09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3377 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg þarf að svara hv. 4. þm. Reykv. örfáum orðum. Hann hældi mjer fyrir það, að jeg teldi 8 tíma hvíld alveg nauðsynlega. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm., því að jeg álít hana alls ekki nauðsynlega. Hinsvegar sagði jeg það, að ef svo reyndist, þá treysti jeg því, að sá dómur staðfestist, eins og 6 tíma hvíldin, án lögfestingar, og væru því afskifti löggjafans af þessu máli alveg óþörf.

Þá gat hv. þm. þess, að fjárhagshlið útgerðarinnar væri haldið eins og einhverju ægilegu leyndarmáli og ættu engir aðgang að ársreikningum útgerðarfjelaganna aðrir en ef til vill framkvæmdarstjórar og stærstu hluthafar. Því er þar til að svara að ársreikningar hafa oft verið prentaðir og þeim útbýtt, en annars eru þeir ekki flóknari en svo, að hver sæmilega skynsamur maður getur myndað sjer um þá nokkurnveginn rjetta skoðun. T. d. ætti formanni Sjómannafjelagsins ekki að vera óhægt um að vita, hve mikið af kolum fer á hverjum togara, hve mikið þarf af veiðarfærum og salti og hve stór liður kaupgjald manna er í gjöldunum o. s. frv. Hitt eru engin rök, að tilgreina, að árlegt andvirði aflans sje ½ milj. kr. Hjer er ekki spurt um það, heldur hve mikill tekjuafgangur verði árlega. — Heildarútkoman er sú, að útgerðin blessast sæmilega, sumir tapa töluverðu, aðrir hagnast dálítið, en enginn græðir mikið.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði farið eftir till. annara, þegar 6 tíma hvíldartíminn var til umr. hjerna um árið. Jeg veit sannarlega ekki, hversu slíkt mátti verða; jeg var alls ekki orðinn þingmaður þá og hafði þar enga umsögn, og þar að auki var jeg alls ekki hjer á landi. Annars gaf hann mjer það ráð, að jeg skyldi fara á togara og vinna eins og sjómaður. Jeg er viss um það, ef hv. 4. þm. Reykv. og jeg rjeðumst á togara og ynnum þar líkt og aðrir menn, mundum við steinhætta að rífast um þetta, því þar yrði gengið af okkur dauðum. Það er hvorugum okkar ætlandi að vinna á við hrausta sjómenn, aðrir eins slæpingjar og við erum í þeirri grein, en það sannar ekkert, að hraustir og fílefldir karlmenn þurfi meiri hvíld en þeir hafa.

