26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3326 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Haraldur Guðmundsson:

Það var eins og hv. 3. þm. Reykv. væri þungt í skapi í ræðu sinni, því hann sagðist ekki sjá fyrir endann á afleiðingum þessara laga. Jeg veit þó ekki, af hverju það er, því jeg sje ekki, að ræða hans gefi ástæðu til þess, nema þá að það sje út af þessum aldraða manni, er hann gat um, að hlaupið hefði í spik hjá þeim. Jeg vona samt, að hann þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir því, að svo fari um marga háseta, og að honum sje óhætt að sofa rólega fyrir því.

Á frv. því, er hjer liggur fyrir, eru tvær hliðar. Önnur, sem snýr að sjómönnunum, en hin að útgerðarmönnunum, sú fjárhagslega. Á flotanum eru nú yfirleitt ungir og hraustir menn, enda gömlum mönnum og óhraustum ekki fært að vinna þar. Hjá öðrum þjóðum er barist fyrir og víða lögleiddur 8 stunda vinnudagur. En hjer er barist á móti því, að viss stjett manna fái 8 tíma hvíld. Svo mjög eru menn aftur úr hjer. En gera ekki flestar eða allar aðrar stjettir hjer meiri kröfur til lífsins gæða heldur en sjómennirnir? Það er fróðlegt að spyrja hv. 3. þm. Reykv. að því.

Þá er hin hliðin, sem snýr að útgerðinni. Því var óspart haldið fram, þegar togaravökulögin, sem nú gilda, voru á ferðinni, að útgerðinni væri sýnt fjárhagslegt banatilræði með þeim og stefnt í hreinasta voða. En nú hefir skift um, því nú telur hv. 3. þm. Reykv., að þau sjeu meinlaus. Hitt mun þó sanni nær, enda viðurkent af flestum, að útgerðarmenn hafa haft beinan fjárhagslegan hagnað af lögunum. Nú er aftur risið upp, þegar talað er um 8 stunda hvíld, og sömu ástæður færðar fram gegn henni. En jeg hygg, að sú spá mín rætist, að þegar frv. þetta er orðið að lögum, þá muni lækka öldur þær, sem nú rísa gegn frv., og útgerðarmenn sjá, að þeir hafi hag af því, ekki síður en hinum eldri lögum. Og hvað fjárhagsútkomu útgerðarinnar snertir, þá hygg jeg, að ekki myndi skaða, þótt heimtuð væri meiri hagsýni af útgerðarmönnum en þeir hingað til hafa sýnt.

Ríkið hefir rjett til þess að líta eftir því, að mönnum sje ekki ofboðið svo með erfiðri eða óhollri vinnu og næturvökum, að þeir sjeu gerðir að aumingjum eða heilsa þeir sett í beina hættu.

Frá mínum bæjardyrum sjeð er þetta frv. sjálfsögð sanngirniskrafa.