01.03.1928
Neðri deild: 36. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

127. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Till. sú, sem jeg bar fram við 2. umr. á þskj. 305, var þá samþykt, og tók hv. 1. þm. Reykv. fram ástæðurnar fyrir því að nokkru leyti. Jeg tel sem sje ótækt, að slík fjelög geti. gerst gróðafyrirtæki, meðan þau njóta slíkra hlunninda frá ríkissjóði. Því að fjelaginu eru ekki aðeins veittar þessar skattívílnanir, heldur jafnframt veruleg upphæð úr ríkissjóði í beinan styrk. Jeg held líka, að fjelagið hafi upphaflega ekki verið stofnað til þess að verða gróðafyrirtæki, heldur þjóðþrifastofnun. Reynslan hefir líka orðið sú, að enginn arður hefir verið greiddur allmörg síðustu ár. Hefir mjer skilist, að menn hefðu ekkert horn í síðu fjelagsins fyrir þá sök, heldur teldu þetta sjálfsagt. En tímarnir geta breytst. Hagur fjelagsins getur batnað, og eftir því sem mjer hefir skilist af viðtali við Emil Nielsen framkvæmdastjóra, þá eru allar líkur til, að svo verði, þegar fjelagið hefir borgað lán sín. — Jeg lít svo á, að þar sem fjelaginu eru veitt slík hlunnindi, sem um er talað í frv. þessu, sje ekki rjett að greiða hluthöfum neinn arð. Röksemdir hv. 1. þm. Reykv. fyrir því að greiða Sparisjóðsvexti voru ekki veigamiklar. Meðan fjelagið nýtur fríðindanna, virðist mjer ekki geta komið til greina að greiða neina vexti. En ef því fer að ganga betur, þá lít jeg svo á, að fjáraukningin eigi að ganga fjelaginu til hagsbóta og til aukningar skipastólsins, en ekki til greiðslu á arði.