20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

39. mál, lögtak

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg ætla alls ekki að fara að gera þetta atriði að kappsmáli við háttv. 2. þm. Árn. En jeg vil taka það fram, að það er misskilningur hjá háttv. þm., að till., sem síðast kom fram, hafi verið frá mjer, heldur var hún frá allshn., og jeg man ekki betur en að hún væri einmitt borin undir hv. 2. þm. Árn. áður en jeg ljet hana í prentið. Að jeg hefi ekki borið till. þessar undir hæstarjett, stafar af því, að jeg áleit þess enga þörf, en geta vil jeg þess, að í sambandi við samning tillögunnar ráðfærði jeg mig við mann, sem hefir mjög góðan skilning á lagasamningu.

Þá sagði háttv. þm., að þetta væri „princip“-mál og gert fyrir einstaka menn. En svo er alls ekki; þetta ákvæði er beinlínis í gildandi lögum, en þar er upphæðin bundin við 100 kr. Annars fæ jeg ekki betur sjeð en að slíkt ákvæði sem þetta geti orðið til bóta. Eins og t. d. það sje ekki betra fyrir hlutaðeigendur, að sýslumaður geti falið hreppstjórum að gera fjárnám fyrir litlum upphæðum heldur en að þurfa í hvert skifti að fara til þess sjálfir, sem hefir ærinn kostnaðarauka fyrir hlutaðeigendur í för með sjer. Þá get jeg ekki fallist á það hjá háttv. þm., að menn geti átt á hættu að tapa rjetti sínum vegna fávisku hreppstjóranna, því að sýslumenn hafa það altaf í hendi sinni, hvað þeir fela hreppstjórum að framkvæma í þessu efni. En eins og jeg tók fram áðan, geri jeg mál þetta ekki að neinu kappsmáli, og jeg er ekkert hræddur um, að því sje teflt í voða, þó að brtt. mínar verði samþyktar, og það þurfi þess vegna að fara aftur til Ed., og enda þótt þá svo færi, að það yrði að bíða eitt ár, þá tel jeg ekki með því neinn skaða skeðan. En það tel jeg töluvert athugavert, ef fara á að binda sig eingöngu við það, sem önnur þingdeildin gerir, enda þótt hin deildin sje alls ekki ánægð með það. Slíkt er mjer dálítið torskilið. En hvað þetta mál snertir, þá gerir það kannske hvorki til nje frá, því að það er ekki svo stórt í eðli sínu.