20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

39. mál, lögtak

Magnús Torfason:

Jeg var svo óheppinn að geta ekki, sökum forfalla, verið viðstaddur hjer í deildinni, þegar mál þetta var til 3. umr., því að brtt. þeim, sem þá komu fram, var útbýtt á þeim sama fundi, svo jeg vissi ekkert um þær, fyr en málið var komið til Ed.

Frv. þetta er þess efnis að gera einfaldari og kostnaðarminni lögtök á opinberum gjöldum. Til örðugleikanna í þessum efnum hefir allmjög verið fundið á síðari tímum, og ekki síst síðan álögur á menn fóru svo mjög vaxandi, sem þær hafa gert nú að undanförnu. Til þess því að ráða bót á þessu er frv. þetta fram komið.

Mig minnir, að einn allshn.maður hreyfði því hjer, hvort nokkuð væri á móti því, að við frv. þetta væri bætt ákvæði, svo það næði einnig til fjárnáms. Jeg fyrir mitt leyti hafði ekkert sjerstakt á móti því, en taldi rjett, að það væri borið undir hæstarjett; en jeg veit ekki til þess, að það hafi verið gert.

Þetta, að setja hámark upphæðar þeirrar, sem hreppstjórar mega taka lögtaki, upp í 1000 kr., er alt annars eðlis en fjárnám. Ákvæðið um fjárnám er því hjer alveg sjerstakt mál, sem þorið er fram fyrir einstaka menn, því að ríkið sem slíkt er ekki venjulega í málaferlum. Rekur því enginn nauður til að samþykkja það, en eins og jeg hefi tekið fram áður, er mjer persónulega ekkert illa við það. En því verður ekki neitað, að eigingjarnir málaflutningsmenn gætu notað þetta ákvæði, ef að lögum yrði, til þess að ná inn skuldum sínum hjá mönnum áður en full lögvörn kæmi fyrir, því eins og kunnugt er, eiga menn rjett á að fá lögfræðilegar leiðbeiningar hjá dómaranum í slíkum tilfellum. Gæti það því komið fyrir, að hallað yrði á menn í þessum efnum, ef slíkt ákvæði yrði að lögum, því að hreppstjórar eru ekki alment svo vel að sjer í lögum, að þeir geti leiðbeint. Annars legg jeg enga áherslu á þetta atriði, heldur hitt, að hækka megi þá upphæð, sem hreppstjórar mega taka lögtaki, eins og gert er í frv. eins og það liggur fyrir nú. En þar sem þetta er ein umr. hjer, þá þarf málið að ganga aftur til efri deildar, ef því verður breytt nú, en jeg lít svo á, að það geti orðið til þess, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi, því að ef Ed. vill ekki ganga að breytingunni, þarf málið að fara í sameinað þing, og þarf þá 2/3 hl. atkvæða til þess, að það verði samþykt. Á þetta vil jeg ekki hætta, því að jeg legg áherslu á, að þetta atriði komist í gegn, því að það er ábyggilegt, að innheimta á gjöldum til sveita gengur ver, og ferst jafnvel oft fyrir, af því að það vantar í lög ákvæði um, að hreppstjórar megi taka svona háar upphæðir lögtaki.