06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Að fengnum upplýsingum get jeg gengið inn á till. hv. 1. þm. Skagf., ef bætt væri inn í hana orðunum „alt að 6 árum“. En viðvíkjandi því, er jeg áður sagði, ætla jeg að skýra frá því nokkru nánar, því að jeg hefi nú náð í lögin um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur.

Jeg hjelt, að Seltjarnarneshreppur hefði fengið 30000 kr. fyrir þessar þrjár jarðir sínar, en það voru ekki nema einar 12000 kr.

Og fyrir landið úr Mosfellssveit, eða rjettinn á landinu meðfram árbakka Elliðaánna frá jörðunum Árbæ og Ártúni, sem þurfti að fá til þess að hægt væri að setja þarna upp rafstöð, voru greiddar 37000 kr. En þá er þess að gæta, að einmitt á þessum stað á að starfrækja eitthvert hið stærsta fyrirtæki hjer á landi, rafveitu Reykjavíkur, sem þegar hefir kostað 4 milj. króna og árlega gefur af sjer fleiri hundruð þús. kr. tekjur. Það er einkennilegt, að fyrir þetta þurfi ekki að greiða nema helmingi meira en það, sem Eyrarhreppur vill fá í skaðabætur fyrir að Tunga gangi úr hreppnum, en það eru 20000 kr. — Þetta sýnir best ósanngirnina í kröfu hreppsins.