09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3349 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Mjer þykir leitt, að hv. 3. þm. Reykv. er farinn út, því jeg hafði hugsað mjer að nota þennan hálftíma, sem eftir er fundartímans, til að ræða um röksemdir þær, sem hann bar fram. (ÓTh: Jeg skal hlusta!). Og svara fyrir barnið?

Ræða hv. þm. gekk út á að sanna, að ef frv. þetta yrði að lögum, gæti útgerðin ekki undir því risið. Maður gæti haldið, að slík ræða hefði verið haldin fyrir hundrað árum, en ekki af manni, sem lifir mitt í þeim straumum, sem nú ólga í atvinnulífi voru og á öðrum sviðum. Hann talaði um, að atvinnuveitendur ættu að rjetta hver öðrum hjálparhönd gegn slíkum vágestum. Gat jeg ekki skilið það öðruvísi en sem bónorð til bænda um að varna frv. framgangs. Annars hefi jeg ekki orðið var við, að útgerðarmenn hrópuðu til bænda um aðstoð nema þegar þeir hafa álitið sig vanta fólk til atvinnurekstrarins.

Jeg skal nú sýna fram á, að tilraun til rökfærslu hjá háttv. þm. er annaðhvort vísvitandi röng, eða bygð á svo hróplegum misskilningi, sem ekki er að vænta hjá svo kunnugum manni.

Það hefir þegar verið sýnt fram á það, að aukning hvíldartímans þarf ekki að hafa í för með sjer fjölgun manna á skipunum. Skal jeg ekki endurtaka það hjer. En það má líka sýna fram á annað. Hvíldartími sá, sem nú er lögleiddur, hefir aukið framleiðsluna að miklum mun. Jeg hefi hjer tölur úr hagskýrslunum, sem sýna, að framleiðslan hefir aukist við lögleiðingu hvíldartímans. Mannfjöldi á skipunum hefir og minkað í samanburði við stærð þeirra. Togararnir hafa fiskað að meðaltali 1211 skpd. árið 1919, 1426 skpd. árið 1920 og 2072 skpd. árið 1921. En árið 1922, og það er hvíldartímans fyrsta ár, er aflinn 2562 skpd., 1923 2651 skpd., 1924 5043 skpd., en þá var líka úthaldið lengra en venjulegt er, 1925 3861 skpd., 1926 1854 skpd., en þá var aflaár ljelegt og vertíð stutt, og 1927 3495 skpd. — Þessar síðustu tölur þriggja áranna eru teknar eftir „Ægi“.

Þessar tölur sýna, að aflinn hefir aukist eftir að hvíldartíminn var lögfestur. Raunar mun hv. þm. hafa gengið inn á þetta, en þar með er því líka slegið föstu, að með aukinni hvíld verða afköstin betri. Og hafi svo farið með 6 tíma hvíldartímann, þá verða afköstin ennþá betri með 8 tíma hvíldinni.

Það er og skoðun þeirra manna, sem kunnugir eru, að ekki muni þurfa að bæta mönnum við á saltfiski, þó að hvíldartíminn verði aukinn þetta. Að meðaltali munu togarar nú hafa 30 manna skipshöfn, þar af 21 vinnandi mann á þilfari. Það er ekki hægt að fjölga mönnunum að mun, því skipin hafa ekki svefnrúm fyrir þá. Þess er heldur ekki þörf. Og þó þeir vildu vera vel mentir og taka svo sem einum manni fleira, þá eru eins manns laun á lágmarkskaupi eins og dropi í hafið hjá útgerðinni. Hv. þm. vildi reikna kostnaðaraukann 11000 kr. Er það furðu djarft að bera slíkt fram. Hægt er að sýna fram á, að það er engin þörf á að fjölga mönnum. Þá reiknar hann og með 12 mánaða vinnu fjögurra manna. En það er víst ekkert ár, sem útgerðartíminn hefir verið svo langur; þykir gott, ef vinnan er 10 mánuði. Dæmið er því alrangt.

Það er nógu gaman að gera sjer hugmynd um, hvers virði aflinn er, miðað við meðalafla á skip. Hagskýrslurnar birta tölur um það, en ólíklegt er, að öll kurl komi þar til grafar:

Árið 1919 …. 581681 kr.

— 1920 .... 458704 —

— 1921 .... 444509 —

— 1922 .... 470905 —

— 1923 .... 485031 —

— 1924 .... 915062 —

Lengra hefi jeg ekki skýrslur yfir verðmæti aflans. Hjer er og ótalið, að flest árin hafa síldveiðar verið stundaðar, og er sá afli ekki talinn hjer með. Menn fá hjer hugmynd um, að það eru ekki neinar smáupphæðir, sem skipastóllinn aflar. Væri þó gaman að geta rannsakað þetta nánar en gert er eftir hagskýrslunum. En útgjöldin? Sú hliðin er vandlega hulin; hana fær enginn að sjá. Maður fær hugmynd um, að þetta sje barlómur hjá útgerðinni. Ávalt þegar rætt er um bætt kjör sjómanna, mjálma útgerðarmenn um, að útgerðin sje á hvínandi kúpunni. En þó fær enginn að vita, hversu hún stendur sig.

