13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Það má segja um þessar járnbrautarumræður, sem hjer hafa farið fram, að „margt er skrítið í Harmóníu“. Mjer finst það nefnilega dálítið skrítið, að þeir, sem börðust hjer hlið við hlið á síðasta þingi um að fá Titanfjelagið til að leggja hjer fram fje til járnbrautarlagningar og annara stórfyrirtækja í landinu, skuli nú berast hjer á banaspjótum.

Hv. 2. þm. Árn. (MT) skaut því hjer fram áðan, að sjer hefði þótt kuldalega tekið fram í fyrir hv. samþm. sínum, og átti þar víst við þau orð, sem jeg skaut að hv. 1. þm. Árn. (JörB) áðan. Svo sagði hv. þm., að sjer þætti þetta því undarlegra, sem þessi maður, þ. e. jeg, tryði á hv. 1. þm. Skagf. Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg ber mikið traust til hv. 1. þm. Skagf., þó að við sjeum ósammála í þessu fossavirkjunar- og járnbrautarmáli, en það er einmitt hv. 2. þm. Árn., sem trúir á háttv. 1. þm. Skagf. í þessu máli, því að hv. þm. sagðist hafa greitt atkv. í þessu máli á ábyrgð þess hv. þm. (MG), en gat þess um leið, að hann hefði gengið af trúnni, og má það vel vera, því að maðurinn er sagður laus á kostum, og finst mjer, að ekki sje hægt að skilja þetta öðruvísi en svo, að hv. þm. ætli nú að greiða atkv. um málið á ábyrgð hæstv. atvmrh. (TrÞ), og þá get jeg skilið aðstöðu hv. 2. þm. Árn. í þessu máli, og það er þá þannig, að hv. þm. vill ekkert í því gera á annan hátt en að hafa æfinlega ráðherraábyrgð fyrir öllu, sem hann gerir í málinu. Hv. þm. er kannske farinn út, en það gerir ekkert til, því að jeg ætla ekki að hafa þessa járnbrautarræðu lengri.

Jeg geri ráð fyrir, að þeim, sem hjer hafa verið staddir um hríð og vita ekki nánar deili á því, hvaða mál hjer er í raun og veru til umræðu, komi það allkynlega fyrir, að hjer sje farið að ræða um fjárlög, því að hjer hefir enginn heyrt það nefnt; hjer hafa verið eintómar járnbrautarumræður, og svona líka skemtilegar, sem jeg hefi nú lýst. En þetta var nú útúrdúr hjá mjer, og vil jeg nú gera nokkrar aths. um fjárlögin, og þá sjerstaklega út af orðum hæstv. fjmrh. Það er nú svo með þann ráðherra, að hann er mjög sjaldsjeður gestur hjer í þessari hv. deild, og sannast á honum hið fornkveðna, að „Sjaldan bregður mær vana sínum“, því að í þau fáu skifti, sem hæstv. ráðh. tekur hjer til máls, þá rýkur hann upp með þjósti og skammar alt og alla. Það er löngum aðaluppistaðan í ræðum hæstv. ráðh. hjer í þessari deild. Það var alveg hið sama nú; ræðan var eiginlega ekkert annað en þetta. Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði verið með staðhæfingar um það, að það væri raunverulegur 400 þús. kr. tekjuhalli á fjárl. og að jeg hefði engin rök fært fyrir þessu máli. En hvaða rök færði hæstv. ráðh. fyrir því, að þetta væri ekki rjett? Jeg færði sannarlega rök fyrir þeim mjög óvenjulega hætti, sem hjer væri nú upp tekinn, að vera að fela þessar upphæðir í fjárl., þó að hæstv. ráðh. sje að tala um, að það eigi að taka lán til þessara fyrirtækja, eins og Mosfellsheiðarvegarins o. fl. Jeg sje, að hæstv. ráðh. hlær; það gleður mig, að hann er kominn í gott skap aftur, — eða skilur ekki hæstv. ráðh. það, að þótt tekið sje lán, þá stendur hagur ríkissjóðs því ver á eftir, sem lánsupphæðinni nemur? Þessar ástæður vildi hæstv. ráðherra ekki taka gildar, og það eina, sem ráðh. færði fram sem ástæðu gegn þessari ályktun minni um tekjuhallann, var það, að jeg mundi þjást af geðvonsku; en þar sjer hæstv. ráðh. sjálfan sig í spegli. (Fjmrh. MK: Um það þurfum við ekki að deila). Þá sagði hann einnig, að ummæli mín miðuðu að því að gera afgreiðslu fjárl. tortryggilega. Jeg þarf þess sannarlega ekki, því afgreiðsla fjárl. er þannig nú, að hún hlýtur að vekja tortryggni allra gætinna og athugulla manna. Hæstv. forsrh. tók alt öðruvísi og betur í ummæli mín. Hann kvaðst skyldi viðurkenna, að afgreiðsla fjárlaganna væri önnur en æskilegt væri og kvaðst skyldi vera á verði um, að afgreiðslan yrði varlegri á næsta þingi. Jeg vona, að hæstv. fjmrh. taki orð yfirmanns síns til greina í þessu efni.

