06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (3058)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Pjetur Ottesen:

Mjer kom það dálítið undarlega fyrir að heyra þau ummæli hv. þm. Ísaf., að það væri sama og að banna Ísfirðingum að nota jörðina Tungu, að samþ. brtt. minni hl. að fella niður 1. gr. frv. Mjer finst ekki meiri ástæða til þess að halda þessu frekar fram, þótt Ísafjarðarkaupstaður eigi í hlut, heldur en ef einhver einstakur maður hefði ætlað að reisa þarna bú. Munurinn er enginn. Annars finst mjer ekki hægt að ganga á snið við það, að með sveitarstjórnarlögum frá síðasta þingi er svo ákveðið, að því aðeins skuli hreppum skift, að viðkomandi hreppsnefndir leggi það til og hlutaðeigandi sýslunefnd samþykki það. Verði þessi skifting því samþykt hjer, er verið að fótumtroða vilja og ákvæði síðasta þings. Það er líka verið að gera kaupstaðarvaldinu hærra undir höfði en sveitavaldinu, um leið og verið er að fara nokkurskonar ránsferð á hendur hlutaðeigandi sveitarfjelagi. Jeg segi ránsferð, af því að eftir frv. verður ekki annað sjeð en ræna eigi sveitarfjelagið öllum tekjum af eign þessari, því að þar er ekkert talað um, að það fái neitt í staðinn. Og samkvæmt brtt. meiri hl. verður ekki sjeð, að þær bætur, sem sveitin á að fá vegna skiftingarinnar, standi á nokkurn hátt í rjettu hlutfalli við þann gjaldstofn, sem jörðin er fyrir sveitarfjelagið. Þá er og með þessu verið að kippa gjaldstofni frá sýslufjelaginu, því að sýslusjóðsgjald hreppa er að nokkru leyti miðað við fasteignamat hreppanna. Breytingartill. þessi bætir því ekkert úr frumvarpinu. Það eina rjetta í þessu efni er því það, að haldið sje fast við það rjettaröryggi, sem sveitarfjelögin eiga samkv. 3. gr. sveitarstjórnarlaganna.