26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg hjelt, að hv. þm. kynni að meta sinn eiginn hag, sem er í því fólginn, að hann tryggi verkamönnum sínum svo mikla hvíld, að sem bestur árangur verði af vinnu þeirra. En það virðist hv. þm. og hans samherjar í þessu máli aldrei hafa skilið.

Hv. þm. leyfir sjer að segja, að þær kröfur, sem hjer er farið fram á, sjeu ekki sprottnar frá sjómönnunum sjálfum, heldur frá okkur talsmönnum þeirra. Þetta er algerlega rangt, og hlýt jeg þó að játa, að þeir hafa gert alt of litlar kröfur, ef miðað er við það, sem þeir leggja í sölurnar. Enda þótt það sje vitanlegt, að hv. þm., sem er talinn allvel fjáður maður, hefir fengið auð sinn af stríði þessara manna, þá virðist vera óforsvaranlegt að halda því fram, að þeir vilji ekkert á sig leggja. Íslensku sjómennirnir eru einmitt viðurkendir, bæði utanlands og innan, fyrir meiri dugnað en dæmi eru til annarsstaðar. Og það er einmitt þess vegna, að þeir eiga heimtingu á að fá nægilega hvíld. Þeir vinna því betur, sem þeir njóta betri hvíldar.

Háttv. þm. sagði, að sjómönnunum væri þetta ekkert kappsmál, af því að þeir óttuðust mannafjölgun á skipunum og rýrnun lifrarhlutarins. Jeg get upplýst hv. þm. um það, að engar líkur eru til þess, að á saltfiskveiðar þurfi að fjölga mönnum. Þar eru þeir einmitt oft óþarflega margir, og veit jeg meira að segja dæmi þess á hans eigin skipum.

Jeg varð hissa, þegar hv. þm. sagði, að sjómennirnir hefðu látið undirskrift sína fyrst og fremst til þess að þóknast mjer. Jeg þakka hv. þm. fyrir þann heiður, sem hann sýnir mjer, þar sem hann er svo viss um, að sjómennirnir vilji alt fyrir mig gera, en það er um þá eins og svo marga aðra, að þeir líta á sinn eiginn hag í þessu efni. Gamalt máltæki segir: „Sá veit best, hvar skórinn kreppir, sem ber“. Það hefir hv. þm. aldrei reynt, og talar hann því meira af hugboði en reynslu. Hv. þm. hefir aldrei unnið sem háseti á íslenskum togara, og að því er jeg best veit, enginn af framkvæmdarstjórum togarafjelaganna.

Hv. þm. sagði, að togaraútgerðin ætti við svo mikla erfiðleika að stríða, að bættur hvíldartími hásetanna mundi, skildist mjer, koma henni á knje. Jeg býst við, að margir sjeu mjer sammála um, að þetta sje ástæðulaus harmagrátur. T. d. verð jeg að ætla, að síðastl. ár mundi ekki hafa sjeð högg á vatni, þó að kröfum hásetanna hefði verið gegnt.

Jeg veit ekki, hvað hv. þm. meinar, þegar hann segir, að engir vinnandi menn eigi eins gott og sjómenn. Þeir eiga að vísu að fá nægilegt að borða, en kaupgjald þeirra er mjög lítið, í samanburði við það, sem þeir leggja af mörkum í vinnu. Eins og jeg vjek að áðan, eru íslenskir sjómenn einhverjir aflamestu og sjósæknustu fiskimenn í heiminum.

Þá kom háttv. þm. fram með þá ástæðu, að sömu menn ynnu lengi á togurunum, án þess á þeim sæi. En þess munu vera örfá dæmi. Hve margir ætli nú vinni þar af þeim, er byrjuðu fyrir 20 árum? Hv. þm. gat aðeins nefnt eitt dæmi. Sá maður hafði þó ekki unnið óslitið að því, en er óvenjulega þrekmikill maður. Hvar lenda svo þessir menn, þegar þrekið er svo lamað, að þeir þola ekki lengur hina hörðu vinnu á togurunum? Þeir lenda hjer í ruslakistunni — á eyrinni. Þar verða þeir að hanga yfir snöpum. Það eru launin eftir mikið og dýrmætt strit í þágu útgerðarinnar. Háttv. þm. sagði, að sú regla hefði verið komin á áður en vökulögin gengu í gildi, að veita ákveðna hvíld á togurunum.

Skipstjórar margir myndu fúsir til þess að veita næga hvíld, en þeir þora það ekki fyrir útgerðarmönnunum — húsbændum þeirra. Þeir vita, að staða þeirra getur verið í veði. Orðið „reiðarahræðsla“ er líka orðið alþekt hjer, einnig innan skipstjórastjettar útgerðarinnar. Einn skipstjóri sagði, að hann myndi veita 8 tíma hvíld, ef hann þyrði. Hann var sannfærður um, að með því fengist meiri og betri vinna. Þetta mál strandar ekki á skilningi skipstjóranna, heldur á skilningsleysi útgerðarmannanna, sem sjá má á því, að hv. þm., sem hefir verið sjómaður á þilskipum og ætti því að hafa betri skilyrði en margir aðrir útgerðarmenn til að skilja þetta, legst jafnvel á móti málinu.

Hv. sami þm. sagði, að áður hefði verið byrjað að veita hvíld, og nefndi einn skipstjóra, sem fyrstur hefði byrjað á því. En það er ekki rjett. Jeg hefi fylgst vel með í þessu máli síðan 1910, Fyrsti maður, sem byrjaði á því, var Jón Jóhannsson skipstjóri, sem var á skipi, er Elías Stefánsson hafði á leigu. Hann ljet sína menn fá minst 4 stunda svefn í sólarhring, þegar mestur fiskur var. En þetta stóð ekki lengi, vegna ótta við útgerðarmenn.

Þá vildi sami háttv. þm. halda því fram, að hjer væri aðeins um byrjun að ræða, sem óvíst væri, hvar endaði. En með smærri útveginn er alt öðru máli að gegna, og er því ekki sambærilegt. Mótorbátarnir t. d. í Vestmannaeyjum fara á sjó að morgni, eða jafnvel að nóttu, og koma að síðari hluta dags. Þeir eru því jafnan heima og hvílast part af sólarhringnum. Auk þess verða hvíldardagar fleiri, þar sem þeir eru meira háðir veðráttu en togararnir, sem fiska oft, þótt mótorbátar sjeu í landi vegna veðurs. Á togurunum er það nú svo, að hásetarnir vinna þar sömu vinnuna dag eftir dag og ár eftir ár. Einhæfni vinnunnar gerir þá óþolnari heldur en ef um fjölþættari vinnu væri að ræða. Þetta gerir það að verkum, að hvíldartíminn þarf að vera lengri, svo kröftum mannanna sje ekki ofboðið. Þetta er líka orðið viðurkent t. d. í verksmiðjum.

Mjer kæmi ekki á óvart, þó síðar kæmi fram krafa um lengri hvíld en þetta. Þeim er nauðsynlegt að hvílast, sem eiga að starfa vel. — Jeg hefi ekki fleirum að svara og skal því hætta að sinni.