Háttv. þm. sagði, að allir útgjaldapóstar útgerðarinnar væru svo rígnegldir, að engu væri þar hægt um að þoka. Það er náttúrlega hægt að slá þessu fram í því trausti, að enginn hafi fullkomna þekkingu á þessu nema útgerðarstjórarnir sjálfir. Jeg skal þó benda á, að laun skipstjóra eru reiknuð af brúttóafla skips. Þetta hafa útgerðarmenn sjálfir viðurkent að væri rangt. Þó að tap verði á rekstri skipsins sjálfs í allstórum stíl, geta þeir gengið frá borði með mjög hátt kaup. Þetta fyrirkomulag þekkist hvergi nema hjer á landi. Jeg bendi aðeins á þennan lið í útgerðarkostnaðinum, og jeg veit, að skipstjórar gætu vel lifað sómasamlegu lífi af lægri launum en þeir nú hafa, margir hverjir. Það mætti benda á fleira. Laun útgerðarstjóra veit jeg að vísu ekki um með vissu. En eftir skattskránum munu það vera allgóðar tekjur, sem skattur sumra útgerðarstjóranna, t. d. útgerðarstjóra Kveldúlfs, er reiknaður af. Svo eru hin og þessi sníkjudýr, liggur mjer við að segja, á útgerðinni. Hvað fá þeir? Það eru stofnuð hlutafjelög, og ýmsir fjelagsmanna, þeir sem næstir útgerðarstjórninni standa, fá svo sitthvað, sem enginn fær að vita neitt um. Alt er þetta kostnaður á útgerðinni. Sumir fengu frí kol, þegar erfiðast var með kolaflutninga hingað til lands og þau dýrust. Dæmi eru til, að matvælum hefir verið úthlutað til ýmsra manna, og þau síðan skrifuð á kostreikningi skipsins. Alt eru þetta póstar, sem mætti hreyfa. Þá er og kolapósturinn stór. En það er mikið undir skipstjórunum komið, hvað kolin eyðast. Ef þeir fengju sín laun af nettóhagnaði skipsins, myndi sá póstur eflaust breytast mikið. Ef rannsókn fengist á útveginum, þá mundu efalaust koma ýmsir þeir kostnaðarliðir í ljós, sem athugaverðir væru. Áður en þingi lýkur hefi jeg í hyggju að biðja um slíka rannsókn.

Háttv. þm. kvað ekki hægt að láta aukningu hvíldartímans koma niður á öðru en verkalaununum. Nú munu meðaltekjur háseta á togurum, með 10 mánaða vinnu, vera um 3600 kr. Af þessum launum þurfa þeir, að frádregnum kostnaði við sjóföt og önnur vinnuföt, sem er mikill á togurum, að framfleyta fjölskyldu sinni, með þeirri dýrtíð, sem hjer ríkir. Verða að greiða alt að 100 kr. á mánuði í húsaleigu. Þá geta menn sjeð, hvað eftir verður til annara þarfa, t. d. fyrir fjölskyldumann. Á þessu sjest, hvort þeir hafa of há laun, og það án þess að tillit sje tekið til þeirrar æfi, sem þeir eiga. Þeir eru sem útlendingar við heimili sín. Reynslan hefir sýnt, að þeir eru steinuppgefnir eftir nokkur ár. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nein gæfa fyrir þjóðfjelagið að halda því sleifarlagi, að bestu og færustu menn þjóðarinnar verði að forðast þessa vinnu fyrir þröngsýni og óhagsýni útgerðarmanna.

Háttv. þm. bauðst til að sýna mjer rekstrarreikning togarafjelags þess, er hann veitir forstjórn. Þetta er víst í fyrsta sinn, sem slíkt er boðið. Í kaupdeilu árið 1923 var t. d. lagður fram rekstrarreikningur skips. Hann var sýndur í stjórnarráðinu, en þess var vandlega gætt, að við, sem sömdum fyrir hönd sjómanna, fengjum ekki að sjá hann. Sjómönnum gefst yfirleitt ekki kostur á að sjá rekstrarreikninga útgerðarinnar. En það er ekki nóg að sjá tölurnar. Fylgiskjölin verða líka að vera með.

Hv. þm. kallaði þetta hjegómamál. Mun hann yfirleitt nefna alt það því nafni, sem miðar að því að bæta kjör verkalýðsins og skapa honum viðunandi lífskjör. Í höfuðlandi auðmagnsins, Ameríku, er þó fiskimönnum við veiðar altaf trygð 8 tíma hvíld. Það hefi jeg úr brjefum frá Íslendingum, sem þar stunda atvinnu sína. Það er uppi sú stefna í heiminum að lögbjóða 8 tíma vinnudag við siglingar. Hafa Frakkar þegar riðið á vaðið. Skýtur það nokkuð skökku við, ef við viljum ekki unna okkar sjómönnum 8 stunda hvíldar, þegar aðrar þjóðir fara að veita sínum sjómönnum 16 tíma hvíld. Háttv. þm. hafði stór orð um það, að verið væri að ala fólk upp í því að heimta hátt kaup og litla vinnu. En jeg vil benda á, að svo virðist, sem nógu lengi sje unnið hjer, af því atvinnuleysi, sem ríkir. Að minsta kosti telja aðrar þjóðir það hagkvæmara að dreifa vinnunni milli sem flestra undir slíkum kringumstæðum heldur en að ofþjaka mönnum með of löngum vinnutíma.

Framleiðslumagn þjóðarinnar eykst ár frá ári. Fullkomnari tæki og vjelar eiga sjálfsagt sinn þátt í því. En einnig það, að fólkið kann betur að haga sjer við vinnu sína, þ. e. a. s. unnið af viti og gætir meiri hagsýni en áður. Hagsýnir menn láta ekki vinna lengur en svo, að verkamennirnir haldi óskertum starfskröftum sínum. Útgerðarmennirnir njóta svo best starfsafls verkamanna, að þeir kunni með það að fara. Það er því best fyrir þá að lofa þeim að hvílast í 8 tíma á sólarhring og tryggja sjer þar með fullkominn starfskraft þeirra, meðan þeir eru að mala gullið handa þeim.