13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að svara nokkrum atriðum í ræðu hæstv. forsrh. Hann hreyfði engum mótmælum við þá raunverulegu niðurstöðu, sem jeg sagði, að væri á fjárlögunum, og viðurkendi þar með, að upphæðirnar í 22. og 23. gr. yrðu notaðar. ( Forsrh. TrÞ: Misskilningur). Jú, enda vissi jeg það áður. Það er vitanlegt af eðli málsins, að það verður svo, og þar með er því slegið föstu, sem jeg sagði um hinn raunverulega tekjuhalla.

Viðvíkjandi því, að hæstv. forsrh. sagði, að það væri ekkert sjerstætt við þessi fjárlög, hvað mikið fje væri veitt í 22. og 23. gr., get jeg sagt honum það, að þar fer hann algerlega villur vegar. Í fjárlögum undanfarinna ára hafa ekki verið settar í þessa liði aðrar upphæðir en fjárveitingarnar til Eimskipafjelagsins og styrkurinn til Sambands íslenskra Samvinnufjelaga, sem veita átti, ef halli yrði á kjötsölunni. Til þess hefir ekki þurft að grípa nema í eitt skifti. Aftur á móti hefir styrkurinn til Eimskipafjelagsins altaf verið greiddur. Í yfirstandandi fjárlögum eru þrjár smærri upphæðir í þessum liðum, og er víst um þá stærstu, að hún verður ekki notuð, svo að það stendur óhrakið, sem jeg áður hefi sagt, að þessi afgreiðsla fjárlaganna er alveg sjerstök í sinni röð.

Hæstv. forsrh. sagði, að núverandi stjórn hefði tekið upp í fjárl. útgjaldaliði, sem samþ. hefðu verið á þessu þingi. Jeg hefi ekki tíma til að afla mjer upplýsinga um það, hvort þetta hefir ekki verið gert áður. En líklega á hæstv. ráðh. við 200 þús. kr. til byggingar- og landnámssjóðs og 25 þús. kr. í sambandi við önnur lög. Auk þess sem þetta er örlítið brot af öllum þeim heimildum, sem stjórnin má greiða samkvæmt sjerstökum lögum, vil jeg benda á það, að það er þó með öllu óvenjulegt að taka upp í fjárlagafrv. áætlaðar tekjur af skattafrv., sem samþykt hafa verið á sama þingi, en það hefir verið gert nú. Og þar sem þau útgjöld, sem leiða af samþ. á því sama þingi, eru ekki tekin nema að örlitlu leyti upp í fjárlagafrv., á ekki heldur að taka upp í það þá tekjuliði, sem samþ. eru á því sama þingi, því að það gefur ekki rjetta mynd af fjárhagsafkomunni. Jeg blandaði ekkert inn í þetta yfirlit mitt þeim stóru fjárhæðum, sem stj. er heimilað að greiða með sjerstökum lögum, en það var eðlilegt, að hv. þm. Ísaf. (HG) tæki eftir því, að upp í fjárlagafrv. eru ekki teknar þær 100 þús. kr., sem veittar eru til sundhallarinnar, og er þó vitanlegt, að þær verða að greiðast á árinu 1929, þar eð sundhöllin á að vera tilbúin 1930.

Það mætti benda á fleira, sem ákveðið er, að framkvæmt verði á næsta ári, t. d. á Þingvöllum. Það er ekki hægt að segja, hvað mikið fje fer í þær framkvæmdir, en ef lögin verða framkvæmd, þá verður það býsna mikil upphæð. Þá eru laun til bæjarfógetans í Nesi í Norðfirði. Það embætti hefir verið stofnað, en í fjárlögum er ekki gert ráð fyrir þeim útgjöldum, sem af því leiða. Auk þess hefir stjórnin fengið heimild til stórfeldra fjárframlaga, eins og jeg hefi áður drepið á.

Þá fór hæstv. forsrh. út í það, hvað valda mundi bitlingafarganinu. Vildi hann gefa í skyn, að höfuðsökin á því væri hjá Íhaldsflokknum. Reyndar dró hann nokkuð úr þessu síðar, en þó taldi hann, að sökin væri mikil þeim megin. Hæstv. forsrh. var ennþá að halda því fram, að Íhaldsflokkurinn sýndi meiri ljettúð og kæruleysi í fjármálum en andstæðingar fyrverandi stjórnar hefðu gert þá. Vitnaði hann í ummæli fyrv. forsrh., Jóns Þorlákssonar, um að Framsókn hefði staðið vel með stjórninni í sparnaðarviðleitni. Þetta var rjettmæt viðurkenning á þeim tíma, sem hún kom fram, nefnilega á þinginu 1924, og það sýnir, að Jón Þorláksson veitir andstæðingum sínum fullkomna viðurkenningu, þegar þeir verðskulda það, en það er miklu meira en hæstv. núv. forsrh. mundi nokkurn tíma geta gert.

En því miður fór þetta góða samkomulag um að standa með sparnaðarviðleitni fyrv. stjórnar fljótt út um þúfur, því strax á næsta þingi voru þáverandi stjórnarandstæðingar búnir að snúa við blaðinu, og það gerðu þeir æ því meir, sem á leið kjörtímabilið. Jeg hefi hjer við hendina tölur, sem sýna útgjaldatillögur stjórnarandstæðinga og stjórnarflokksins á þingunum 1926 og 1927. Þær varpa ljósi yfir þetta.

Af því að hæstv. forsrh. hjelt sig að aðstöðu flokka til bitlinganna, vil jeg benda á það, að við 2. og 3. umr. fjárlaganna í Nd. 1926 báru stjórnarandstæðingar fram tillögur um nafnbundna styrki, er námu 47 þús. kr. (Forsrh. TrÞ: Ekki Framsóknarmenn). Nei, núverandi stjórnarflokkar, nefnilega Framsóknarmenn og sósíalistar, — þeir voru þá sama spyrðubandið og þeir eru nú —, en stjórnarflokkurinn samskonar till., er námu 13 þús. kr. Við 3. umr. í Ed. námu slíkar till. frá stjórnarandstæðingum 13 þús. kr., en stjórnarflokknum 3700 krónum. —

Á síðasta þingi báru stjórnarandstæðingar fram till. um persónustyrki, sem námu 88 þús. kr., en stjórnarflokkurinn 22 þús. kr. Þetta læt jeg nægja til að sýna, hvað þáverandi stjórnarandstæðingar sýndu mikla varfærni í fjármálum. En auk þess get jeg bætt því við, að Nd. — en þar voru stjórnarandstæðingar þá í meiri hluta — afgreiddi fjárlögin í fyrra með 327 þús. kr. tekjuhalla. En í ofanálag á þetta bera tveir aðalmenn Framsóknar og sósíalista fram í Ed. hækkunartill., sem námu 340 þús. kr. Auk þess greiddu þeir atkvæði með hækkunartill. annara þm., en móti nálega öllum lækkunartill., sem fram komu. Hefði því verið farið að till. þessara hv. þm., þá hefðu fjárlögin verið afgreidd með að minsta kosti 650 þús. kr. tekjuhalla. Jeg læt þetta nægja til þess að varpa ljósi yfir þá miklu varfærni, sem hæstv. forsrh. segir, að gætt hafi hjá andstöðuflokkum fyrv. stj. við afgreiðslu fjárlaga.