09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Ásgeir Ásgeirsson:

Framsóknarflokksmenn hafa lítið gefið sig að þeim umr., er fram hafa farið um vökulögin að þessu sinni. En eigi að síður er það kunnugt, að margir þeir, er nú eiga sæti í þeim flokki, voru þessu máli fylgjandi, þegar það var áður til umr. á Alþingi, enda orðið ljóst, að þetta frv. á vinsældum að fagna innan flokksins. Þar sem þetta er kunnugt, þá tel jeg mjer skylt að vekja athygli á því, hve kurteislega umr. um þetta mál hafa farið fram og hve fáar hnútur hafa flogið, eins og maður átti að venjast, er t. d. skifting Gullbringu- og Kjósarsýslu var á ferðinni. Þetta hefir valdið mjer ánægju.

Okkur framsóknarmönnum er það ljóst, að á okkar atkv. velta úrslit þessa máls. Um það hafa að vísu orðið snarpar deilur hjer, en þær hafa þó oft áður orðið snarpari. Deilur verða einmitt oft mjög snarpar um þessi mál, bæði hjer og ekki síður annarsstaðar, með öðrum þjóðum, sem lengra eru komnar á þessari braut en við. Það verður einatt viðkvæmur hlutur. þegar breytt er frá frumlegum atvinnuháttum landbóndans eða útgerðarbóndans, sem hefir fáa menn í sinni þjónustu. Tímamótin milli hinna frumlegu atvinnuhátta og vjelaiðjunnar eru viðkvæm í sögu allra þjóða. Hjer er það eins og annarsstaðar. Og þegar þessi breyting krefst nýrrar löggjafar, þá er ekki að undra, þó barátta verði, og hún snörp. En baráttunni milli hins eldra og yngra skipulags hefir jafnan lokið á einn veg þannig að þjóðfjelagið hefir talið sjer skylt að hafa afskifti af þessum málum. Það hefir skorið úr, að því leyti sem heilsu og vinnuþoli verkamannanna var hætta búin. Slíkar reglur um heilsusamleg starfskjör hafa verið settar í öllum löndum. Þarf ekki hjer að færa rök fyrir því, að rjettmætt sje, að þjóðfjelagið skifti sjer af slíkum málum.

