15.03.1928
Efri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3221 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

127. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Jón Þorláksson:

Til viðbótar því, sem meðflm. minn hefir skýrt frá um afstöðu Eimskipafjelagsins, vil jeg taka það fram, að það er venja frá stofnun fjelagsins, að vissir menn fengju far milli landa á skipum fjelagsins fyrir niðursett verð, eða fyrir lægra verð á öðru farrými, en á fyrsta farrými fyrir það sama og á öðru. Einkum eru það stúdentar og iðnaðarmenn, sem þessara hlunninda hafa notið. Þetta var einu sinni tilskilið við styrk, sem fjelagið fjekk, og hefir haldist síðan. Það er ekki eðlilegt, að fjelagið flytji farþega ókeypis, og annað, að þeir fá fargjöldin með niðursettu verði, því að það er dálítill beinn kostnaður af hverjum farþega. Fjelagsstjórnin vildi þó ekki gera þetta að ágreiningsatriði og skilur það svo, að sú venja hverfi, að menn fái far fyrir hálft gjald, sú ívilnun falli nú inn í þessar stærri ívilnanir (Dómsmrh. JJ: Auðvitað.) og að þeir framvegis snúi sjer til mentamálaráðsins með þessar ívilnanir, en ekki til fjelagsstjórnarinnar.

Jeg vil skýra frá því, hvað felst í þessum ívilnunum, sem eiga að vera í tvö ár. Það eru ekki ívilnanir í gjöldum til ríkissjóðs nema á pappírnum, vegna þess að eftir núverandi afkomu fjelagsins ber því ekki að greiða neinn tekjuskatt til ríkisins. Eftir fjelagslögunum á að afskrifa svo mikið af arðinum, að það, sem eftir er til skattgreiðslu í ríkissjóð, nemur engu verulegu. En þetta hefir þýðingu fyrir fjelagið með tilliti til útsvars þess í Rvík. Fjelagið hefir orðið hart úti í álagningu útsvara og tilgangurinn með þessu er að skapa alþjóðarfjelagi sanngjörn kjör gagnvart álagningarvaldi niðurjöfnunarnefndarinnar í Reykjavík.