06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3258 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Magnús Jónsson:

Jeg vil benda á, að mjer finst óviðkunnanlegt, að í brtt. meiri hl. er ávalt talað um Eyrarsveit, því að hafi málvenja ekki breytst síðan jeg var þar vestra, ætti það að vera Eyrarhreppur. Jeg segi þetta ekki í ásökunarskyni við háttv. frsm., heldur einungis til þess að þetta verði leiðrjett.

Viðvíkjandi því, að Tunga verði lögð undir lögsagnarumdæmi Ísafjarðar, skal jeg geta þess, að þegar Reykjavíkurbær sótti um, að jarðirnar Bústaðir og Breiðholt yrðu lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur 1923, þá var það gert að skýlausu skilyrði af hálfu Alþingis, að búið væri að komast að fullu samkomulagi við sveitirnar um fjárskifti. Jeg minnist þessa einmitt svo vel vegna þess, að jeg var kosinn í nefnd til að semja við hreppana um þetta atriði, og varð sá endir á, að Reykjavík varð að greiða ærið fje til að fá vilja sínum framgengt. Og mjer þótti Reykjavík ekki of góð til þess að leggja eitthvað í sölurnar. Jeg vil láta fara sömu leið í þessu máli. Jeg vil ekki láta ganga frá því hjer á þingi, nema fullkominn samningur hafi áður verið gerður á milli þeirra aðilja, sem hjer eiga hlut að máli. Ástæðan til þessarar málaleitunar af hálfu Ísafjarðar er auðvitað hin sama og fyrir málaleitun Reykjavíkur 1923, að hreppurinn seilist heldur freklega til gjalda, og því nauðsynlegt, að bærinn hljóti full umráð yfir eign sinni. En jeg tel sanngjarnt, að hann verði eitthvað að greiða fyrir það, og mun verða andvígur málinu að öðrum kosti. Mun jeg skera úr með atkv. mínu, hvernig jeg snýst við öðrum atriðum þessa frv.