08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir haft frv. þetta til athugunar og ekki gert neinar breytingar á því. Það kom að vísu til álita, hvort fresturinn til 1. júlí væri ekki of stuttur, en nefndin leit þó svo á, að það væri ekki, ef stjórnin ljeti undirbúa það í tæka tíð. — Jeg sje nú, að enginn er viðstaddur af hæstv. stjórn, en jeg býst við, að þetta geti þó borist til hennar.

Vegna erindis, sem allshn. hefir alveg nýlega borist viðvíkjandi þessu frv., þá mun nefndin athuga það betur. Vona jeg, að hæstv. forseti taki málið ekki á dagskrá til 3. umr., fyr en jeg hefi tilkynt honum, að það sje óhætt. En þar sem erindi þetta er ekki frá þm., heldur frá prófessor í lögum hjer við háskólann, þá sje jeg enga ástæðu til að ræða það nú.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, þar sem engar brtt. liggja fyrir. Vil heldur taka til máls síðar, ef mótmæli koma fram.