14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3201 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir leyft sjer að koma fram með fjórar brtt. við frv. þetta, en í þeim eru þó ekki fólgnar nema tvær efnisbreytingar. Önnur sú, að þegar skjal er afhent til þinglýsingar, þá ræður hlutaðeigandi, hvort hann afhendir það í tveim frumritum eða í frumriti og eftirriti, Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir óþægindi, sem oft geta verið á því til sveita að fá hinn lögskipaða pappír. Með þessu er líka fyrirbygt, að skjóta þurfi því á frest, að lögin komi í gildi. Þau geta því komið í gildi 1. júlí eins og jeg hefi gert ráð fyrir, enda þótt hinn fyrirskipaði pappír sje ekki alstaðar fyrir hendi. Hin brtt. er svo lítilfjörleg, að jeg ræði ekki um hana.

Þá hefir í fundarbyrjun verið útbýtt brtt. við frv. það, sem hjer er til umr., frá hv. 2. þm. Árn. (MT). Eru þær á þskj. 179. Um þær ætla jeg ekki að tala fyr en flm. hefir talað fyrir þeim.