25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

39. mál, lögtak

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki að hafa neitt á móti frv., en vil aðeins beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort honum sýnist ekki fært að láta ákvæðin um, að hreppstjórar skuli geta framkvæmt lögtak, ná einnig til fjárnáms. Það er sá munur á lögtaki og fjárnámi, að fjárnám er venjulega gert samkvæmt dómi eða sætt, en lögtak án undangengins dóms eða sáttar. Mjer hefir nú dottið í hug, að það mætti einnig láta þessi ákvæði frv. ná til fjárnáms, og vildi jeg gjarnan heyra álit hv. flm. á því atriði.