26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta er 4. löggjafarþingið á 10 árum, sem frv. þetta hefir borið hjer að garði.

Í eitt skifti hefir það átt gestrisni að mæta, en í hin skiftin hefir því verið úthýst. En nú vona jeg, að það mæti þeirri gestrisni hjer, að Alþingi megi sæmd í verða.

Krafan um 8 tíma hvíld á sólarhring fyrir þá, sem vinna á botnvörpuskipum, er jafngömul samtökum sjómanna hjer. Um kröfu þessa hefir mikið verið rætt og ritað, og meðal annars var hún þrautrædd hjer á Alþingi 1921, og þá sá meiri hl. þingsins sjer ekki annað fært en verða við henni og afgreiddi „vökulögin“, sem svo hafa verið nefnd. Árangurinn af þeirri lagasetningu varð sá, að útvegsmenn fengu meiri vinnu á skipum sínum og hásetarnir betri líðan.

En hverjir eru það þá, sem gera þessar kröfur? Það er hvorki meira eða minna en kjarninn úr hinum íslenska verkalýð. Flest menn á aldrinum frá 18–35 ára, bændasynir víðsvegar að af landinu og æskumenn úr kaupstöðum landsins. Alt hraustir menn á ljettasta skeiði; samskonar menn og hernaðarþjóðirnar senda á vígvöllinn til þess að berjast fyrir fósturjörðina, eins og það er orðað.

Það kann nú margur að ætla, að þessir menn þyldu flesta vinnu, sem þeim væri boðin. En svo er alls ekki. Þeir þola mikið erfiði, en reynslan er búin að margsýna, að þeir þola ekki til lengdar alt það erfiði, sem á þá er lagt á togurunum. Þeir falla fyrir örlög fram af vosbúð og þreytu, oft eftir tiltölulega stuttan tíma. Um þetta geta læknarnir best borið vitni. Þeir munu ekki þekkja svo fá tilfelli, þar sem hraustir menn hafa fengið ýmsa kvilla, sem orsakast hafa af þreytu og of miklum vökum.

Menn kunna nú að spyrja, hvort löggjafarvaldinu beri skylda til að vernda þessa menn frá ofþjökun af vinnu. Við slíkri spurningu er það að segja, að þingið 1921 hefir svarað henni, þegar það samþykti „vökulögin“. Líka má vísa til Englendinga í þessu efni. Þeir hafa t. d. sett lög, sem vernda menn frá of mikilli vinnu í verksmiðjum, um afnám vinnu barna o. fl. o. fl. Var á þeim tímum háð hörð barátta fyrir þeirri rjettarbót. Eins og jeg gat um áðan, hefir gagnsemi laganna frá 1921 fyrir löngu komið í ljós. Fyrst og fremst með því að tryggja sjómennina fyrir ofþjökun í vinnu, því að þau hafa gert það að verkum, að menn þessir hafa getað varðveitt orku sína svo, að þeir hafa getað komið jafngóðir til vinnu sinnar aftur eftir hvíldina. En mest hafa þó útgerðarmennirnir hagnast á þessum lögum, þar sem miklu meira hefir aflast á skip þeirra en áður. Því til sönnunar gæti jeg nefnt mörg dæmi, en þess gerist engin þörf, því að útgerðarmenn viðurkenna þetta sjálfir, og telja meira að segja, að hagurinn af þessari lagasetningu sje miklu meiri en þeir hafi látið sjer detta í hug. Þá hafa og skipstjórarnir næstum undantekningarlaust fallist á nauðsyn þessara laga og viðurkent hagnaðinn af þeim.

Þar sem nú reynslan hefir orðið þessi, að allir aðiljar hafa hagnast af því að lögbjóða 6 tíma hvíld á sólarhring, þá fæ jeg ekki betur sjeð en alt mæli með því að fullnægja hinum upphaflegu kröfum háseta um 8 stunda hvíld á sólarhring, eins og hjer er farið fram á. Því eins og jeg gat um í byrjun máls míns, var hin upphaflega krafa hásetanna sú, að hvíldartíminn yrði lögleiddur 8 st., enda þótt þeir til samkomulags gengju inn á 6 stundir, af því að þeir bjuggust við, að þá myndi málið frekar komast gegnum þingið, eins og líka raun varð á. En krafan um 8 st. hvíld hefir eigi að síður aldrei fallið niður, og byggist hún meðal annars á því, að reynslan hefir orðið sú, að hinir umræddu 6 tímar ganga ekki nærri allir til svefns, því að oftast er í þeim tíma 1 eða 2 matmálstímar, auk þess sem menn þurfa að þvo sjer, hafa fataskifti eftir að hafa verið holdvotir frá hvirfli til ilja, binda um sár og skeinur, sem ekki er svo óalgengt, að sjómenn fái. Hinn reglulegi hvíldartími verður því oft ekki nema 4–5 tímar, og hljóta allir að sjá, að það er of lítill hvíldartími, þegar stanslaust er unnið í t. d. 14 sólarhringa. Ef hvíldartíminn því yrði 8 stundir, þá ljeti nærri, að mennirnir gætu fengið 6 tíma svefn, og þess þurfa þeir. Líka má taka tillit til þess, að sumir menn geta alls ekki sofnað strax og þeir eru lagstir til hvíldar; liggja oft andvaka 1–2 klst. Til þess eru ýmsar ástæður, sem meðal annars stafa frá taugakerfinu.

