14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3201 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Magnús Torfason:

Jeg get lýst því yfir, að jeg get verið með brtt. nefndarinnar, því að jeg tel þær allar til bóta, þar sem þær ganga allar í þá átt að gera frv. rýmra, og í þá átt ganga brtt. mínar líka, og þá sjerstaklega til þess að gera dómsmálaráðuneytinu, sem á að hafa eftirlitið, hægara fyrir.

Hjer er verið að taka upp nýtt kerfi, og er vitanlega rent blint í sjóinn með, hvernig það reynist. Fyrsta brtt. mín ákveður, að samritin og eftirritin skuli festa inn eða binda, og er hugsunin sú, að þau skuli sett í möppu og fest þar inn. Jafnframt er gengið út frá því, að fasteignaskjölunum sje raðað eftir númerum í fasteignaskránni og að hver fasteign hafi sitt númer út af fyrir sig, sem jeg geri ráð fyrir, að sje alstaðar. Annars er þetta atriði eftir frv. þess eðlis, að dómsmrh. getur ráðið fyrirkomulaginu.

Þá er 2. brtt. mín, við 11. gr. Í frv. stendur: „Ennfremur skal í skrám þessum ætla hverjum bókstaf hæfilega mörg blöð, og skal þar á sama hátt getið skjala, sem ekki snerta fasteign eða skip. Fyrsti bókstafur í nafni útgefanda skjalsins segir til um, hvar slíkt skjal skuli skráð.“ Brtt. mín kveður svo á, að halda skuli sjerstaka skrá eftir stafrófsröð, því að jeg hygg, að það sje hentugra að hafa það þannig heldur en taka til þess blöð aftan úr bókunum, því að þær vilja gjarnan verða svo margar; t. d. voru þær orðnar þrjár hjá mjer á Ísafirði, þegar jeg var þar.

Þá er brtt. mín undir 2. b., við 3. málsgrein 11. gr. Hún kveður svo á, að ekki skuli aðeins halda lóðaskrár, heldur líka skipaskrár og bifreiðaskrár, þar sem það er nauðsynlegt. Með öðrum orðum, dómsmrh. ræður því, hvort skrár þessar skuli halda eða ekki. En eins og jeg tók fram við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni, þá tek jeg þetta upp nú, af því að jeg tel það afturför frá því, sem á sjer sumstaðar stað, ef þessu er breytt.

3. brtt. mín á þskj. 179 fer fram á, að orðin „í bókinni“ í 1. málsgr. 13. gr. falli niður. Þessu var háttv. frsm. samþykkur við síðustu umr. málsins, og býst jeg við, að hann sje það enn, og skal því ekki fara fleiri orðum um þá brtt., enda er hún ekki mikilvæg.

Loks er síðasta brtt. mín, að fyrir

„1. júlí 1928“ komi: 1. jan. 1929. Eins og jeg hefi tekið fram áður, þá er 1. júlí mitt í þingatímanum, og þau skjöl, sem koma eftir þann dag, verða að færast í gamlar bækur, enda þótt lögin sjeu komin í gildi, því að ekki er hægt að vænta þess, að dómsmálaráðuneytið geti þá verið búið að útvega hinn fyrirskipaða pappír og fleira, sem með þarf. Jeg vil því helst, að lögin gangi ekki í gildi fyr en um áramót. Ennfremur hefi jeg búist við, að dómsmálaráðuneytið leiti sjer upplýsinga hjá öðrum þjóðum, sem lengra eru komnar í þessum efnum en við, áður en það býr til fyrirmyndirnar, því að þetta eru skjöl, sem eiga að vara um aldur og æfi.