28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3301 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er hingað komið frá Nd. Þar tók það miklum stakkaskiftum. Upprunalega var ætlast til, að kerið væri tekið eignarnámi til handa laxveiðifjelagi Norðurár. Nú er ekki farið fram á annað í frv. en banna veiði í kerinu, aðra en stangaveiði. Presti skal gjalda bætur fyrir veiðimissinn.

Nefndin hefir athugað frv., og jafnvel þó það geti verið álitamál, hvort taka beri rjettindi undan jörðum ríkisins, þá telur nefndin þó rjett, að frv. nái fram að ganga. Það er einn liður í því starfi þingsins að auka fiskirækt í ám landsins. Að vísu hefði þetta getað beðið eftir fiskiræktarfjelögunum, en þar sem þessi friðun er mikilsverð fyrir laxgönguna í Norðurá, þótti rjett að mæla með því. Frv. fylgdi umsögn frá Pálma náttúrufræðingi Hannessyni, og mælir hann með því, að kerið sje friðað fyrir netaveiði. Álítur hann, að net hindri laxinn í að leita til uppgöngu úr fossi þeim, er Nikulásarker er í.

Fleira þarf jeg ekki að taka fram um málið. Það liggur ljóst fyrir, og vona jeg, að hv. þdm. hafi áttað sig á því og fari eftir tillögum nefndarinnar.