Jeg ætla nú að skilja við hv. 4. þm. Reykv. og snúa máli mínu að hv. þm. V.-Ísf. Hann stóð upp sem nokkurskonar dómari yfir okkur hinum, til þess að úrskurða það, að við hefðum ekki komist að kjarna málsins, og mælti hann þar fyrir munn Framsóknarflokksins. Jeg hlýði vanalega með mjög mikilli athygli á það, sem þessi hv. þm. segir, og svo var einnig nú, því mjer ljek hugur á að vita, hvaða ný rök hann myndi færa fram. nú þegar hann stóð upp til þess að segja okkur, hvernig við ættum að líta á þetta mál. En jeg varð fyrir vonbrigðum. Raunar var það ekki nema eðlilegt, því að eins og jeg hafði hugsað mikið um þetta mál, þá átti jeg ekki að ganga þess dulinn, að það var ekki á hans færi að bera fram ný rök í því. Ræða hans var aðallega um afskifti breska löggjafans af hvíldartíma verkamanna eftir að vjeliðjan jókst þar í landi. Jeg veit ekki hvort allir háttv. þm. vita, að afskifti breska löggjafans voru alveg nauðsynleg, því að þau gengu í þá átt að sjá um, að börnum og konum væri ekki ofboðið með vinnu í verksmiðjunum, þar sem vinnan var söm og jöfn dag eftir dag allan ársins hring, en ekki eins og hjer, þar sem tafir verða oft miklar af óveðri og aflaleysi. En til þess að benda hv. þm. V.-Ísf. á það, svo og gervöllum þingheimi, hve mjög ræða hans var fyrir utan kjarna þessa máls, sem hjer liggur fyrir, vil jeg spyrja, hvað breski löggjafinn hafi gert til þess að vernda líf og heilsu sjómannanna á líkan hátt og hjer um ræðir. Það finst mjer, að hljóti þó að vera aðalkjarninn og skifta mestu máli um það, sem hjer er til umræðu. Jeg hygg, að háttv. þm. viti það, að breski löggjafinn hefir ekkert gert fyrir þessa menn; hann hefir ekki talið ástæðu til þess að hafa afskifti af því máli. Aftur á móti hafa útgerðarmenn og skipstjórar annarsvegar og skipverjar hinsvegar orðið sammála um það af reynslunni að láta hvíldartíma sjómanna ekki vera minni en 4 klukkustundir á sólarhring. Hjer er hvíldin 6 tímar og nú á að löggilda hana 8 tíma. Hjer stendur alt öðruvísi á en í verksmiðjunum bresku, og því álít jeg enga þörf á afskiftum hins íslenska löggjafa í þessu máli; því að það er töluverður munur á því, hvort altaf er unnið jafnt og þjett eða í skorpum. Hv. þm. V.-Ísf. hefir hjer skotið yfir markið, því að þótt breski löggjafinn hafi afskifti um vinnutíma í verksmiðjunum, er það þessu máli alveg óviðkomandi. Jeg skal auðvitað láta það, að þessi kafli í ræðu hv. þm. var mjög greindarlegur og skemtilegur, eins og flest frá þessum hv. þm., en jeg treysti mjer vel til þess að lesa upp einhvern kafla úr veraldarsögunni, sem væri einnig skemtilegur og fróðlegur, og gæti þá vel verið, að jeg gæti hitt á eitthvað, sem snerti mál þetta ekki minna en sá boðskapur, sem hv. þm. flutti okkur í ræðu sinni.

Hv. þm. heldur því fram, að nauðsynlegt sje að ofbjóða ekki vinnuþoli manna, alveg eins og enginn hafi sagt það áður, hve mikil nauðsyn sje á því og hve það er sjálfsagt að vernda líf og heilsu sjómanna. Hjer er alls ekki deilt um það, því að um það eru allir sammála. Hitt er verið að deila um, hvort til þess sje nauðsynlegt að lögfesta þennan hvíldartíma, sem hjer er farið fram á.

Í lok ræðu sinnar gaf hann mjer það svar, að þörfin lægi alveg í augum uppi, og rökstuddi þá skoðun sína með því að segja, að sá, sem að jafnaði fær aðeins 5 tíma hvíld, hljóti að þurfa á meiri hvíld að halda. Það blandast engum hugur um, að 5 tíma hvíld að jafnaði sje öllum ónóg, en kórvillan hjá háttv. þm. er sú, að hann blandar saman meðalhvíld og minstu hvíld eins og það sje eitt og hið sama. Á þessari villu byggir svo hv. þm. þá í sjálfu sjer óhrekjandi staðhæfingu, að sá, sem sefur 7 tíma að meðaltali á sólarhring, afkasti ekki minnu en hinn, er aðeins sefur 5 tíma, og nú er aðeins ein trappan ófarin, svo háttv. þm. komist í það friðland, sem hann sýnilega langar til, nefnilega, að úr því þetta sje nú alt svona. þá sje hitt líka víst, að útgerðin skaðist ekki af þessum lagafyrirmælum. Jeg hygg nú, að þessi bygging háttv. þm. sje á sandi bygð, og það er fyrst og fremst vegna þess, að honum hefir skotist yfir það veigamikla atriði, að sjómenn hafa altaf miklu meiri meðaltalshvíld en hv. þm. skýrði frá.

