06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3259 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir skýrt frá því, hvaða undirbúning þurfti, þegar jarðirnar voru lagðar undir Reykjavík. Hjer er ekki um neinn slíkan undirbúning að ræða. Hreppsnefndin í Eyrarhreppi hefir farið fram á 1000 kr. árgjald, ef Tunga verður lögð undir Ísafjörð, en jeg hefi ekki heyrt, að neitt hafi verið undir þá kröfu tekið, og lítur út fyrir, að kaupstaðurinn vilji fá sínu framgengt án þess að samningar fari fram.

Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að Hnífsdælingar væru samþykkir því, að Tunga væri tekin undan Eyrarhreppi. Jeg held, að þetta sje fullkominn misskilningur. Þegar jeg símaði vestur um að frv. þetta væri á leið, var haldinn fundur í Hnífsdal og var þar samþ. án mótatkv. till. um að leggjast á móti málinu. Hreppsnefnd Eyrarhrepps mótmælti einnig. Á fundi í Ögri, þar sem allir sýslunefndarmenn voru saman komnir, voru einnig samþ. mótmæli með öllum atkv., og má því nærri geta, að þeir munu ekki leggja málinu lið á sýslufundi. En þeir bæta við, að ef Tunga verði lögð undir Ísafjarðarkaupstað, þrátt fyrir mótmæli hreppsnefndar og sýslunefndar, þá verði Ísafjörður skyldaður til þess að greiða hreppnum 1000 kr. árlega. Það er því undarlegt, að verið er að knýja þetta fram án þess að aðiljar semji með sjer, einungis til að gera hlut beggja verri en áður. Bændur sýna síður lipurð í samningum síðar, ef til sameiningar kæmi, ef þetta er gert, heldur en ef það er látið ógert. Hv. þm. Ísaf. er kunnugt um, að jeg barðist einu sinni fyrir sameiningu Skutulsfjarðar og Ísafjarðarkaupstaðar og taldi hana heppilega fyrir báða aðilja, en jeg vil ekki láta móðga hreppsbúa með því að fara þá leið, sem meiri hl. mælir með.

Þótt Hnífsdalur verði gerður að sjerstökum hreppi, verður sá hluti Eyrarhrepps, sem eftir er, ekki fámennari en margir aðrir hreppar á landinu. Íbúatalan er um 200, og er það meira en í mörgum öðrum hreppum landsins, þar sem hún er um 150, eða þar í kring. Það er einmitt nálægt kauptúnunum, eins og t. d. við Skutulsfjörð, að áhugi manna er vakinn á að stofna nýbýli. Nú þegar hafa nokkur nýbýli verið stofnuð þar, og fólkinu fjölgar þarna, þegar fram í sækir.

Jeg verð að taka undir það með hv. frsm. minni hl., að það er harla óviðkunnanlegt, þegar með lögum frá í fyrra var samþ. að gefa hreppsfjelögunum nokkur rjettindi til þess að ráða skifting og aðgreining hreppa, en aðeins að leita samþykkis atvmrh., ef nú á með lögum að brjóta í bág við þessi ákvæði.

Ísafjarðarkaupstaður á nú í Seljalandi töluvert mikið óræktað land, og meira en í Tungulandi, svo að það liggur næst að ætla, að ræktunin muni fara fram að mestu leyti eða nær eingöngu í því landi, sem kaupstaðurinn nú á. Í Tungulandi er nærtækt land ekki nema lítil skák við ána.