13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get að öllu leyti tekið undir það, sem hv. frsm. fjvn. (IngB) hefir sagt, og jeg er sammála þeirri till., er hann bar fram af hálfu fjvn. um að samþykkja frv. óbreytt. Háttv. framsögumaður beindi þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort hún fyrir sitt leyti væri ekki sammála þeirri skoðun fjvn., að námsstyrkina bæri að skoða sem veiting í eitt skifti fyrir öll, en ekki neitt loforð fyrir framtíðina fyrir þessa námsmenn. Stjórnin hefir ekki átt tal um þetta atriði sjérstaklega, en jeg þori að segja, að stjórnin lítur eins á það og hv. fjvn. Enda hefir verið litið svo á slíkt fyr, sem sjest á því, að á síðasta þingi voru samþyktir námsstyrkir, sem ekki voru teknir upp í fjárlagafrv. í ár.