06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Ísaf. taldi það galla, að fastákveðið er eftir till. minni hl., að kjósa eigi bæjarstjóra til 6 ára í senn. Þetta er svo í gildandi lögum, en það er ekkert aðalatriði, og skal jeg til samkomulags gjarnan breyta því og setja alt að 6 árum. Út af því, sem hv. þm. sagði um íbúafjöldann í Skutulsfirði, vil jeg upplýsa það, að íbúafjöldinn er ekki svo lítill, að hreppurinn geti ekki staðið sjálfstæður þess vegna. Jeg þekki hreppa, sem hafa færri íbúa en 200; sumir hafa jafnvel 100 íbúa, og því gæti þetta vel komið til mála. Mjer fanst á oddvita Eyrarhrepps, að hann efaði, hvort hreppurinn vildi vera sjerstakur, en hann vildi hinsvegar ekki láta veikja aðstöðu hreppsins með því að láta Tungu af hendi.

Það er rjett, að háttv. þm. Ísaf, er stefnuskrá jafnaðarmanna öllu kunnugri en jeg, en jeg veit þó, að í henni er ákvæði um að vernda þá, sem minni máttar eru, en í þessu sambandi virðist mjer hv. þm. Ísaf. fara lítið eftir því boðorði, eins og reyndar oftar. Einmitt þetta atriði gerir það að verkum, að jeg álít, að ekki eigi að sameina Tungu og Ísafjörð.

Hv. frsm. meiri hl. mintist á sveitarstjórnarlögin. Jeg tók það fram, að mjer fyndist óhafandi, þar sem hreppum var gefið það fyrirheit á síðasta þingi, að þeim yrði ekki skift nje mörkum breytt nema með þeirra samþykki, að svíkja nú þetta loforð.

Um kosningu bæjarstjóra hefir allshn. skotist yfir það, að til eru fyrirmæli frá 1926 um það, að bæjarstjórar skuli kosnir af bæjarmönnum. Þessi fyrirmæli standa í lögunum frá 1926 um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Geri jeg ráð fyrir því, að ef nefndin hefði athugað þetta, mundi hún hafa fallist á mína till. Eins býst jeg við því, að þegar þetta er upplýst, muni meiri hlutinn taka aftur sína till., því að þeir munu ekki álíta rjett, að Ísafjörður hafi neina sjerstöðu í máli þessu.