Þá fyltist hæstv. fjmrh. vandlætingu yfir því, að hv. þm. S.-Þ. (IngB), hv. þm. V.-Sk. (LH) og jeg höfðum látið nokkur alvöruorð falla í garð Ed. út af afgreiðslu hennar í fjárlögunum, og talaði um hroka í því sambandi. Jeg vil aðeins segja það, að hann ætti að líta í sinn eiginn barm, áður en hann fer að tala um hroka hjá öðrum. Við höfum aðeins fundið að gerðum Ed. á þinglegan hátt, og jeg verð að segja það, að jeg get engan veginn tekið það vel upp fyrir hæstv. fjmrh., að hann skuli setja ofan í við mig eða aðra hv. deildarmenn fyrir það, því þær aðfinslur voru sannarlega rjettmætar og verðskuldaðar.

Þá þóttist hæstv. fjmrh. ná sjer vel niðri, er hann sagði, að jeg hefði átt minn þátt í því að stuðla að bitlingum til einstakra manna. Jeg skal glaður játa minn hluta af þeim. Jeg beitti mjer fyrir því, að námsmaður einn fengi styrk til framhaldsnáms, og skal skýra frá, hverjar ástæður lágu til þess. Svo stóð á um þennan pilt, að hann var ranglega settur hjá, er styrk þeim, er stúdentum er ætlaður til náms í útlöndum, var úthlutað á síðastl. ári. Annar piltur, sem átti aðstoð í háttsettum borgara hjer í bænum, var tekinn fram yfir hann, enda þótt sá hefði bæði lægri einkunn og væri frá öðru ári. Hjer var því um hróplegt ranglæti að ræða, og úr því vildi jeg bæta. Auk þess er piltur þessi mannsefni hið mesta og ætlar að snúa sjer að þjóðnýtum fræðum. Hann fjekk styrk á síðasta þingi og bjóst við að njóta hans áfram. Mætti segja um hann og aðeins tvo aðra af þeim 35, er námsstyrki fengu, að það hefði verið brigðmælgi af Alþingi að synja þeim um styrk nú. Þessi piltur er að nema byggingafræði, og þar sem hæstv. núverandi stjórn hefir mikinn áhuga á því að byggja skrifstofur, letigarða o. fl. þess háttar ætti ekki að vera vanþörf á, að menn legðu þær greinar fyrir sig. Hefi jeg þá með þessu skýrt afstöðu mína til bitlinganna.

Þá fór hæstv. fjmrh. að tala um nauðsyn fjárveitinga og lánsheimilda í 22. gr. fjárlaganna. Jeg hafði ekki minst á, að jeg teldi þessar fjárveitingar og lánsheimildir ónauðsynlegar, heldur taldi óviðkunnanlegt, að þarna væri verið að fela fjárveitingar, sem ættu að koma til útborgunar á árinu 1928. Jeg vjek ekki að neinu öðru viðvíkjandi þeirri grein, en hæstv. fjmrh. var víst ekki viðstaddur og mótmælti því alt öðru en því, sem ræða mín gaf tilefni til.

Jeg býst nú við, að þolinmæði hæstv. forseta fari að þrjóta, enda er jeg nú steindauður. En jeg vildi aðeins segja það, út af því, að þegar hæstv. fjmrh. heldur svo fast á valdi Ed. gegn Nd., þegar ráðh. kemur fram hjer í deildinni sem vörður Ed. gegn valdi Nd., þá minti hann mig á skopmyndina í einu blaðinu okkar af verðinum gegn misbeitingu innlends valds. Jeg býst við, að menn kannist við þessa mynd, því að blaðið mun hafa gengið á milli manna hjer í deildinni í dag.