09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er þegar búið að ræða þetta mál svo mikið, að jeg geri ekki ráð fyrir, að fram verði færð nein þau rök, er breyti hugum hv. þm. Jeg get gefið þá játningu, að jeg er sjálfur orðinn hálfleiður á hinum margendurteknu fullyrðingum, sem hjer hafa verið hafðar í frammi, svo að jeg mun hlífa andstæðingum mínum við því að andurtaka nema að örlitlu leyti það, sem jeg hefi áður sagt.

Háttv. frsm. meiri hl. hjelt hjer allmikla ræðu, en jeg get ekki sjeð, að hún gefi tilefni til mikilla andmæla fram yfir þau, sem þegar eru komin fram. Hann viðhafði margar skoplegar fullyrðingar, sem verða ekki teknar það alvarlega, að álíta þurfi, að háttv. þdm. hafi lagt frekari trúnað á þær. Hv. frsm. sagði, að 6 stunda lögboðinn hvíldartími hefði aukið vinnubrögð og afla. Jeg hefi ekki mótmælt því, að 6 stunda hvíldartími væri nauðsynlegur. En þegar hann var lögboðinn, var þegar búið að taka hann upp á mörgum skipum.

Jeg get ekki stilt mig um að draga dár að rökum hv. frsm. fyrir því, að samkvæmt hagskýrslum hefði afli aukist mikið eftir að lögleiddur var 6 stunda hvíldartími. Hv. frsm. var svo óheppinn að geta um það, að meðalafli á togurum hefði verið árið 1919 1200 skpd., en árið 1921 yfir 2000 skpd., en þá var 6 stunda hvíldartími ekki lögfestur. Þegar aflinn í þessi tvö ár hefir verið svo misjafn, að hann er nálega tvisvar sinnum meiri 1921 en 1919, og eftir að hvíldartíminn var lögboðinn svo misjafn, að eitt árið var hann þriðjungur af því, sem hann var annað árið, má ekki tilfæra hagskýrslur sem sannanir fyrir ágæti hvíldartímans. Eftir því ætti afli að fara síminkandi eftir að hvíldartíminn var lögboðinn. (SÁÓ hlær). Þetta er ekki broslegra en það, að á meðan hvíldartíminn er ekki lögboðinn, tvöfaldast aflinn, en eftir að hann er lögboðinn, minkar hann frá 1924–1926 úr 5000 skpd. niður í 1800 skpd. Enda þótt því sje slegið föstu, að 6 stunda lögboðin hvíld sje heppileg, er það engin sönnun þess, að nauðsynlegt sje að lögbjóða 8 stunda hvíld. En um það er verið að deila, hvort sannanir sjeu fyrir því, að hvíldarauki sje nauðsynlegur. Háttv. frsm. gat um það, að ef lögboðin væri 8 stunda hvíld, væri örugg vissa fengin fyrir því, að mannsorkan hagnýttist sem best. Jeg álít, að það sje hvorki á hans færi nje annara að finna þá takmarkalínu, sem á að draga í þessu efni.

Annars var hv. þm. ekki að rökræða við mig, sem þó hefi gefið honum tilefni til þess, heldur var hann að glíma við háttv. 3. þm. Reykv., svo að enn síður er tækifæri til langra andmæla frá minni hálfu. En jeg verð að benda háttv. þm. á, að það er eðlileg afleiðing af aukningu aflans, að eyðsla í sambandi við útgerðina fari einnig vaxandi. Það leiðir af líkum, að eftir því sem aflinn er meiri, eyðist meira í veiðarfæri, salt o. fl. Háttv. þm. benti á, að skipstjórar hefðu of hátt kaup og að óheppilegt væri að gjalda þeim af brúttóandvirði í stað nettó. Jeg get gefið þá yfirlýsingu, að jeg er ekki viss um, hvor leiðin er heppilegri. Og þeir skipstjórar eru margir, sem hugsa alveg eins mikið um að spara eins og að afla. Enda eru þeirra hagsmunir í raun og veru að eyða sem minstu, því að þegar verðleikar skipstjóra eru metnir, er líka farið eftir því, hve miklu hann eyðir. Margir þeirra hafa skilið þetta og hagað sjer eftir því.

Jeg sagði í upphafi máls míns, að það væri ofraun fyrir háttv. þdm. að hlýða enn á ný á þau rök, sem fram hafa verið borin. Jeg mun því vera stuttorður úr þessu. En jeg vil aðeins benda á, að það er sannað í þessu máli, að venjulega njóta sjómenn miklu meiri hvíldar en hinna lögboðnu 6 stunda, og ennfremur er viðurkent, að það sje alveg óupplýst, hver nauðsyn sje á að lögbjóða aukinn hvíldartíma. Ef jeg hefði vitneskju um, að hvíldartíminn væri nauðsynlegur, þá hefði jeg hvorki vilja nje djörfung til að sporna á móti honum. Og jeg held, að því síður sje ástæða til að lögbjóða þennan hvíldartíma, sem það er ómótmælanleg staðreynd, að 1919 tóku sjálfir skipstjórarnir upp 6 stunda hvíld, svo að ástæða er til að ætla, að eins færi nú, ef nauðsyn bæri til. Það voru mestu aflamennirnir, sem tóku þetta upp.

Þá má geta þess, að það er fyllilega upplýst, að hjer er um hagsmunamál fyrir útgerðina að ræða. Ef 8 stunda hvíld verður lögleidd, þarf að bæta mönnum á skipin, en það er ekki hægt að koma því við. En hverjum manni er ætlað að vinna meira gagn en hann tekur kaup fyrir, því mannakaup er vitanlega aðeins einn liður útgerðarkostnaðarins. Hjer er um tap að ræða fyrir útgerðina, sem nemur margföldu kaupi þeirra manna, sem þyrfti að auka við. En þegar málið liggur svo fyrir, að óupplýst er nauðsyn annars aðiljans, en upplýst mikið tap hins og svo á jafnframt að íþyngja útgerðinni með nýjum sköttum, verð jeg að skjóta máli mínu til hv. dm. og biðja þá að stíga ekki neitt ónauðsynlegt spor, ef þeir trúa því, að samþykt hvíldaraukans verði höft á útgerðinni.

Jeg vil ljúka máli mínu með því að endurtaka þá yfirlýsingu, sem jeg gaf áðan, að ef jeg — að fengnum upplýsingum — áliti ástæðu til vegna heilsu sjómanna að lögbjóða hvíldarauka, mundi jeg vera með því, en ekki móti.