29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

57. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Ottesen:

Þegar frv. háttv. 2. þm. Reykv. um skipun sjerstakrar utanríkismálanefndar var hjer til 1. umr., beindi jeg þeim tilmælum til allshn., sem fjekk málið til meðferðar, að taka það til athugunar, að nefndarskipun sú, sem frv. fór fram á, yrði bygð á þeim grundvelli, sem núverandi þingskipun hvílir á. Minni hl. hefir tekið þessi tilmæli til greina, en meiri hl. hefir ekki getað fallist á þau.

Jeg vil til viðbótar því, sem jeg sagði um málið við 1. umr., benda á það, að á þann hátt, sem meiri hl. hugsar sjer máli þessu fyrir komið, er ekki trygt, að utanríkismálin verði rædd jafngaumgæfilega og önnur þingmál. Því að þótt gera megi ráð fyrir, að þessi mál verði rædd í báðum deildum, þá er þeim ekki vísað nema til einnar nefndar, og á þann hátt fjalla færri menn um þau í nefndum en ef þeim væri vísað til nefndar í hvorri deild, eins og venja er til um önnur þingmál. Þótt bein þátttaka okkar í utanríkismálum sje ekki mjög umfangsmikil enn sem komið er, þá rekur að því, að við tökum þau mál að öllu leyti í okkar hendur, og auk þess eru slík mál mjög vandasöm, og er þess full þörf, að ekki sje síður vandað til meðferðar þeirra en annara mála. En svo er annað atriði í þessu máli, sem mjer finst mjög óviðfeldið, sem sje það, að með fyrirkomulagi meiri hl. á að binda það með lögum, að það sjeu eingöngu búsettir menn í Reykjavík, sem eigi að fjalla um þessi mál í nefndinni á þingi og milli þinga með stjórninni.

Jeg kann, satt að segja, alls ekki við, að verið sje að lögbinda það, að þetta sje svona, og það því frekar, sem þetta er algert brot á þeim reglum um nefndaskipanir og val í nefndir, sem annars tíðkast í þinginu. Jeg vildi biðja háttv. þm. að athuga þetta. Aftur á móti er með till. háttv. minni hl. haft sama fyrirkomulag á þessu eins og með önnur þingmál, því samkv. þeim er hægt að kjósa menn í nefndina án tillits til búsetu þeirra. Hinsvegar er það, þar sem á að kjósa sjerstaka nefnd, sem jafnframt á að vera stjórninni til ráðuneytis um þessi mál milli þinga, þá er það auðvitað ósamrýmanlegt nema því aðeins, að nefndarmenn allir sjeu búsettir í Reykjavík. Jeg mun því fylgja brtt. hv. minni hl., og af þessari ástæðu get jeg heldur ekki fallist á brtt. frá hv. þm. Dal., því að samkvæmt þeim er einnig útilokað, að nokkrir aðrir en þeir, sem búsettir eru í Reykjavík, geti komið til með að fjalla um þessi mál í nefnd í þinginu.