Jeg hefi skýrt frá þessu hjer áður, og jeg veit, að hv. þm. er svo eftirtektarsamur og minnugur, að það hefir varla farið framhjá honum, ef háttv. þm. hefir verið inni í deildinni. En jeg skal ekki telja það eftir mjer að endurtaka þau orð mín, svo að jeg viti, að háttv. þm. hafi hlýtt á þau. Jafnvel um háannatímann, vertíðina, hafa sjómenn miklu meiri meðaltalshvíld en 6 tíma, því bæði fá þeir aukna hvíld vegna frátafa, sem stafa af óveðri og við siglingu úr höfn og í, en eiga auk þess algert frí meðan skipin eru fermd og affermd í höfn. Á ísfiski eru vinnubrögð þeirra miklu minni, vegna þess að fyrst og fremst fá þeir mikla hvíld við frátafir sakir óveðurs, en auk þess vinna þeir aðeins 8 tíma, en hvílast 16, meðan siglt er til erlendra hafna og heim aftur, en til þess fer venjulega lengri tími en til veiða.

Þetta er nú í raun og veru það, sem sanna þurfti í þessu máli: hvort hjer væri um þörf að ræða, en ekki hitt, hvort auka ætti hvíldina, ef nauðsyn bæri til. Jeg hefi verið að reyna að leita mjer upplýsinga um það, með því að spyrja þann aðiljann, sem á við þetta að búa, sjómennina sjálfa. Sumir segja, að þess sje full þörf, en aðrir, að þess sje engin þörf. Jeg veit nú ekki, hvaða ályktun jeg á að draga af þessu, — eða er það ekki eðlilegt, að af þessum svörum verði dregið það, að það sje ekki þörf á þessari auknu hvíld? Út frá því verð jeg að ganga, því að innan sinna vjebanda mun hver stjett eiga menn, sem telja þörf á meiri hvíldartíma; en svo kemur hv. þm. og segir, að þessa sje full þörf. Jeg get ekki að því gert, að mjer koma í hug orðin: „Ræða yðar sje já, já, nei, nei, alt það, sem fram yfir er, er frá hinum vonda“. Jeg held, að ræða hv. þm. hafi átt að vera fullyrðingin ein, því að sönnun fann jeg hvort eð er enga hjá háttv. þm.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á það, að rök hv. þm. eru ekki alveg óyggjandi, og þó að ræða hv. þm. væri, eins og hans er venja, greindarleg og snjöll, þá kom hún þessu máli sáralítið við.

Í lok ræðu háttv. þm. vottaði fyrir meðvitundinni um, að þingið hefði nú þegar gengið fulllangt í þessu máli, og háttv. þm. skýrði frá því, að það væri óhætt að treysta því, að þingið myndi ekki ganga lengra í þessu efni, og sagði, að hann fyrir sitt leyti teldi, að 8 tíma hvíld væri nóg. Jeg veit nú ekki, hvort það er á færi hv. þm. að fullyrða neitt um það, hvað þingið muni framvegis gera í þessu máli, en jeg vil leyfa mjer að benda á það, að þingið 1921 kveður upp þann úrskurð, að gefnu tilefni, að það þurfi ekki 8 tíma hvíld, heldur 6 tíma, og ef þingið 1928 kveður upp þann dóm, að það sje ekki nóg að hafa 6 tíma hvíld. heldur þurfi 8 tíma, þá veit jeg ekki, hvar takmörk verða sett fyrir framhaldi í svipaða átt. Getur nú hv. þm. bygt á þessu þann dóm, að t. d. þingið 1930 eða 1940 gangi ekki lengra í þeirri breytingu, sem hv. þm. er farið að þykja nóg um?

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, og á heldur ekki eftir nema örstutta athugasemd, en jeg vil minna háttv. þingbændur á það, að þess er krafist í ár, að útgerðin greiði háan skatt, og um leið er vegið að henni með því að lengja hvíldartímann á skipunum. Það getur verið, að hv. þingbændur álíti, að þeim sje óhætt að stíga þessi spor, því að það sje endirinn. En jeg veit, að margir munu sjá, að það sje óþarfi og rangt að leggja þennan skatt á útgerðina, og það kemur dagur eftir þennan dag, og ekki þykir mjer ólíklegt, að jafnaðarmenn muni krefjast afgjaldsins reglulega, á meðan þeir styðja þá stjórn, er nú situr að völdum, og er bændum því rjettast að gera það upp við sjálfa sig, hve langt þeir vilja ganga í því að fylgja jafnaðarmönnum. Og þótt hv. þm. V.-Ísf. hafi leyft sjer að tala í nafni flokksins, þá vona jeg, að það hafi ekki verið ákveðin heimild til þess.