17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

97. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það, sem frv. þetta fer fram á, er til lítilsháttar hægðarauka fyrir þá, er þurfa að taka grafreiti í kirkjugarðinum í Reykjavík.

Í lögunum er svo ákveðið, að lögreglustjóri innheimti legkaupið, og kirkjugarðsvörður hefir ekki heimild til þess að láta taka gröf fyr en gjaldið er greitt.

Það stendur oft svo á, þegar jarðsetja á aðstandendur sjómanna eða utanbæjarmanna, að þeir hitta svo á, er þeir koma til Reykjavíkur, að skrifstofa lögreglustjóra er ekki opin.

Þessir menn þurfa að fá sig afgreidda mjög fljótt, og er því mikið hentugra fyrir þá, að kirkjugarðsvörður fái heimild til að taka við legkaupi.

Ætlast er til, að kirkjugarðsvörður sæti þeim reglum, sem ráðuneytið setur honum um fjárskil og bókhald.

Vil jeg svo að lokum leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.