06.02.1928
Neðri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

59. mál, ríkisborgararéttur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vildi aðeins þakka hv. þm. N.-Þ. fyrir það að hafa vakið máls á þessu máli hjer á Alþingi. Það var fullkomin ástæða til þess að láta þau orð falla, er hann hafði um þetta atriði. Og jeg lýsi því yfir frá stjórnarinnar hálfu, að hún mun taka mjög til athugunar, hvað gera skuli í þessu efni. Jeg vona, að áður en þessu þingi slítur, verði fengin aðstaða til þess, að þetta komi fram af þingsins hálfu, ef til vill með stofnun sjerstakrar nefndar, að það verði tekið til rækilegrar athugunar, hvernig eigi að snúa sjer í þessu. Jeg vil í þessu sambandi um það, sem hv. þm. sagði um vegabrjef, geta þess, að það er hlutur, sem þarf að athuga, sniðið á þessum vegabrjefum, ef það gæti orðið til þess að auka þekking á okkur út á við, ef því væri kipt í lag.