Aðalrökin, sem færð voru gegn því, að löggjöfin ákvæði vissan hvíldartíma á togurunum, voru þau, að þessi atvinnuvegur heimtaði það, að þegar uppgrip væru fyrir hendi, þá væri unnið hvíldarlaust og stanslaust heila sólarhringa. En þessi ástæða er tæpast lengur við lýði. Hún var máske beittasta vopnið áður fyrri, þegar sú var venjan, að unnið var 2–3 sólarhringa án þess hvílst væri, beittasta vopnið gegn þeirri kröfu, að ætlaður væri viss hvíldartími á hverjum sólarhring. Þessi röksemd var notuð, þegar verið var að koma fyrri vökulögunum á. En nú, þegar gera á út um það, hvort hvíldin skuli heldur vera 6 eða 8 tímar í sólarhring, er deilan um þessar aflahrotur eiginlega úr sögunni, enda mun sú skoðun nú orðin almenn, að bæði hásetar og útgerðarmenn hafi grætt á því, að hásetunum var lögákveðin hvíld á hverjum sólarhring. — Sú breyting, sem verður á viðhorfi þjóðfjelagsins til atvinnuveganna, þegar horfið er frá hinum frumlegu atvinnuháttum, er því orðin viðurkend af öllum. Hjer er því aðeins um stigmuninn 6 og 8 að ræða. Um þennan stigmun hefir nú verið deilt, og hefir verið reynt að færa rök fyrir því, að ósanngjarnt væri að lengja hvíldartímann. Jeg hygg þó, að naumast þurfi að gera tilraun til að sanna það, að 5–6 tíma svefn á sólarhring svo mánuðum skiftir, aukahvíldarlítið, muni ekki nægja. Sú nauðsyn, að lengja þennan tíma, liggur svo í augum uppi, að jeg hygg, að bændur þessa lands krefjist engra sannana fyrir slíku. Í sveitum landsins hefir mikil breyting á vinnutíma gerst af sjálfu sjer, án allrar íhlutunar löggjafarvaldsins. En hvernig stendur þá á því, að ekki er hægt að vænta hins sama með útgerðina? Það er af því, að í sveitunum búa húsbændurnir og hjúin á sama heimili, við sömu starfskjör og mótast af sameiginlegri lífsskoðun hins vinnandi manns. En hjá útgerðinni er búið að kljúfa hagsmunina þannig, að lífskjör og aðbúð útgerðarmanna og skipstjóra annarsvegar og háseta hinsvegar eru orðin gerólík; þá er ekki að undra, þótt fara verði sömu leiðir hjer og fara þurfti annarsstaðar, þegar stóriðnaðurinn var að ryðja sjer til rúms, eins og t. d. á Englandi alla 19. öld. Jeg hefi nokkuð kynt mjer þessa baráttu, er fram fór á 19. öldinni milli enskra vinnuveitenda og verkamanna. Og við það að hlýða á umr. þær, er hjer hafa farið fram, fá finst mjer, að jeg hafi komist í eitthvað svipað loftslag og ríkti í þeim deilum. Annarsvegar hefir verið fullyrt, að þetta myndi íþyngja atvinnugreinunum stórlega og allir myndu bíða tjón við slíka breytingu. Hinsvegar, að stytting vinnutímans og aukin hvíld verkamanna myndi bæði þeim og atvinnugreinunum til gagns. Um þetta er nú deilt hjer. Í því sambandi er gaman að rifja það upp, að einn af þeim fyrstu, er hjelt því fram, að stuttur vinnutími, góð laun og góð aðbúð og starfsvenjur væru öllum til góðs, bæði vinnuveitendum og verkamönnum, var sjálfur Adam Smith, faðir þeirrar hagfræði, sem þjóðfjelögin eru nú mótuð eftir, faðir hinnar frjálsu samkepni. Þótt þessari kenningu hafi ekki ætíð verið hossað af hans fylgismönnum, þá hefir hún þó eigi að síður reynst rjett í flestum tilfellum. Í flestum tilfellum mun þessi kenning hafa reynst rjett, þó að fáir vinnuveitendur og fáir verkamenn hafi aðhylst hana, en kjarni hennar er, að í raun og veru hafi verkamenn og vinnuveitendur sömu hagsmuna að gæta.

Þessi kenning hefir m. a. sannast af dæmi Robert Oven og Henry Ford. Hún byggist á því, að afraksturinn standi ekki í rjettu hlutfalli við lengd vinnutímans. Það sje ekki hægt að reikna með því, að 16 tíma vinna á sólarhring gefi helmingi meira í aðra hönd en 8 tíma vinna. Það, sem athuga ber í þessu sambandi, er sem sje það, að mannssálin kemur inn í þetta. Það þótti lengi vel fjarstætt að halda því fram, að stytting vinnutímans gæfi jafnan arð eða meiri. En nú hafa verið færðar margvíslegar sönnur á það. Vitanlega er það svo, eins og rjettilega var bent á af hv. þm. Vestm., að það er alls ekki takmarkalaust, hvað hægt er að stytta vinnutímann mikið, til þess að ekki dragi úr afrakstrinum. En jeg vil halda því fram, þó að jeg hafi ekki skýrslur við hendina því til sönnunar, að sá maður, sem hefir 7 tíma svefn, muni að öðru jöfnu afkasta meiru en sá, sem aðeins fær 5 tíma svefn. En ef jeg væri nú spurður, hvar takmörkin eigi að vera, þá er mitt svar hiklaust, að takmörkin sjeu þessi: að ákveða 8 tíma hvíldartíma á togurum, svo að það sje trygt, að mennirnir fái 7 tíma svefn. Takmörkin verðum við að setja einhversstaðar. Þó að nú verði löggilt 8 tíma hvíld á togurunum, þá sje jeg heldur ekki ástæðu til að óttast, að þingið muni ekki kunna sjer hóf í því að lengja hvíldartímann í framtíðinni. Trú þeirra manna, sem þessu frv. fylgja, á því, að framleiðsla mannsaflsins minki ekki við það, að hvíldin sje aukin þetta, er bygð á þeirri auðskildu staðreynd, að maðurinn er ekki dauður hlutur, sem alveg sje sama, hvernig með er farið. Um vjelar er kappkostað að fara sem best með þær og halda þeim vel við, svo að þær endist sem lengst og vinni sem best, og við megum þá ekki gleyma því, að maðurinn sjálfur er ekki síður viðkvæm vjel og hann er áreiðanlega ekki of vel trygður, þó að honum sje ætlaður 7 tíma svefn, eða samtals 8 tíma hvíld.

