29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að nefndin klofnaði um það, hvernig skipa ætti utanríkismálanefnd, en ekki um þörfina á slíkri nefnd.

Minni hl. lítur svo á, að það sje ekki í samræmi við þá skipun, sem nú er á Alþingi, að velja nefnd í sameinuðu þingi, sem taka á til meðferðar mál frá hvorri deildinni fyrir sig. Það getur svo farið, að allir nefndarmenn eigi sæti t. d. í Nd., og segjum svo, að nefndin hafi mál til meðferðar, sem Ed. þarf að fjalla um, þá er enginn forsvarsmaður málsins í þeirri deild. Þetta er möguleiki, sem meiri hlutinn tekur ekki með í reikninginn.

Mjer virðist, að eftir fyrirkomulagi okkar þings sje þetta ekki rjett, en hinsvegar er hægt að komast hjá því, ef farin er sú leið, sem minni hl. stingur upp á.

Hæstv. forseti vakti athygli á því, að á fundi væri útbýtt brtt. frá hv. þm. Dal. (SE). Þótt hv. þm. hafi ekki talað með sinni till., get jeg ekki betur sjeð en að hann fallist í aðalatriðum á till. minni hl.

Mjer er ekki kappsmál, hvor leiðin verður farin, sú, sem minni hl. bendir á, eða hv. þm. Dal., og get jeg gjarnan gengið inn á till. hv. þm. til samkomulags.