðlilegastur og veglegastur sess er þessum málum skipaður, ef kosin er nefnd úr sameinuðu þingi og ef deildirnar hefðu rjett til að vísa þangað málum, sem til kynnu að falla í þeim.