Viðvíkjandi þeim útreikningum, er hjer hefir verið komið fram með, skal jeg segja það, að jeg legg ekki sjerstaklega mikið upp úr þeim. Jeg hygg, að hjer á landi hafi enn ekki verið gerðar þær skýrslur, sem sanni neitt. En þó að slíkar skýrslur sjeu ekki til hjer, þá hafa þær verið gerðar annarsstaðar. Einna merkilegastar af slíkum skýrslum munu vera skýrslur Brassey's nokkurs, ensks þingmanns. Hann var sonur ensks járnbrautarkonungs, og eru skýrslur hans unnar úr starfsskýrslum föður hans. Þessar skýrslur sýna, að þar, sem hvíldartíminn var lengstur og hæst laun greidd, þar fjekk faðir Brassey's mesta vinnu fyrir sína peninga. Þessar skoðanir erlendra hagfræðinga hafa haft sín áhrif á afstöðu mína til þessa máls.

Jeg svara þeim spurningum, sem hjer hafa komið fram um, hvort þörf væri á þessari lengingu hvíldartímans, á þann hátt, að mjer finst alls ekki hægt að deila um þörfina. Jeg fullyrði, að sjómennirnir þurfi öruggan 7 tíma svefn, og það því fremur, sem yfirleitt er um litla aukahvíld að ræða á skipunum, en oftast sífelt erfiði. Hvað það snertir, að þessi breyting valdi útgerðarmönnum gífurlegu tapi, er það trúa mín, að svo muni ekki verða, og sú trú er bygð á þeirri staðreynd, að maðurinn er viðkvæmasta vinnuvjelin og að mannsaflið og mannslífið sje svo dýrmætt, að þjóðfjelaginu beri skylda til að tryggja mönnum hæfilegan vinnutíma, þar sem hætta kann að vera á misfellum. Jeg skal játa, að jeg var hikandi á síðasta þingi, af því að jeg taldi mig ekki hafa kynt mjer málið nógu vel. En niðurstaða mín, eftir íhugun og viðtöl við sjómenn, er sú, að þörf sje á löggjöfinni.

Eins og jeg sagði í upphafi, eru auðvitað takmörk fyrir því, hvað langt þjóðfjelögin geta gengið í því að skifta sjer af lengd vinnutímans. En jeg lít svo á, að þegar framleiðslutækin eru orðin svo óháð veðri og vindi eins og togararnir, þá eigi og verði að setja reglur um lágmarkssvefntíma, sem fullnægi kröfum heilsufræðinnar. Hjer eru takmörkin, og lengra verður ekki gengið. — Það má vel vera, að rjett væri að löggilda sömu eða svipaðar reglur um hvíldartíma á einhverjum öðrum skipum, svo sem línubátum, sem liggja úti við veiðar og koma ekki í höfn fyr en þeir eru fullir. Um það skal jeg ekki dæma að svo stöddu.

Jeg greiði atkv. með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, í þeirri öruggu trú að með því sje þessum atvinnuvegi í heild sinni unnið gagn, bæði verkamönnum og vinnuveitendum. Jeg geri líka ráð fyrir, að dómur reynslunnar verði á þann veg, að hvíldartíminn verði ekki styttur aftur, jafnvel þó sá flokkur, sem nú stendur á móti frv., komist í meiri hl. í þinginu. Lögunum frá 1921 hefir verið sýnd fylsta sanngirni af öllum, þótt mikill ágreiningur væri um þau á sínum tíma, og jeg þykist viss um, að allir flokkar sýni einnig þessum væntanlegu lögum sömu sanngirni. Þegar baráttunni er lokið, verða allir á eitt mál sáttir á skömmum tíma.