16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg rjett, sem hv. þm. Borgf. heldur fram, að það er í rauninni ekki nauðsynlegt að samþykkja þetta frv., ef gengið er út frá, að frv. um fiskiræktarfjelög verði að lögum, sem hjer var til 2. umr. í dag, en það getur náttúrlega verið efamál, og getur dregist í nokkur ár, að svo verði. En viðvíkjandi því máli, sem hjer er til umr., þá finst mjer það vera dálítið undarlegt að banna alveg veiði í Nikulásarkeri; það er sjálfsagt að banna veiði með netum, en stangaveiði finst mjer að mætti vera heimil, og það er einmitt vegna slíkrar veiði, að presturinn hefir talsvert upp úr því. Aftur á móti er sjaldan veitt þar í net, og mjer finst því, að ónauðsynlegt sje að ganga svo langt að banna þar alla veiði, því að með stangaveiði er alls ekki fyrirbygt, að laxinn gangi lengra upp eftir ánni, enda er það svo um allar veiðiár, að yfirleitt er leyfilegt að veiða lax á stöng. Jeg held þess vegna, að þessi brtt. sje til hins verra, og jeg er hálfhissa á, að hv. flm. frv. skuli ganga inn á þetta atriði.

En viðvíkjandi bótum til Stafholtsprests vildi jeg segja það, að mjer finst, að eftir gildandi lögum eigi hann ekki rjett til bóta lengur en það mat er í gildi, sem nú er, og það gildir ekki lengur, ef jeg man rjett, en 2–3 ár hjer eftir, og þess vegna er það rangt, sem hjer stendur í brtt., að hann eigi að fá bætur á meðan hann er þar prestur. En nýjum presti er þetta alveg óviðkomandi, og jeg held, að það væri rjettast, að bætur til Stafholtsprests fjellu niður, þegar nýtt mat gengur í gildi. Það er rjett, að eins og nú stendur, þá á presturinn rjett til þessara bóta, en lengur en núgildandi mat stendur á hann ekki kröfu.

Eftir brtt. á þskj. 377 er kerið í rauninni gefið þessu veiðifjelagi, því að eftir að núverandi Stafholtsprestur er farinn frá, þá falla niður bæturnar. (JörB: Hver á kerið?). Það á kirkjan, en eftir þann tíma, að bæturnar falla niður, verður þetta ekki skilið öðruvísi en svo, að veiðifjelaginu sje gefið kerið. Það á, með öðrum orðum, að greiða eitthvað í þau 2–3 ár, sem eftir eru af núgildandi prestakallamati, en eftir þann tíma er það gefið. Ef kerið er látið af hendi, á að selja það að undangengnu mati eftir lögum um sölu kirkjujarða frá 1907 og andvirðið að renna í prestlaunasjóð.

Jeg felli mig miklu betur við frv. með þeim breytingum, sem allshn. hefir stungið upp á, því að þar er það beinlínis gert að skilyrði fyrir eignarnámi, að samkomulag náist ekki, en á hinn bóginn virðast góðar vonir um það nú, því að þegar presturinn veit, að ef samkomulag næst ekki, verður eignarnám að fara fram, þá er líklegt, að hann verði tilleiðanlegri til samninga. (ÓTh: Það stóð á hinum líka). Jeg skal ekki segja um það; getur verið, að um það megi deila, en eftir því, sem háttv. flm. reifaði málið, þá skildist mjer, að ekki hefði staðið á samkomulagi frá fjelagsins hendi. Annars hjelt jeg, að þetta fjelag væri þegar stofnað, en af brtt. hv. flm. skilst mjer nú, að fjelagið sje ekki enn stofnað; um þetta vildi jeg fá upplýsingar, því að jeg bygði á því í nefndinni, að fjelagið væri þegar stofnað og tekið til starfa.