09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Halldór Stefánsson:

Út af ummælum hv. þm. Vestm. um það, að ef þetta frv. væri samþ., mætti svo vera, að einnig þyrfti að lögleiða ákveðinn hvíldartíma í sveitum landsins, vil jeg segja það, að jeg þekki það ekki, að nokkursstaðar sje svo lengi unnið í sveitum, að þörf sje á að lögákveða vissan hvíldartíma, eins og hjer er farið fram á. En vera má, að svo sje einhversstaðar, þó jeg þekki það ekki, en ef svo væri og ef ósk kæmi fram um slíkt, þá get jeg sagt það hjer, að jeg mundi hiklaust fylgja því. Jeg fyrir mitt leyti mundi ekki einasta vilja leyfa mínu starfsfólki 8 tíma hvíld, heldur beinlínis heimta það, að það hvíldist minst 8 tíma, þegar það á að gegna erfiðum störfum. Það er mín reynsla, og jeg hygg, að það sje almenn skoðun, a. m. k. austan lands, að vinnuafkast manna hafi aukist við það, að vinnutíminn hefir verið styttur, og vantar þó stórmikið á, að hann hafi verið svo langur, sem frv. þetta leyfir.