08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki nema sjálfsagt að vera hv. 2. þm. Árn. þakklátur fyrir stuðning þann, sem hann vill veita þessu máli. Mjer fanst þó kenna minni samúðar í fyrri ræðu hv. þm. en þeirri síðari, en það er ef til vill misskilningur hjá mjer. En hvað sem því líður, get jeg verið ánægður með loforð hv. þm. um að styðja nú að því, að mál þetta verði sem best úr garði gert.

Um sænsku regluna hefi jeg tekið það fram, að hún getur ekki átt við hjer, af því að sýslumenn hafa ekki yfir að ráða nægilega vel útbúnum stöðum til þess að geyma skjölin í. Í Svíþjóð er alt öðru máli að gegna, þar sem eru sjerstakir embættisbústaðir. Hitt er vitaskuld alveg rjett hjá hv. þm., að það þarf að fá sýslumönnum betri skápa en þeir hafa. Það er mikið tjón, ef sýsluskjöl brenna, eins og nýlega átti sjer Stað í Borgarnesi. Annars hjelt jeg, að engir skápar væru svo litlir, að ekki væri hægt að koma skránum inn í þá. (MT: Peningarnir fyrst!). Að vísu, en það er venjulega ekki svo mikið af peningum hjá sýslumönnunum, að þeir fylli skápinn. Flestir senda peningana frá sjer sem fyrst, og þá verður að telja, að skrár og reikningsbækur hafi forgangsrjettinn.

Hv. þm. talaði um, hve áríðandi það væri, að skrár þær, sem getið er um í 11. gr., væru vel úr garði gerðar. Þetta er alveg rjett, og það vill svo vel til, að jeg get sýnt það með aths. við 11. gr., að jeg hefi haft auga fyrir þessu. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Um gagnsemi og áreiðanleik þinglýsingar og afsals- og veðmálabókanna er ekkert meira áríðandi en að skrárnar (registrin) yfir skjölin sjeu í góðu lagi og vel fyrir komið. Fyrir því ber að vanda þessar skrár af fremsta megni“. Ennfremur segir þar: „Nákvæmar reglur um gerð skránna er ekki rjett að setja í lögum, heldur verður að fela það umboðsstjórninni. Sumstaðar á landinu mun skrám þessum vera áfátt, og er hin mesta nauðsyn að bæta úr því. Það er og mismunandi, hversu margar skrár þarf í lögsagnarumdæmunum“. Þetta er af þeirri einföldu ástæðu, að sama reglan getur ekki gilt fyrir öll lögsagnarumdæmi.

Hv. þm. gat þess, að fyrir Árnessýslu væru 5 bækur. Það getur verið ágætt, en hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu að hafa eina skrá í litlu lögsagnarumdæmi. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem hægt er að koma fyrir eftir því sem vill samkv. 11. gr. Að lokum sagði hv. þm., að sparnaðurinn væri ekki mikill, ef vel væri gengið frá skránum. Um það er jeg honum alveg ósammála. Sparnaðurinn kemur ekki skránum við. Skrárnar verða að vera í góðu lagi. Þar má ekkert spara. En það, sem sparast, er innfærsla á skjalinu sjálfu. Um tímann, þegar lögin eiga að ganga í gildi, skal jeg geta þess, að jeg hefi tekið fram, að í nefndinni var töluvert um þetta rætt, en það varð ofan á að breyta þessu ekki.

Jeg skal ekki karpa um þetta lengur. Hv. dm. finst málið ef til vill torskilið, en samt er það áríðandi, því að gott lag á þinglestrarfyrirkomulagið er undirstaða undir lánakerfi fasteigna og skipa landsins.