29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

57. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Eggerz:

Jeg vil játa það, að mjer finst aðalatriðið, að utanríkismálanefnd verði sett hjer í þinginu, og vil jeg lýsa ánægju minni yfir því, að bæði meiri hl. og minni hl. eru jafnsammála um það atriði. Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að hæstv. forsrh. skýrði mjer frá því nokkru fyrir þing, að stjórnin ætlaði að bera fram till. um nefnd í þessa átt, og vona jeg, að hæstv. ráðh. reiðist mjer ekki, þótt jeg láti þessa getið.

Jeg hefi verið að kynna mjer fyrirkomulag á þessu máli annarsstaðar. Hv. frsm. meiri hl. skýrði frá þeim reglum, sem væru í Danmörku, og mun sú frásögn hans alveg rjett, en jeg hefi einnig kynt mjer, hvernig þessu máli er farið hjá Norðmönnum. Hefi jeg átt tal við ræðismann Norðmanna, og hefir hann skýrt mjer frá því, að í Noregi starfaði að þessum málum nefnd, sem kölluð er Konstitutions Komité. Nefnd þessa getur stj. kallað saman, þegar þing situr, en ekki þar fyrir utan. Aftur á móti legg jeg áherslu á, að stjórnin geti kallað nefndina saman milli þinga. Í samtali því, er jeg áðan gat um milli mín og hæstv. forsrh., lagði hæstv. ráðh. mikla áherslu á það, hve æskilegt væri fyrir stjórnina að geta haft tal af slíkri nefnd, þegar þingið situr ekki, og mun öllum vera það skiljanlegt, sem vita, hve utanríkismálin eru vandasöm mál. Kannast jeg við það frá minni ráðherratíð, hve iðulega komu fyrir flókin spursmál og hve mikil nauðsyn var oft á því að hafa nefnd manna til að ráðfæra sig við. Annars er óþarfi að fara fleiri orðum um þetta, því að um nauðsyn á þessari nefnd eru allir sammála. Jeg get fallist á það með minni hl., að vegna skipunar á öðrum nefndum væri heppilegra, að utanríkismálanefndin væri kosin eins og aðrar fastanefndir. En ef minni till. er fylgt og nefndir beggja deilda ganga saman í eina nefnd í þinglokin og kjósa sjer formann og ritara, þá er þar sama marki náð og ef nefndin væri kosin í sameinuðu þingi, eins og meiri hl. vill láta gera, en um leið haldið venjum þingsins.

Mjer finst, að rjett sje að ákveða með lögum, að þagnarskylda sje í nefndinni um þau mál, sem forsrh. eða formaður nefndarinnar óska þagnar um. Samskonar regla gildir í Danmörku. Álít jeg það svo þýðingarmikið atriði, að rjett væri að taka það strax til athugunar, og ætti að bera fram brtt. um það við 3. umr. þessa máls.

Í brtt. minni er svo að orði kveðið, að stjórninni sje heimilt að kalla saman nefndina, þegar henni þykir við þurfa. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin sje fær um að dæma um það, hvenær þörf er á að kalla nefndina saman, en hinsvegar koma oft fyrir ýms smáatriði, sem ekki er þörf á að leggja fyrir nefnd. Ef það verður ákveðið, að viss mál verði lögð fyrir nefndina, þá hefi jeg auðvitað ekkert á móti því. Hinsvegar vona jeg, að stjórnin telji það skyldu sína að leggja öll erfið mál fyrir nefndina. Allir vita, hversu mikil ábyrgð hvílir á herðum stjórnarinnar, svo að hún hlýtur hreint og beint að hafa tilhneigingu til þess að leita sjer aðstoðar. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað það, að þessi nefnd verði skipuð; hitt skiftir minna, hvor leiðin verður farin.