16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3294 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Magnús Jónsson:

Jeg mun verða þessu máli fylgjandi. Frv. er bygt á umsögn Pálma Hannessonar fiskifræðings, sem álítur nauðsynlegt, að kerið sje friðað fyrir allri veiði. Jeg þekki hvorki kerið nje heldur lifnaðarháttu laxins, svo að jeg sjái mjer fært að draga úr friðuninni með því að leyfa stangaveiði, eins og hv. 1. þm. Skagf. mintist á. Annars skilst mjer allmikill munur á frv. með brtt. á þskj. 377 og frv. með brtt. allshn. Eftir brtt. allshn. og frv. á að selja kerið, en eftir brtt. 377 á að leigja það í vissu falli. Ríkið ætlar að leigja kerið og fjelagið á að greiða gjald fyrir. Það er því rangt, að bæturnar skuli eiga að falla niður við næstu prestaskifti, og gagnstætt þeirri venju, sem tíðkast hefir, þegar hlunnindi hafa verið seld undan kirkjum. Þá hefir verið venja, að í stað teknanna af hlunnindunum kæmi árlegt gjald, er rynni til viðkomandi prests. Svo vissi jeg, að var á Ísafirði eftir að jarðirnar Eyri og Stakkanes höfðu verið seldar undan kirkjunni. (MG: Þetta er eins og um prestsmötu). Já, það er eins. Það er engin skynsamleg ástæða fyrir því, að fjelagið hætti að greiða þetta gjald, þótt prestaskifti verði og að nýtt heimatekjumat fari fram.

Jeg kann fyrir mitt leyti betur við það, að kerið, sem er opinber eign, verði ekki selt, og mun koma með brtt. við 3. umr. um það, að gjaldið haldist, þótt prestaskifti verði.