13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Torfason:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs út af orðum hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann beindi því að þm. af Suðurlandsundirlendinu, og þá sjerstaklega að okkur þm. Árnesýslu, að við með þessum undirskriftum okkar undir skjal til atvmrh. hefðum ætlað okkur að spilla fyrir járnbrautarmálinu. Jeg hafði beðið mjer hljóðs á undan hv. samþm. mínum (JörB) og bjóst við að tala fyr en hann. En nú hefir hv. þm. (JörB) svarað mestu af því, sem þurfti að svara hv. 1. þm. Skagf., og get jeg að öllu leyti vísað til þess. Það eitt, sem mjer þótti merkilegt, þegar hv. 1. þm. Skagf. var að túlka þessa áskorun þm. af Suðurlandsundirlendinu, var, að hún kemur hv. þm. þannig fyrir sjónir, að hún eigi ekki að vera til að ýta undir málið, heldur til að spilla fyrir því. Jeg þarf ekki að svara þessu öðru en því, að þetta er hrein og bein fjarstæða, og í öðru lagi vil jeg segja það, að þetta ber merkilegan vott um það, hvernig málaflutningsmaður getur reynt að snúa málum manna í villu, þegar hann óskar að hafa það svo. Það er áreiðanlegt, að þessi áskorun var gerð að yfirlögðu ráði, og hún var gerð eftir umtali og samtali á milli þm. af Suðurlandsundirlendinu, fyrst og fremst til þess að hreyfa við málinu. Okkur fanst, að þetta þing mætti ekki með nokkru móti líða svo, að því væri ekki hreyft, og ástæðan til þess var með öðru, að trúin á Titan hefir aldrei verið of sterk á Suðurlandsundirlendinu, og að þetta sjeu ekki staðleysustafir, sýnir það, að það var einmitt Titan, sem fjell við kosningarnar í sumar. Trúin á Titan var ekki meiri en það, að einmitt þessi eini fulltrúi fjelagsins fjell við kosningarnar, án þess að sýnilegt væri, að hann hefði neitt til saka unnið. Jeg hafði altaf litla trú á fjelaginu, og jeg lýsti því yfir hvað eftir annað á þingi 1927, að jeg greiddi atkv. með þessu máli á ábyrgð þáverandi atvmrh. (MG). Jeg lýsti því trausti mínu á atvmrh., að þegar hann hefði svona sterk orð um málið, þá væri það meira en fleipur eitt. Nú er jeg ekki neitt að ásaka hv. 1. þm. Skagf. út af þessu, því að jeg verð að líta svo á, að ennþá sje ekki kominn tími til að fella neinn fullnaðardóm um það; við vitum, að fjelagið hefir ársfrest enn til þess að leggja fjeð fram; fyr en sá frestur er útrunninn og það hefir komið fram, að fjelagið hefir ekkert fje, er ekki ástæða til þess.

Það var sjerstaklega eitt atriði í þessari áskorun okkar þm., sem hv. 1. þm. Skagf. hafði mikið að athuga við, og það var, að við höfðum lagt það á vald atvmrh. að segja til um það, hvort fjelagið hefði fje til framkvæmdanna. Þetta var með ráðnum huga gert, og vegna sambands hæstv. atvmrh. við fulltrúa Titans hjer á landi var ekkert líklegra en hann hefði hinar bestu kringumstæður til að kynna sjer fjárhag fjelagsins. Og þessi áskorun var líka orðuð þannig, að við myndum láta okkur nægja, ef fje fengist til járnbrautarlagningar, og þetta var því eðlilegra, sem hæstv. atvmrh. hafði lýst yfir því, að honum væri járnbrautarmálið áhugamál, en ekki virkjunarmálið, svo að líka frá því sjónarmiði átti þessi áskorun að hjálpa málinu við. En að öðru leyti er það um þetta mál að segja, að þessi áskorun kom fram hjá okkur, og það, sem gerst hefir í viðtali við stjórnina, það er gert til þess, að hnipt væri við fjelaginu Titan, til þess að fjelagið fengi fullkomlega að vita það, að við ætlum ekki að láta okkur nægja með, að málið sje dregið á langinn og við hafðir fyrir ginningarfífl; fjelagið verður að færa sönnur á, að það hafi fje í höndum. Við myndum aldrei geta látið okkur lynda loforð út í bláinn.

Nú leggur hv. 1. þm. Skagf. áherslu á það, að ekki sje þrautreynt, hvort fjelagið hafi fje, fyr en sjerleyfið sje veitt. Jeg geri alls ekkert úr því, vegna þess að það mundi vera hægt að ná þeim samningum við hæstv. stj., að leyfið skyldi verða veitt, ef það sannaðist, að fje væri fyrir hendi. En það væri vitanlega alveg nóg til að geta fengið leyfið, að ábyggilegir bankar eða önnur stórfyrirtæki lýstu því yfir, að fje skyldi vera til taks. En auk þess að hnippa við fjelaginu, liggur það líka í áskoruninni, að við viljum heldur ekki fyrir nokkurn mun, að fjelaginu verði veitt sjerleyfi peningalausu og allslausu, til þess eins að tefja fyrir málinu. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að ef fjelagið fengi sjerleyfið peningalaust, þá yrði það til þess að tefja fyrir málinu, því að það yrði auðvitað sagt, að ekki væri hægt að eiga við það fyr en ystu tímatakmörk væru útrunnin, en það viljum við ekki, sem höfum sjerlegan hag af því, að járnbraut verði lögð, og það er jeg viss um, að svo mikla þörf, sem við Árnesingar töldum, að væri á að fá járnbraut, þá hefir okkur skilist það síðan á þinginu í fyrra, að þörfin er miklu meiri nú heldur en hún var þá, og það er blátt áfram af því, sem hv. 2. þm. Rang. (GunnS) gat um, að það er sýnt, að Flóaáveitan getur ekki borið sig nema því aðeins, að járnbraut komi, eins og við báðir þm. Árn. höfum lýst yfir. Það var nefndur maður hjer í sambandi við þetta mál, sem jeg skal ekki nefna með nafni, og sagt, að hann hefði brjef í höndum, sem mikið væri á að byggja. Skal ekkert um þetta segja, nema að í fyrra átti jeg talsvert oft tal við þennan trúnaðarmann fjelagsins, en í vetur hefir hann aldrei talfært þetta mál við mig, nema einu sinni, þegar hann hitti mig hjá öðrum manni, og setti þá í mig hnútur. Hvernig á þessu stendur, skal jeg ekki um segja, en ef hann hefði haft eitthvað verulegt fram að bjóða, þá hygg jeg, að hann myndi ekki hafa látið undir höfuð leggjast að tala við mig um málið.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í neinar járnbrautarræður nú við þetta tækifæri; málið liggur ekki fyrir. En mjer þótti það merkilegt, hve einn hv. þm. tók kuldalega fram í ræðu háttv. samþm. míns (JörB), maður, sem við vitum allir, að trúir á háttv. 1. þm. Skagf. (MG), og þá varð mjer að hugsa til gamals máltækis, sem segir: Varaðu þig, Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki! Jeg gat ekki að því gert, að það snerti mig dálítið illa, að þessi maður skyldi ekki geta orða bundist um það að taka svona kuldalega fram í fyrir hv. samþm. mínum.