Jeg gæti nú búist við, ef þekking væri hjer til andsvara, að komið væri með það, að oft væri hvíld á togurunum fyrir utan hinn ákveðna hvíldartíma, t. d. þegar varpan væri í sjó. En þar til er því að svara, að þetta er nú á tímum orðið öðruvísi en það var áður. Nú eru fiskimenn komnir að þeirri niðurstöðu, að betra sje að hafa vörpuna ekki lengi í sjó, helst ekki lengur en eina klukkustund, og jafnvel skemur. Er þar því ekki um hvíldartíma að ræða.

Jeg get ekki látið vera að minnast lítilsháttar á reynslu annara þjóða í þessum efnum. Eins og kunnugt er, eru það Englendingar, sem við höfum mest lært af hvað togaraveiðarnar snertir. Þeir byrjuðu eins og við með stanslausri vinnu, svo að segja nótt og dag. En mjer er ekki kunnugt um, að nein lög hafi verið sett þar í landi til þess að koma í veg fyrir, að mönnunum væri ofþjakað. Aftur á móti hefi jeg heyrt, að hin tíðu strönd, sem hjer voru áður á enskum togurum, hafi verið talin eiga rót sína að rekja til þreytu og svefnleysis mannanna. Hafi vátryggingarfjelögin því tekið í strenginn og fyrirskipað hvíldartíma á skipunum. Eiga enskir hásetar á botnvörpuskipum því nú orðið heimtingu á í það minsta 4 tíma hvíld á sólarhring, enda þótt sjósókn á enskum togurum sje miklu minni en á íslenskum, því að Englendingar fiska aldrei í eins vondu veðri og Íslendingar og fá þar af leiðandi meiri hvíldir.

Á frönskum, þýskum og belgiskum togurum mun oftast vera 8 stunda svefn. Í þeim löndum er yfirleitt litið svo á, að ofþjökun á vinnuafli sje skaði fyrir framleiðsluna. Þá er ekki úr vegi að minna á Bandaríkjamenn í þessu sambandi. Eins og kunnugt er, er útgerð þar allmjög að aukast, og er hún mest frá borgunum Boston og Halifax. Þar fá sjómenn 8 tíma hvíld á sólarhring. Að vísu veit jeg ekki, hvort það er lögboðinn hvíldartími, en svo er þó víst, að það mun vera föst siðvenja.

Jeg hefi lauslega drepið á þetta til samanburðar við okkur, svo mönnum verði það ljóst, að aðrar þjóðir eru komnar lengra hvað snertir skilning í þessum efnum en fjöldi manna hjer. Jeg vænti því, að frv. þetta fái góðar viðtökur og hljóti skilning yfirleitt, svo að það fái greiðan gang gegnum þingið, eins og það fyllilega verðskuldar, því að á bak við það standa kröfur fjölda sjómanna, bæði þeirra, sem nú eru á sjó, og annara, sem á landi eru.

Hjeðan ganga 38 togarar, og á þeim kemur til að vinna á vetrarvertíðinni um 800 manns, en á ísfiskveiðum 420. Er því hjer um allstóran hóp að ræða, auk þess, sem við þennan flota bætast skip Hellyers í Hafnarfirði, sem vinna mun á um 100 manns. Að vísu eru þau skip ekki skyldug að hlýða þessum lögum, því að þau ná aðeins til skipa skrásettra á Íslandi, en fiskiskipstjórarnir eru íslenskir og fara eftir lögum þessum sökum gagnsemi þeirra. Sje nú þessi hópur tekinn til viðbótar, þá er hjer um að ræða 900 manns. Jeg verð nú að segja, að það er oft sett tryggingarlöggjöf fyrir minni hóp.

Þá kem jeg að síðustu mótbárunni, sem komið hefir fram áður gegn lagasetningu um þetta efni, og hún er sú, að lagaboð um þetta efni sjeu óþörf, því að um það megi semja. En þar til er því að svara, að jeg tel þau svo mörg deilumálin milli verkamanna og atvinnurekenda, að á þau sje ekki bætandi. Jeg leyfi mjer að fullyrða, að í samningum mundu mennirnir ekki fá kröfum sínum framgengt, nema með miklu rjettindaafsali. Og kaupið er ekki svo hátt, að síst er á bætandi að verða orsök til þess.

Andstæðingar þessa máls kunna ennfremur að segja sem svo, að óþarfi sje að lögleiða 8 tíma svefn, því að mennirnir hafi nægilegan svefn nú þegar. Þar til hefi jeg því að svara, að á togurunum er yfirleitt óslitin vinnan allan „túrinn“, svo að það er hin mesta ofþjökun á hverjum manni að fá ekki nema 4–5 tíma til svefns á sólarhring. Nú væri sök sjer, ef slíkt kæmi fyrir aðeins einstöku sinnum. En þennan litla svefn verða mennirnir að láta sjer nægja viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár.

Jeg ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni, þar sem mjer eflaust gefst kostur til andsvara. Leyfi jeg mjer að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að umr. lokinni.