16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Jörundur Brynjólfsson:

Það er náttúrlega ekki til neins að vera að þrátta um þetta í sjálfu sjer. Hv. þm. Borgf. þótti óþarfi að vera að setja ákvæði um svona hluti, bæði friðun á þessu keri og eins vjek hv. þm. að því máli, sem hjer liggur nú fyrir þessu þingi, ófriðun sels í Ölfusá, því að þetta mætti hvorttveggja gera, ef frv. um fiskiræktarfjelög yrði að lögum. Þetta er að vísu alveg rjett; verði það að lögum, þá er hægt að gera þetta hvorttveggja, en það er þó ekki öðruvísi unt en að fullar bætur komi fyrir veiðimissinn í ánum um þann tíma, sem þær eru friðaðar. Bæði um Nikulásarker og ófriðun sels í Ölfusá eiga kirkjur hlut að máli, og það þarf því sjerstaka lagasetningu um að fella niður þær tekjur, sem presturinn í Arnarbæli hefir haft að því er selinn í Ölfusá snertir og Stafholtsprestur að því er Nikulásarker snertir. Það er þess vegna alveg rjett, að þessar bætur verði greiddar eftir sjerstökum lögum; þar við bætist og, að ekki er víst, að þetta þing afgreiði lögin um fiskiræktarfjelög, en bæði þessi mál eru svo aðkallandi, að ekki tjáir að slá þeim á frest. Ætla jeg svo ekki að ræða frekar um þetta atriði.

Þá ætla jeg að andmæla með nokkrum orðum hv. 1. þm. Skagf., sem þótti óþarfi að banna stangaveiði í kerinu. En ef menn líta þannig á, þá er hægt að bera fram sjerstaka brtt. um þetta atriði við 3. umr. En jeg lít alt öðrum augum á þetta en hv. 1. þm. Skagf. Jeg tel einmitt nauðsynlegt að friða kerið. Eftir því, sem lýst hefir verið fyrir mjer, er stangaveiði líka varhugaverð þar, sem svo stendur á, að laxinn kemst ekki lengra, þegar áin er lítil. Og því meiri nauðsyn er á, að þetta sje gert, þar sem í ráði er, að gerðar verði stórkostlegar umbætur í þá átt að gera ána fyrir ofan fiskgenga. Þegar lagt er stórfje í slíkar umbætur, þá er hart að láta taka allan laxinn þar. Þetta er alt saman gert til þess að laxinn hafi frjálsa göngu, og er því engin ástæða til að heimila veiði þá stund, sem verið er að gera ána fiskgenga upp eftir.

Það má vel vera, að hægt sje að koma því svo fyrir, að bætur falli niður næst þegar mat fer fram, og það er sjálfsagt hentugast, að svo sje, en þar sem presturinn er orðinn roskinn, virðist ekki nema rjett, að hann fái bætur á meðan hann er, sem svo falla niður, þegar hann fer. En viðvíkjandi endurmati er það að segja, að þótt matsmenn verði nú látnir meta tekjutapið, þá gildir það aðeins fyrir þann prest, sem nú er, en hinn nýi prestur, sem á eftir kemur, á alls ekki að fá neinar bætur, svo að þá fellur það niður af sjálfu sjer.

Þá drap hv. 1. þm. Skagf. á, að það væri verið að afhenda þessu fjelagi kerið. Mjer þykir dálítið undarlegt, að hv. 1. þm. Skagf., sem er gamall lögfræðingur, skuli halda slíkri firru fram. Hvar ætlar hv. þm. að leita sönnunar fyrir því, að fjelagið eigi kerið? Það er alls ekki verið að afhenda það. Landið getur hvenær sem er notfært sjer veiði í því, þegar Alþingi svo sýnist, auðvitað án nokkurra bóta til annara. (ÓTh: Hver hefir hagsmuni af friðuninni?). Veiðimennirnir hafa mikla hagsmuni af því, að kerið verði friðað. (ÓTh: Það er þá gjöf til þeirra). Það má vel segja, að þessi eign sje landinu arðlaus, á meðan á þessari friðun stendur, en landið á samt kerið; heilbrigð skynsemi mælir á móti öðru eins og þessu, sem hv. þm. er að segja, svo að ekki þýðir að vera að bera slíkt fram. Eða ef um það hefði verið að ræða, að kerið hefði verið afhent og landið vildi gera tilkall til þess, — ætli fjelagið leyfði sjer þá að heimta bætur?

Hv. 1. þm. Skagf. þótti betur fara að láta meta kerið og afhenda það þessum einstaklingi til eignar, en þar greinir okkur á; það tel jeg alls ekki rjett, og einna síst, þar sem staðhættir eru þannig, að nauðsynlegt er, að landið hafi eignarhald á kerinu. Jeg er alls ekki viss um, ef það væri komið í eigu einstakra manna, að þeir gættu þess að spilla ekki veiðiskap þar. Nei, það er fyrir allra hluta sakir langrjettast, að kerið verði eins og áður eign hins opinbera, og vona jeg, hvernig sem hv. deild annars fer með þetta frv., að hún afgreiði það þannig, að landið eigi kerið eftir sem áður.