01.02.1928
Neðri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg vil vekja athygli hv. deildar og hv. nefndar á því, að síðast, þegar stækkað var lögsagnarumdæmi Ísafjarðarkaupstaðar, taldi Alþingi ekki ástæðu til að leita álits hreppsbúa um málið. Jeg veit satt að segja ekki, hvort nú er meiri ástæða til að gera það en þá var.

Um fjárskifti og ómaga milli hrepps og kaupstaðar skal jeg geta þess, að ef til kæmi, mætti í því efni fara eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaganna frá síðasta þingi um fjárskifti hreppa. Og ef ágreiningur skyldi verða á milli kaupstaðarins og Eyrarhrepps, sem jeg get alls ekki hugsað mjer að verði, þá má hæglega fá úrskurð atvinnumálaráðuneytisins. Bærinn getur ekki orðið gjaldskyldur í hreppnum nema að litlu leyti, þó að mikill hluti Tungu verði tekinn til ræktunar, því að fjósið er reist í Seljalandslandi. Mjer finst augsýnilegt, að svo mikil sanngirni mæli með þessu máli, þar sem bærinn á nær alla jörðina, að ekki sje ástæða til að leita álits hreppsins. Öðru máli væri að gegna, ef horfið væri að því ráði að sameina kaupstaðinn og allan fjörðinn. Það er svo mikilvægt atriði, að sjálfsagt væri að leita umsagnar bæði hreppsins og sýslunnar.